Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Halldór Blöndal (frh.) :
    Herra forseti. Ég tel mig vera að halda áfram minni ræðu sem ég gat ekki lokið á síðasta fundi deildarinnar þar sem hæstv. iðnrh. var fjarstaddur og málinu var frestað af þeim sökum.
    Það mál sem hér liggur fyrir er mjög merkilegt. Það fjallar um Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins. Málefni þessa sjóðs voru lögð fyrir Alþingi á sl. vetri og á síðustu dögum þingsins var líka lagt fram frv. af hæstv. iðnrh. þess efnis að stjórn sjóðsins væri heimilt að leggja fram úr Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins hlutafé vegna stofnunar nýrra framleiðslu- eða markaðsfyrirtækja á sviði lagmetis eða taka þátt í hlutafjáraukningu í starfandi fyrirtækjum í lagmetisiðnaði í því skyni að auka vöruþróun, framleiðni eða markaðsstarfsemi þeirra. Þetta er orðið mjög vinsælt orðasamband, ,,í því skyni að efla framleiðni, vöruþróun og markaðsstarfsemi``. Ég hygg að svipaðir orðaleppar hafi verið notaðir í sambandi við
skipasmíðaiðnað og eru notaðir á ýmsum stöðum öðrum þar sem sá maður sem ber ábyrgðina þarf með einhverjum hætti að koma sér hjá því að ræða kjarna málsins, hina raunverulegu stöðu þeirrar atvinnugreinar sem í hlut á.
    Það sem er athyglisvert í sambandi við þetta mál er að það mat sem lagt er á Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins er nú mjög ólíkt því sem það var fyrir einu ári og ekki að sjá að það séu sömu aðilarnir sem standa að þessum frumvörpum báðum. Þannig segir í athugasemdum við 2. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir, herra forseti:
    ,,Neikvætt eigið fé Sölusamtakanna var skv. efnahagsreikningi 31. desember 1959 um 50 millj. kr. og þykir rétt að styrkja samtökin um þá fjárhæð þegar við gildistöku laganna.`` Jafnframt er um það rætt að sjóðurinn eigi verulegt fé útistandandi. Staða lagmetisiðnaðarins í heild sé mjög slöpp og sum fyrirtæki þurfi á verulegri aðstoð að halda.
    Í því frv. sem hæstv. iðnrh. lagði fram lauk grg. með þessum orðum: ,,Staða sjóðsins [þ.e. Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins] er sterk og því þykir eðilegt að auka möguleika sjóðsins til að rækja hlutverk sitt.`` Á þeim tíma þótti sjálfsagt að láta þennan þróunarsjóð ekki aðeins rækja það hlutverk sitt sem var að beita sér fyrir markaðsstarfsemi og nýjungum í lagmetisiðnaði. Fyrir einu ári mátti sjóðurinn ekki festa fjármagn sitt í fasteignum, hvorki fasteignum sjálfs sín eða festa kaup á hlutabréfum eða öðru slíku áður en lögunum var breytt. Um það hafði fallið úrskurður Ríkisendurskoðunar þannig að markmið Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins voru á þeim tíma, áður en sú lagabreyting var gerð fyrir einu ári sem ég hef gert að umtalsefni, mjög þröng. Var álitið að með þessari sjóðsstofnun væri nauðsynlegt að sameina kraftana til þess að styrkja lagmetisframleiðendur til söluátaks og þróunarstarfsemi. Nú veit ég að hæstv. iðnrh. er mér fullkomlega sammála um það að mikið skortir á að hægt sé að fylgja eftir framleiðslu sem

unnið hefur verið að, kannski með vísindalegum aðgerðum, kannski með aðstoð stofnana eins og Iðntæknistofnunar. Þá hefur reynst mjög erfitt að fylgja eftir slíku þróunarstarfi vegna þess að enginn aðili stendur á bak við markaðsstarfsemi og markaðsöflun erlendis þegar verið er að setja nýja framleiðslu á markað.
