Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Við erum hér saman komin á fundi í Nd. á þeim degi þegar síðasti möguleiki er að skila inn frumvörpum. Okkur er sagt í fjölmiðlum að um það bil 30 frumvörp hafi verið lögð inn til skráningar í dag. Jafnframt var frá því sagt í Ríkisútvarpinu í kvöld að mikið starf lægi fyrir Alþingi og þess vegna yrði að halda fund í hv. Nd. í kvöld til að halda áfram afgreiðslu mála og koma þeim til nefnda. Því er fróðlegt að líta hér yfir þingsalinn og kanna hverjir eru viðstaddir, hverjir það eru sem hafa áhuga á því að koma málum áfram, koma þeim til nefnda. Hér sjást 10--11 hv. stjórnarandstæðingar og síðan fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar sem er annars vegar forseti sem hér verður að vera og hins vegar annar skrifari sem er úr stjórnarliðinu.
    Ekki ætla ég að fara að skamma þá sem ekki eru viðstaddir í kvöld, en ég tel nauðsynlegt að benda á þetta, ekki síst vegna þess að á undanförnum dögum höfum við stjórnarandstæðingar átt því að venjast að vera kallaðir hér inn í þingsalinn til þess að greiða fyrir því að mál geti farið til nefnda, einkum og sér í lagi stjórnarfrumvörp, þar sem hv. stjórnarsinnar hafa ekki mætt hér í nægilega ríkum mæli til þess að koma málum til nefnda með góðu móti.
    Það er einnig athyglisvert þegar nú er verið að fjalla um ýmis mjög merkileg mál sem hér eru á dagskrá í kvöld að aðeins einn hæstv. ráðherra hefur sést hér í mýflugumynd. Það er sá ráðherra sem ekki þarf að svara fyrir þá málaflokka sem frumvörpin fjalla um sem hér eru á dagskránni.
    Ég vil, virðulegur forseti, byrja á því að þakka hv. frsm. þess máls sem hér er til umræðu fyrir ágæta ræðu. Það kemur í ljós að hv. þm. hefur lagt mikla vinnu í það frv. sem hér er til umræðu, enda er málið mikilvægt. Hv. flm. sagði frá því að hæstv. ríkisstjórn kenndi sig --- það má segja kenndi sig í þátíð --- við jafnrétti og félagshyggju. Það var í árdaga þess stjórnarsamstarfs sem hér er við lýði. Upp á síðkastið hefur heldur minna
farið fyrir þessum frasa og virðist nú vera gleymt og grafið það sem átti að gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar samkvæmt þeim áformum sem lágu fyrir í upphafi.
    Um nokkurra ára skeið, og þó einkum fyrir svona um það bil tíu árum, var mikil umræða í þjóðfélaginu um svokallaða sjúklingaskatta. Ýmsir þeir sem kenna sig við jafnrétti og félagshyggju, ekki síst þeir sem eru lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum, töldu slíkar hugmyndir hinar verstu og það yrði að sporna við fæti til að koma í veg fyrir það að öfgamenn til hægri, frjálshyggjumenn, reyndu að koma hér á svokölluðum sjúklingasköttum. Þessir sjúklingaskattar sem þá voru til umræðu í þjóðfélaginu eða tillögur um þá voru á þann veg að hugsanlega kæmi til greina að fólk sem væri á fullum launum eða með fulla tryggingu tæki að einhverju leyti þátt í dvalarkostnaði á sjúkrahúsum takmarkaðan tíma, t.d. með því að

greiða matarkostnað eða hluta af matarkostnaði eða með öðrum hætti. Allir sannir vinstri menn, einkum og sér í lagi úr Alþb., risu þá upp og hrópuðu: Sjúklingaskattar! sjúklingaskattar! Síðan fengum við þessa ágætu hæstv. ríkisstjórn, ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju, ríkisstjórn þar sem Alþb. ræður æðimiklu, fer með mikilvæg ráðuneyti, þar á meðal fjmrn. Það leið eitt ár. Þá stóð þessi hæstv. ríkisstjórn að því að leggja á sjúklingaskatta, reyndar ekki á þá sem voru á fullum launum þegar þeir lágu inni á sjúkrahúsi heldur var byrjað þar sem garðurinn var hæstur. Það var valinn sá hópur fólks sem virtist að áliti ríkisstjórnarinnar hafa mest handa á milli til þess að standa straum af sjúklingaskattinum og fyrir valinu varð gamla fólkið.
    Um þetta atriði snýst það mál sem hér er til umræðu. Vissulega má færa rök fyrir því að það frv. sem hér er til umræðu hefði mátt ganga lengra. En eins og kom fram í máli hv. 1. flm. var tekin sú ákvörðun að rýmka þetta ákvæði sem nú er í lögunum þannig að greiðsluþátttakan yrði minni en hún er samkvæmt gildandi lögum. Það byggist m.a. á yfirlýsingu löggjafans eins og hún kemur fram í 41. gr. almannatryggingalaganna.
    M.a. af þeim ástæðum sem ég nú hef rakið er það furðulegt að ekki skuli vera hér í þingsal í kvöld fulltrúar þess flokks sem hæst hafði á sínum tíma og hafði uppi hróp og köll um sjúklingaskatta. Maður verður hissa á því að hv. þm. úr Alþb. skuli ekki grípa það tækifæri sem hér gefst til þess að koma í þingsal og ræða þetta mál --- og í þessum svifum birtist einn þeirra manna sem eiga sæti í þingflokki Alþb., ekki man ég nú gjörla hvort hann tók þátt í umræðunni gegn sjúklingaskattinum á sínum tíma og ekki veit ég heldur hvort hann í dag kærir sig um að vera kallaður málsvari Alþb. Það bandalag hefur breyst svo mikið að hv. þm. telur að hann eigi fremur samleið með öðrum en þeim sem hann er formlega í flokki með. Það er hins vegar gleðilegt að hann skuli vera kominn hér í salinn til þess væntanlega í fyrsta lagi að hlýða á og hugsanlega í öðru lagi að taka þátt í þeim umræðum sem hér eiga sér stað um þá ,,sjúklingaskatta`` sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á gamla fólkið í þessu landi.
    Það var ekki ætlan mín, virðulegur forseti, að fara mörgum orðum um
efnisatriði þessa frv. Það hefur þegar verið gert rækilega af hálfu 1. flm. Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að þakka hv. 1. flm. fyrir að hafa haft frumkvæði að því að leggja þetta frv. fram til þess að hægt sé hér á hinu háa Alþingi að sjá hverjir það eru sem hafa áhuga á því að ræða um þessa svokölluðu sjúklingaskatta. Áhuginn hefur þegar komið í ljós eins og ég hef sagt. Þetta mál fer nú til nefndar. Þar gefst enn kostur á því að ræða þessi mál og taka afstöðu. Einmitt vegna þess að skrefið er ekki stórt sem tekið er, það er ekki farin öll leiðin heldur er enn þá opin leið til þess að skerða að nokkru tekjur aldraðra, þá er þess vænst að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar komi til móts við flm. þessa frv. og sjái til

þess að þetta frv., annaðhvort í því formi sem hér er eða í breyttu formi, verði að lögum á yfirstandandi þingi.