Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur látið örfá orð falla um þingmálið sem hér er til umræðu. Þetta þingmál er um það að létta sköttum af lagmetisiðnaðinum og hrognaframleiðendum. Þetta þingmál er um það að nýta fé, sem greinin hefur safnað á þeim 17 árum sem þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði, til þess að leysa brýnan fjárhagsvanda, sameiginlegan, í greininni. Þetta þingmál er um það að láta af ríkisafskiptum af sölumálum lagmetis sem staðið hafa í 17 ár og því miður ekki skilað góðum árangri. Þetta þingmál er um það að nota þennan sjóð til að leysa þann vanda sem nú er brýnastur í þessum atvinnuvegi. Þetta þingmál er líka sama eðlis og það þingmál sem flutt var á síðasta þingi um að víkka starfssvið sjóðsins, gera honum kleift að bregðast við vanda greinarinnar eins og hann birtist mönnum þá, svara kalli tímans. En mér er það ljúft að láta uppskátt að endurmat á þessu fyrirkomulagi, athugun á því hvernig fénu hefur verið ráðstafað á undanförnum árum, leiddi til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir í frv. Ég leyfi mér að segja að eigendur lagmetisfyrirtækjanna séu vel sáttir við það, reyndar ánægðir, ef hægt er að tala um ánægju þegar menn standa frammi fyrir jafnmiklum efnahagsvanda og hér er á ferðinni.
    Hitt er svo ekki rétt að fjárhags- og efnahagsvandi þessarar greinar stafi eingöngu af skammtímasveiflum í gengi krónunnar. Því miður er málið ekki svo einfalt. Þessi grein á í harðri samkeppni, m.a. við framleiðendur í láglaunalöndum Suðaustur-Asíu og Suður-Ameríku. Greinin á þess vegna mjög á brattann að sækja. Hún lenti líka í óvenjulegum truflunum í sínum sölumálum og sínum markaðsmálum á liðnum árum sem ég ætla ekki að rifja upp hér. Nefni það eingöngu að ég tel að sú tillaga sem frv. geymir sé raunsætt mat á því hvernig eigi að taka á þessu máli.
    Ég endurtek að ég tel ekki vera í því neina mótsögn að beita nú afli þessa sjóðs á þennan hátt. Hinar beinu spurningar hv. 2. þm. Norðurl. e. um það hversu mikið fé muni koma til skipta þegar upp verði staðið, því treysti ég mér ekki til að svara öðruvísi en gert er í grg. frv. Þeim eignum sjóðsins sem eru lausar eða geta losnað verður ráðstafað til að gera upp þetta vandræðamál sem Sölusamtökin hafa lent í. Þar verður líka gætt hagsmuna þeirra sem ekki eru aðilar að samtökunum en hafa lagt til sjóðsins. En vegna þess sem hv. þm. nefndi, og er vissulega rétt, að það þurfi að stuðla að markaðsöflun og vöruþróun í þessari grein, þá tel ég heppilegra að gera það í almennari stofnunum, ekki svona þröngum sérstofnunum, ekki með beinni skattlagningu á hrognaframleiðendur eins og þarna verður eða á greinina sjálfa. Þess vegna verða eftirstöðvar fjárins, fyrst og fremst verðbréfaeign og torleysanlegar eignir, lagðar til markaðs- og vöruþróunardeildar Iðnlánasjóðs.
    Ég vona, virðulegi forseti, að með þessu hafi ég svarað því sem til mín var beint um þetta þingmál og

endurtek að ég tel það ákaflega mikilvægt fyrir þessa grein, fyrir fólkið sem vinnur í þessum fyrirtækjum, að þetta þingmál fái skjóta afgreiðslu, eins og reyndar kom fram við 1. umr. málsins.