    Það er líka annað sem veldur því að einmitt þessi atvinnugrein, lagmetisiðnaðurinn, stendur mjög höllum fæti núna. Í grein sem hæstv. iðnrh. skrifaði í Morgunblaðið fyrir skömmu, þar sem hann bar sig til við að svara réttmætum og vel rökstuddum athugasemdum mínum við ræðu sem hann hafði flutt á ársþingi iðnaðarmanna, kemur m.a. fram að gengi íslensku krónunnar hafi verið orðið svo rangt á haustdögum 1988 að það hafi verið ógerningur að leiðrétta það í einum rykk. Það hefði þýtt þvílíka verðbólguholskeflu og þvílíka kjararýrnun að verkalýðshreyfingin mundi ekki hafa viljað una slíku. Hæstv. iðnrh. gerir okkur sjálfstæðismenn að skotspæni sínum þegar hann talar um að á þessum tíma hefðum við viljað taka stórt skref í þá átt að leiðrétta gengi íslensku krónunnar. En í sama orðinu og hann segir þetta, þá færir hann ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar það til málsbóta að raungengi íslensku krónunnar hafi lækkað um 15--20% frá árinu 1988. Geri ég þá ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé með meðaltölu í huga án þess að ég hafi séð neinn útreikning á því hvernig þessi tala er fundin, enda er þetta töluvert hlaup þegar sagt er að raungengi krónunnar hafi lækkað um 15--20%.
    Nú sé ég að hæstv. sjútvrh. situr við hlið hæstv. iðnrh. og það væri þá fróðlegt, herra forseti, ef hann vildi líka taka þátt í þessum umræðum og ef hann vildi svara því til hér í deildinni hvort hann sé sammála þessu mati hæstv. iðnrh., að það hafi verið forsendan fyrir hinni nýju stjórnarstefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar á haustdögum 1988 að halda genginu vísvitandi áfram verulega skökku þar sem hæstv. ríkisstjórn óttaðist að verkalýðshreyfingin mundi að öðrum kosti rísa upp og efna til átaka til þess að leiðrétta sín kjör. Þetta mat hæstv. iðnrh. á þessum tíma, að verkalýðshreyfingin hefði ekki fellt sig við þá kjaraskerðingu sem tillögur sjálfstæðismanna þá hefðu í för með sér, er umhugsunarefni fyrir varaformann
Verkalýðssambands Íslands sem situr við hlið hæstv. sjútvrh., ( Gripið fram í: Verkamannasambandsins.) Verkamannasambandsins, oddvita Alþfl. á Suðurnesjum, vegna þess að sú kjaraskerðing sem fólkið í landinu hefur orðið fyrir frá þessum tíma er miklu, miklu meiri en orðið hefði, jafnvel þótt farið hefði verið að þeim tillögum sem forstjóranefndin lagði til, að lækka kaup allra launþega í landinu um 9% á einu bretti á þessum tíma.
    Verkalýðshreyfingin hefur nú samið um það að kjararýrnunin skuli halda áfram á þessu ári. Og verkalýðshreyfingin hefur líka samið um það að kjararýrnunin skuli halda áfram á næsta ári fram yfir kosningar. Í máli sumra ráðherra hefur einmitt komið

fram þessi skemmtilega ábending, að ríkisstjórnin geti verið róleg fram yfir kosningar þó svo að ekki verði kosið fyrr en í apríl á næsta ári af því að stuðningsmenn hennar í verkalýðshreyfingunni séu búnir að tryggja það að ekki komi til átaka á vinnumarkaði á þessum tíma. Þessi ríkisstjórn fái þess vegna bullandi meðbyr og síðan muni verkalýðshreyfingin e.t.v. eftir þann tíma búa sig undir einhver átök.
    Það sýnir með öðru vesældóm þeirra manna sem eru í pólitísku forsvari fyrir Alþfl. og Alþb., en eru þó um leið trúnaðarmenn í verkalýðshreyfingunni, að þeir skuli ekki vera reiðubúnir til þess að setja það á oddinn hér á hinu háa Alþingi og krefja hæstv. forsrh. sagna um það hvenær að því komi að lánskjaravísitalan verði numin úr gildi. Um það liggja fyrir hreinar og beinar yfirlýsingar frá þeim tíma sem þessi ríkisstjórn tók til starfa að ef tækist að ná verðbólgunni niður, þá yrði lánskjaravísitalan líka felld úr gildi. Ég geri ráð fyrir því að verkalýðsleiðtogi Alþfl. sé kannski þeirrar skoðunar að við þurfum að notast við lánskjaravísitöluna áfram og sé kannski ekki sammála forsrh. um þetta efni.
    Þetta var útúrdúr og ekki kjarni málsins, en þó. Ráðherra Alþfl. telur það fram sem sérstakt ágæti fyrir stefnu ríkisstjórnar sinnar að búið er að lækka raungengi krónunnar síðan 1988 um 15--20% sem þýðir kjaraskerðingu sem er mjög veruleg, ekki síst þegar jafnframt er höfð hliðsjón af því að frá þessum tíma er búið að þyngja beina skattheimtu á launum manna um 4% í staðgreiðslukerfinu. Mér kæmi ekki á óvart þótt svo sé komið að kjararýrnunin frá þessum tíma sé jafnvel örlítið meiri.
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að taka það fram, af því að ég sá að hæstv. ráðherra flýtti sér að snúa við blaðinu og hefur ugglaust haldið að ég væri að reyna að lesa af borðinu, að því miður hef ég ekki sömu sjón og þegar ég var ungur. Ég hefði kannski reynt að notfæra mér ef ráðherrann hefði skilið eftir blað á glámbekk, ef ég hefði mína gömlu sjón. En svo er nú ekki lengur. Ég greini ekki orð í þessari fjarlægð þannig að hæstv. ráðherra er óhætt að snúa blaðinu við aftur.
    Nú er það svo að hæstv. ráðherra segir í Morgunblaðinu núna: Við urðum að hafa gengi krónunnar rangt, mjög rangt út árið 1988 og fram eftir ári og á árinu 1989 af því að við óttuðumst að verkalýðshreyfingin mundi að öðrum kosti rísa upp. Þessar upplýsingar eru í fullkomnu samræmi við þær upplýsingar sem fjh.- og viðskn. hefur fengið frá formanni Atvinnutryggingarsjóðs, Gunnari Hilmarssyni. Aðspurður lét hann þess getið að tapið á fyrirtækjum í útflutningsgreinum hefði orðið miklu meira á síðasta ársfjórðungi ársins 1988 en nokkurn hafði órað fyrir. Og hæstv. sjútvrh. lætur sér ekki bregða. Hæstv. sjútvrh. er kunnugt að allt sumarið 1988 stóð hæstv. iðnrh. á móti því að gengið yrði látið síga um þau 3% sem heimild var gefin til þegar ákveðið var að fella gengið í maímánuði 1988. Þá var gengið fellt um 10%. Allt sumarið stóð hæstv. iðnrh. á móti því sem

viðskrh., sem er sami maðurinn, að gengið yrði látið síga um sumarið. Allt sumarið stóð hann á móti því. ( Sjútvrh.: En forsrh.?) Forsrh. stóð ekki á móti því. Er hæstv. sjútvrh. að halda því fram að hæstv. forsrh. hafi staðið á móti því? ( Sjútvrh.: Já.) Sumarið 1988? ( Sjútvrh.: Já.)
    Herra forseti. Ég hef áður, þegar hæstv. viðskrh. hefur sagt þetta hér í Ed., skorað á hann að ræða þetta mál í Nd. eða Sþ. þar sem fyrrv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa málfrelsi. Ég hef borið þetta undir þá og þarna er greinilegt að ekki ber saman, það er greinilegt. Auðvitað er alveg óhjákvæmilegt að þetta mál verði ítarlega rætt hér í þinginu. Það er fróðlegt að heyra hæstv. sjútvrh. segja þetta. Það væri kannski fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. sjútvrh. hafi verið sammála þessu. Var hæstv. sjútvrh. sammála viðskrh. um það að ekki þurfti að nota gengissigið sumarið 1988? Var hann sammála því? Er hægt að fá það fram? Ef hæstv. sjútvrh. sér ástæðu til þess að grípa fram í til þess að reyna að koma höggi á fyrrv. samstarfsmenn sína í ríkisstjórn, sem ekki hafa málfrelsi hér í deildinni, er hann þá reiðubúinn til þess að segja hver hans afstaða var? Ég hlýt að hafa orð á því, herra forseti, að það er mikil sérstaða, það eru mikil forréttindi að vera reiðubúinn til þess að gefa yfirlýsingar um afstöðu manna í ríkisstjórn þar sem maður á sæti, annarra manna, en neita að gefa jafnstuttorða lýsingu á afstöðu sjálfs sín. Heldur hæstv. sjútvrh. að hann komist upp með það?
    Ég geri mér að vísu grein fyrir því að á þessum tíma var mjög náin, pólitísk vinátta milli þessara tveggja manna sem eru mér til vinstri handar í þeirri ríkisstjórn. Ég geri mér grein fyrir því að á þeim tíma komst ekki hnífurinn upp á milli þeirra. Ég geri mér líka grein fyrir því að á þessum sömu dögum var afskaplega náin vinátta og ekki komst hnífurinn upp á milli formanns Framsfl. og formanns Alþfl. Og það er líka rétt að á þessum tíma var formaður Alþb. mjög á ferðinni og var að bjóða mönnum í kaffi eða þiggja kaffi eins og hann er að gera núna. Hann er líka mikið á ferðinni núna að fá sér kaffi.
    Á þessum tíma voru formaður Alþfl. og formaður Framsfl. að búa sig undir að mynda nýja ríkisstjórn á meðan þeir þóttust vera í náinni samvinnu við Sjálfstfl. Og voru þeir með þeim hætti að endurtaka það sem gerst hafði fyrr í þeim svifum sem hræðslubandalagið var stofnað og ráðherrar Sjálfstfl. vissu
ekki annað en að þeir menn sem þá voru í ríkisstjórn með þeim fyrir hönd Framsfl. væru hreinir og beinir í sinni samvinnu. Þá var það hræðslubandalag stofnað með því að menn töluðust einslega við í Alþfl. og Framsfl.
    Nú hef ég, herra forseti, hér við hliðina á mér tvo ráðherra úr ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Báðir þessir menn hafa í frammíköllum sagt við mig, annar þeirra áður og hinn núna, að Þorsteinn Pálsson hafi haft ákveðna afstöðu til gengissigsins og hún hafi verið sú að hann hafi ekki viljað nýta 3% heimildina. En hvorugur þeirra er maður til þess að lýsa því hvaða

afstöðu sjútvrh. hafði á þessum tíma, hvorugur þeirra. Ætli þeir haldi að þeir komist upp með það? Það er nógur dagurinn í dag. Og ég get sagt þeim það, þessum ráðherrum báðum, að ég ætla mér að fá fram af vörum hæstv. sjútvrh. hér í dag hvaða afstöðu hann hafði til gengissigsins sumarið 1988. Hann getur flýtt og greitt fyrir störfum þingsins með því að svara mér úr sæti sínu eins og hann hefur lýst afstöðu Þorsteins Pálssonar. Ef hæstv. sjútvrh. lætur sér detta í hug eitt andartak að frammíkall af þessu tagi sé eitthvað sem hann komist upp með hér vegna þess að Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson og Birgir Ísl. Gunnarsson eiga sæti í Nd. en ekki í Ed. þá er það misskilningur. En það er best að víkja nánar að þessu síðar þegar ég hef rætt nokkur atriði sem ég vil gera að umræðuefni í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu.
    Í september 1988 var gengi krónunnar mjög rangt. Ég lýsi því báða hæstv. ráðherra ósannindamenn að því að Sjálfstfl. hafi ekki viljað láta gengið síga sumarið 1988. Ég lýsti hæstv. sjútvrh. ósannindamann að því að hæstv. forsrh. þá, Þorsteinn Pálsson, hafi ekki viljað láta það síga og ég fullyrði, herra forseti, og ég skora á hæstv. sjútvrh. að segja þetta ósatt ef ég fer með fleipur, ég fullyrði að hann og forsrh. þeirrar ríkisstjórnar hafi átt samtal um það sumarið 1988 að nauðsynlegt væri að gengið yrði látið síga. Ég fullyrði að þetta sé rétt og ég fullyrði að þetta mál muni koma til umræðna og athugana í þinginu frekar og verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð hæstv. sjútvrh. verða þegar þar að kemur. Ég fullyrði líka að það er rétt að þegar þessi ríkisstjórn sat, ekki veit ég hvað síðan hefur gerst, þá hafi sjútvrh. verið málhreifari á
ríkisstjórnarfundum og haft meiri skoðanir á því og frekari skoðanir á því hvernig ætti að bregðast við vanda sjútvrn. og sjávarútvegsins í heild þegar formaður Framsfl. var erlendis en þegar formaður Framsfl. var hér á landi. Ég sé að nú er forsrh. þeirrar ríkisstjórnar kominn hér inn í salinn, hefur ekki málfrelsi, en af því tilefni vil ég aðeins rifja upp, herra forseti, að sjútvrh. var með frammíkalli að upplýsa þingheim um að meðan Þorsteinn Pálsson var forsrh., sumarið 1988, hafi hann verið andvígur því að nýta það svigrúm sem 3% heimild til gengissigs gaf sumarið 1988. Þorsteinn Pálsson hafi verið sammála viðskrh. um það að nýta ekki þetta gengissig. Ég fullyrti að þetta væru ósannindi. Ég fullyrti að þáv. forsrh. og þáv. sjútvrh. hefðu átt um það samræður sín á milli að þetta gengissig yrði nýtt. Ég hef skorað á hæstv. sjútvrh. að skýra frá því hér í deildinni hvort hann hafi viljað nýta gengissigið sumarið 1988. Ég hef skorað á hæstv. viðskrh. að upplýsa hvort sjútvrh. í þeirri ríkisstjórn hafi viljað nýta heimildina til gengissigs. Þó svo að báðir þessir ráðherrar hafi í frammíkalli talað um afstöðu formanns Sjálfstfl. er hvorugur þeirra maður til að svara þessari einföldu spurningu. Og það er ekki undarlegt miðað við óheilindin sem eru í kringum þá. ( ÞP: Þeir neituðu báðir að fella það í september.)
    Þá skulum við halda áfram. Fyrir einu ári var

hæstv. iðnrh. svo bjartsýnn að hann taldi að kannski væri hægt að útvíkka hlutverk Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins, en nú er Þróunarsjóðurinn sem sagt leystur upp. Og það sem er alvarlegra í þessu máli er það að í ræðu sinni og í greinargerð með frv. fullyrðir iðnrh. að stærsta aðildarverksmiðja Sölusamtaka lagmetis, niðursuðuverksmiðja K Jónssonar & Co hf. á Akureyri, beri ábyrgð á öllum skuldum samtakanna að sínu leyti ef til gjaldþrots kæmi til jafns við aðra. Þetta er algerlega rangt. Hitt er rétt að þessi stofnun hefur greitt um 30 millj. kr. í stofnsjóð samtakanna. Það er rétt. En hvaðan kemur hæstv. ráðherra heimild til þess að gefa lögfræðilegt álit af þessu tagi hér í deildinni og hér á Alþingi og segja bara hér eins og ekkert sé að þessi verksmiðja beri ábyrgð á öllum ákvörðunum þessara samtaka? Hvaðan kemur honum þessi heimild? Hefur hann athugað málið? (Gripið fram í.) Hann hefur athugað málið. Þetta er svona eins og þegar hann sagði að fyrrv. forstjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri hefði verið ævintýramaður í þeim rekstri. Það eru kannski engin takmörk fyrir dugnaði hæstv. ráðherra en honum getur skotist. Og ekki er maðurinn lögfræðingur, svo mikið er víst. Ég held að hann ætti að láta þeim mönnum sem eru lærðir á því sviði eftir að meta hvar ábyrgð liggur
(Gripið fram í.) --- og það hefur hann gert. ( KP: Þeir eru nú misjafnir.) Ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt, herra forseti, að fá að sjá þessi plögg. Ég er ekki að fara fram á það í Ed. en það er nauðsynlegt að fara vel ofan í þetta mál. Iðnrh. segir: Það hef ég líka gert. Ég hef allt aðrar upplýsingar en hæstv. iðnrh., allt aðrar upplýsingar. Það er oft sem maður hefur aðrar upplýsingar en iðnrh. En það er kannski þannig að hinum skjöplist, iðnrh. viti fyrir víst hvað rétt er. En ekki sá nú iðnrh. fram í tímann fyrir einu ári þegar hann var að víkka út verkefni Þróunarsjóðsins, svo mikið er víst.
    Lagmetisiðnaðurinn hefur farið halloka. Hver ber ábyrgð á því? Ætli niðursuðuverksmiðja Kristjáns Jónssonar beri líka ábyrgð á því? Ég man ekki betur en þegar fyrir einu ári hafi niðursuðuverksmiðja Kristjáns Jónssonar, sem hæstv. iðnrh. telur nú að beri ábyrgð á öllum skuldbindingum Sölusamtaka lagmetisins, skrifað ríkisstjórninni bréf þar sem ekki var farið fram á neinar gjafir heldur lántökuheimildir til þess að byggja upp nýja framleiðslu, til þess að mæta því mikla atvinnuleysi sem fyrirsjáanlegt var á Norðurlandi og til þess að reyna að mæta því, ef ekki opnuðust á nýjan leik markaðir í Þýskalandi fyrir niðursoðna rækju eða almennt fyrir lagmeti héðan frá Íslandi.
    Hæstv. forsrh. sendi þetta bréf hæstv. iðnrh. til svars. Það liðu einhverjir mánuðir áður en bréfinu var svarað og þá auðvitað neitandi og málinu ekki sýndur áhugi. Nú hefur þessi niðursuðuverksmiðja beitt sér fyrir nýjungum áfram og er að byggja sig upp. Ég skal ekki segja hversu margir hafa fengið atvinnu hjá þessu fyrirtæki nú, hversu mikil viðbótin er, einhverjir tugir. Þessi verksmiðja stendur mjög vel, enda stjórn

hennar einstök. Sumar niðursuðuverksmiðjur aðrar hafa skilað þokkalegum og jafnvel góðum hagnaði, aðrar ekki. En hvernig stendur á því að greinin í heild sinni stendur svo illa og stóð svo illa á árunum 1988 og 1989? Ætli viðskrh. og iðnrh. hafi haft nokkuð um það að segja á þeim árum? Viðskrh. er búinn að lýsa því yfir í Morgunblaðinu að gengi krónunnar hafi verið verulega rangt skráð 1988. Sjútvrh. vill ekki svara því hvort hann hafi haft nokkra skoðun á því máli þá. Og í ummælum iðnrh. og viðskrh. felst að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi skipulagt hallarekstur í sjávarútvegi, í útflutningsgreinum og samkeppnisiðnaði haustið 1988 og á árinu 1989, enda var það svo í kjarasamningunum fyrir einu ári að vinnuveitendur settu fram þá kröfu að útflutningsatvinnuvegunum yrðu búin viðunandi rekstrarskilyrði, viðunandi samkeppnisstaða. Það dróst hins vegar fram eftir sumri að svo yrði.
    Við getum auðvitað bent á sérstakar greinar í sjávarútveginum sem standa mjög illa. Hvernig stendur t.d. bátaútvegurinn? Ég veit að hluti hans stendur mjög vel en að hluta til stendur bátaútvegurinn frammi fyrir miklum erfiðleikum, sérstaklega á þeim stöðum þar sem útgerðarmennirnir eru að reyna að tryggja atvinnu heima í héraði í staðinn fyrir að flytja fiskinn út í gámum eða selja á uppboðsmarkaði. Þar stendur bátaútvegurinn miklu betur þannig að efnahagur og rekstrarafkoma bátaflotans er mjög mismunandi eftir aðstæðum. En niðursuðuiðnaðurinn hefur staðið höllum fæti og hæstv. viðskrh. ber fulla ábyrgð á því, ekki síst eftir að í ljós hefur komið að hann viðurkennir fullum fetum að gengið hafi verið svo rangt skráð í september 1988 að ekki hafi verið hægt að leiðrétta það í einum rykk. Eignaupptaka hjá almenningi í landinu, eignaupptaka hjá þeim mönnum sem stóðu fyrir þessum rekstri, mönnum sem höfðu kannski varið allri sinni ævi og fjölskyldum sem höfðu varið allri sinni ævi í að byggja upp fyrirtækin, skipulögð eignaupptaka. Og afsökun ráðherrans í Morgunblaðinu er sú að leiðrétting gengisins hefði haft í för með sér mikla verðbólgu og lífskjaraskerðingu sem verkalýðshreyfingin hefði ekki unað við, hvaðan sem hann hefur haft þær upplýsingar að verkalýðshreyfingin hefði ekki unað við það í september 1988 að gengi krónunnar væri rétt skráð. Ekki skal ég segja hvaðan hæstv. viðskrh. hefur þær upplýsingar. Hann hefur kannski athugað það líka eins og hann hefur sérstaklega athugað ábyrgðir niðursuðuverksmiðju Kristjáns Jónssonar og sérstaklega athugað hvernig sú verksmiðja stendur að þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hjá Sölusamtökum lagmetis. (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég tek eftir því að iðnrh. fær stundum málið, en ekki ef maður spyr hann beinna spurninga.
    Ekki skal ég um það segja hvernig iðnrh. hyggst minnast þess að búið er að koma málum þannig fyrir að eignir Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins fara allar í það að greiða uppsafnaðan hallarekstur lagmetisiðnaðarins vegna rangrar stjórnarstefnu þessarar ríkisstjórnar. Ekki skal ég um það segja. Þetta

er náttúrlega mikill minnisvarði. Þetta er svona álíka minnisvarði og við sjáum víða um land þar sem skipasmíðaiðnaðurinn stendur höllum fæti. Fyrir einu ári var líka búið að leysa öll mál í sambandi við ullariðnaðinn. Ullariðnaðurinn hefur staðið mjög höllum fæti og sumt af erfiðleikum hans má beinlínis rekja til þess að ríkisstjórnin hefur vísvitandi haldið genginu uppi. Vísvitandi, eins og fram kemur í grein viðskrh.
    Í sjónvarpinu í gær var sagt frá því að bændur í Reykjadal hafi skrifað umboðsmanni Alþingis bréf þar sem þeir töldu sig illa blekkta af stjórnvöldum.
Með loforðum voru þeir hvattir til þess að fara út í loðdýraframleiðslu. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem hún gaf loðdýrabændum, hún hefur ekki staðið við þau, hvergi. Og til viðbótar við hin sviknu loforð ríkisstjórnarinnar stendur að gengi krónunnar var rangt. Viðskrh. segir að gengi krónunnar hafi verið svo vitlaust í september 1988 að ekki hafi verið hægt að leiðrétta það í einum rykk. Hver tapar þegar ekki er hægt að leiðrétta í einum rykk? Var iðnaðarráðherrann sammála viðskiptaráðherranum? Taldi iðnrh. það skynsamlegt fyrir þá hagsmuni sem hann bar ábyrgð á sem iðnrh. að gæta samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar, íslensks samkeppnisiðnaðar? Hann segir í þessari grein sinni að hann hafi borið gerðir sínar undir iðnrekendur og gefur í skyn með orðalagi að iðnrekendur hafi verið óskaplega kátir og glaðir yfir því hversu vel hefur verið staðið að þeirra málum. Þó hefur markaðshlutdeild iðnaðarins ekki aukist. Kaupmáttur hefur minnkað verulega í landinu, samdráttur orðið í framleiðslu og innflutningi, en samt sem áður hefur markaðshlutdeild samkeppnisiðnaðarins ekki aukist, ekki vaxið. Voru iðnrekendur virkilega ánægðir með það? Iðnrekendur greiða núna 15--20% lægra
kaup en fyrir tveimur árum og samt eru þeir að segja upp fólki. Eru iðnrekendur ánægðir með það? Hafa þeir ekki meiri metnað fyrir sitt fólk en svo að þeir láti sig litlu eða engu skipta þó kaupmáttur þeirra sem hjá þeim vinna rýrni um 15%, skiptir það atvinnurekandann engu máli? Ætlar ráðherrann að láta þá skrifa upp á þessar kringumstæður og þessar rekstraraðstæður, þessa starfsaðstöðu? Hvernig dettur honum í hug að gefa svona lagað í skyn?
    Auðvitað eru iðnrekendur hundfúlir yfir því að rekstur þeirra skuli ekki gefa meira af sér. Auðvitað eru iðnrekendur fúlir yfir því að þessi ríkisstjórn skyldi hafa tekið til baka þær miklu skattalegu leiðréttingar sem gerðar voru vorið 1988. Auðvitað eru iðnrekendur hundfúlir yfir því hvernig staðið hefur verið að virðisaukaskattinum. Og auðvitað eru fleiri hundfúlir yfir því.
    Landssamband iðnaðarmanna, er það ánægt? Eru öll aðildarfélög Landssambands iðnaðarmanna ánægð? Það kemur kannski næst upp að eigendur fyrirtækja í lagmetisiðnaði séu mjög ánægðir yfir því hvernig að þessum rekstri hefur verið staðið.
    Þetta stendur svona. Þingmálið er þetta, að leggja niður sjóð sem fyrir einu ári hafði möguleika á því að

auka umsvif sín. Þingmálið er þetta, að leggja niður sjóð sem hefur það að markmiði að styrkja þróunarstarf í lagmetisiðnaði og markaðsöflun erlendis. Þingmálið er þetta, að taka sjóð sem í jákvæðu augnamiði er byggður upp, eigið fé þess sjóðs var byggt upp með því að skattleggja fyrirtækin í lagmetisiðnaði. Þingmálið er þetta, að nú skuli taka sjóðinn og deila honum milli framleiðenda til þess að bæta þeim upp gengismuninn síðan 1988, tapið sem má rekja til þess að ríkisstjórnin hafði ekki kjark til að leiðrétta gengisskráninguna 1988. Þetta er texti dagsins.
    Ég er auðvitað þakklátur viðskrh. fyrir að skýra frá því, herra forseti, svona beint í blaðagrein, segja að gengið hafi verið svona rammvitlaust þarna um haustið og hann hafi ekki haft kjark til þess að leiðrétta það. Við hlið hans stendur sjútvrh. sem blessaði athöfnina og sá sérstaka ástæðu til þess að hlaupa í krata- og kommafaðminn, í þann fína og hreina félagsskap sem þar er. Ég verð þó að segja það, og meina það alveg fullkomlega, ég ann þeim félagsskaparins, hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh. Ég ann þeim þess að vera í félagsskap með hæstv. fjmrh. og þeim öflum sem standa að Nýjum vettvangi. Ég ann þeim þess að vera í félagsskap með þeim mönnum sem eru eftir í Alþb. Og ég ann þeim þess að vera með þeim mönnum sem flæmdu stofnanda Borgfl. úr landi. Sækjast sér um líkir.
    Hvernig er nú ástandið hjá Alþb.? Hvað er G-listi? Hugsa sér annað eins, að maður skuli upplifa það að Ríkissjónvarpið skuli spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann kjósi G-listann. Ég bíð bara eftir því að einhverjir fjölmiðlamenn hlaupi til og spyrji Ragnar Arnalds hvort hann kjósi G-listann.
Hugsa sér þegar fjölmiðlun er komin á svo ruglingslegt stig og pólitíkin er orðin svo óhrein að formaður Alþb. styður ekki Alþb. í Reykjavík.
    Hugsa sér að við þingmenn skulum hafa fengið í pósti í gær bréf frá Nýjum vettvangi þar sem okkur er sagt frá því að Nýr vettvangur taki undir tillögur Geirs Gunnarssonar alþingismanns um það að frv. um stjórn fiskveiða verði frestað fram á næsta þing á sama tíma og það liggur fyrir að Framsfl. leggur á það höfuðáherslu hér í þinginu að þetta frv. fái afgreiðslu. Hugsa sér það að í dymbilviku, þegar unnið var að athugun þessa frv., var fulltrúi Alþfl. í sjútvn. Ed. farinn vestur. Ég vakti athygli formanns nefndarinnar á því að Alþfl. ætti þar engan fulltrúa og Alþfl. var boðið að senda fulltrúa til að sitja fundi sjútvn. Ed. þegar frv. um stjórn fiskveiða var athugað og eftir því gengið. Alþfl. sá ekki ástæðu til að senda fulltrúa. Og af hverju ekki? Vegna þess að Alþfl. er að reyna að tefja fyrir þessu máli og er að reyna að koma því í kring að það fái ekki afgreiðslu á þessu þingi. Og af hverju skyldi það vera? Ætli svarið við því sé ekki mjög ljóst? Dettur einhverjum manni í hug að Alþfl., á meðan hann er að eiga við Ólaf Ragnar og þennan samtíning sem er í Nýjum vettvangi, kæri sig um að hafa hreinar línur í því málefni sem er stjórn fiskveiða? Vissulega var unnið að því ágæta

máli í nefnd sem skipuð var lögum samkvæmt. En ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að þetta frv. yrði flutt sem stjfrv., sem auðvitað gefur til kynna að ríkisstjórnin taldi sig hafa burði til þess að meðhöndla það sem slíkt. Og þá er spurningin: Ætli hreinleiki Alþfl. sé slíkur að hann hafi gert sér grein fyrir því hvaða stefnu hann hafi í því máli? Ég þori að fullyrða að svo er ekki. Ég þori að fullyrða að ráðherrar Alþfl. hafi ekki í neinni alvöru rætt þetta mál.
    Ég vil svo að síðustu spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann telji að mikið fé komi til skipta þegar upp verður staðið, þegar búið verður að leysa upp Þróunarsjóðinn, greiða skuldir Sölusamtakanna. Og spyrja hann að því hvort hann hugsi sér, ef einhverjar eignir verða eftir, að þær renni til fyrirtækjanna í réttu hlutfalli við þær eignir sem fyrirtækin eiga í stofnsjóði eða hvort hann hugsi sér að hafa einhverja aðra aðferð við það. Ég held það sé alveg nauðsynlegt að það komi fram. Hér stendur: ,,Eignarhlutur sjóðsins í fasteigninni að Síðumúla 37, Reykjavík verði seldur og andvirði eignarinnar varið til að styrkja Sölusamtök lagmetis og lagmetisframleiðendur utan Sölusamtakanna.`` Þetta atriði vekur líka aðra spurningu: Hvenær eignaðist Þróunarsjóðurinn þetta hús? Er hér verið að tala um þá gömlu eign? Ég hélt að Þróunarsjóðurinn ætti ekki þetta hús, ég hélt að það hefði verið selt fyrir löngu. Það er víst misskilningur minn, rangminni. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hversu mikill þessi eignarhlutur er í húsinu, hvenær hann sé til kominn, eignarhlutur Þróunarsjóðs í þessari húseign. Ég held að væri líka fróðlegt að fá upplýsingar um það hversu mikið fé það er sem iðnrh. telur að komi til skipta. Og enn fremur hvort hugmyndin sé að skipta fénu í réttu hlutfalli við framlög fyrirtækjanna í stofnsjóð. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram.