Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Frsm. minni hl. félmn. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. félmn. Eins og fram hefur komið þá hefur félmn. fjallað um frv. og sent það til umsagnar ýmissa aðila, eins og fram kom í máli frsm. meiri hl. nefndarinnar og formanns hennar, hv. 4. þm. Suðurl. Nefndin fjallaði um þetta frv. á sex fundum. Þessu máli var vísað til nefndar 20. mars og var afgreitt úr nefndinni 6. apríl. Á þessu tímabili voru haldnir sex fundir um málið og eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Suðurl., formanns nefndarinnar, þá var sjöundi fundurinn haldinn í gær eftir að málið hafði verið afgreitt úr nefndinni en var tekið upp að nýju vegna þess að borist hafði umsögn frá stjórn Húsnæðisstofnunar sem var dagsett 11. apríl eða fimm dögum eftir að málið var afgreitt úr nefndinni. Þetta sýnir kannski best hve mikið lá á að afgreiða þetta mál og hversu stuttan tíma það fékk til umfjöllunar. Í umsögn stjórnar Húsnæðisstofnunar koma fram ýmsar athugasemdir við frv., bæði jákvæðar og eins ýmis atriði sem talið er að þurfi að breyta í frv. og því hefði verið full ástæða til að skoða þetta mál miklu betur.
    Það má ekki skilja orð mín svo að ég sé að gagnrýna vinnubrögð formanns nefndarinnar. Þvert á móti tel ég að hún hafi lagt sig fram um að vinna að þessu máli eins vel og hægt var og afla þeirra upplýsinga sem beðið var um miðað við þann stutta tíma sem við höfðum til umfjöllunar. Ég held að ekki hefði verið hægt að gera það betur þegar þannig er staðið að málum að fyrir fram er ákveðið að keyra málið í gegnum þingið á allt of skömmum tíma. Gagnrýni mín beinist fyrst og fremst að því að svo viðamiklu máli, sem hér er um að ræða, er ætlaður svo skammur tími sem raun ber vitni og það tillitsleysi, og ég vil leyfa mér að segja virðingarleysi, sem stjórnarandstöðunni eða þingmönnum Sjálfstfl. er sýndur með því að gefa ekki lengri tíma til umfjöllunar um þetta viðamikla mál.
    Þetta er í þriðja sinn sem hæstv. félmrh. flytur frv. sem fela í sér breytingar á lögum um húsnæðismálin. Áður hafa verið flutt frv. um húsbréfakerfið og kaupleiguíbúðirnar og svo nú um félagslega íbúðar- eða húsnæðiskerfið.
    Ég tel þetta ekki vera heppileg vinnubrögð að slíta þennan lagabálk svona í sundur í stað þess að taka á málinu í heild og láta fara fram heildarendurskoðun á lögunum. Þá væru væntanlega ekki svo margir óvissuþættir til staðar við afgreiðslu þessa frv. nú.
    Þess má geta að t.d. í umsögn þeirri sem okkur barst frá Húsnæðisstofnun er einmitt bent á það í lok umsagnarinnar að á undanförnum árum hafi verið gerðar miklar breytingar á húsnæðislöggjöfinni. Af þeim sökum telur húsnæðismálastjórn að ástæða sé til að huga að heildarendurskoðun á löggjöfinni og ég vil vissulega taka undir þetta.
    Ég sný mér þá að nál. minni hl. félmn. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér er um þýðingarmikið mál að ræða sem varðar hverja fjölskyldu í landinu. Málið hefði því þurft

lengri tíma og ítarlegri umfjöllun í nefndinni en raun ber vitni, ekki síst þegar haft er í huga að ekki var leitað breiðrar samstöðu við undirbúning frv. og áttu þingmenn Sjálfstfl. þess ekki kost að kynna sér frv. fyrr en það var lagt fram á Alþingi.
    Þó að ýmis atriði frv. séu til bóta miðað við núgildandi lög þá eru margir óvissuþættir sem orka tvímælis, og ekki liggur ljóst fyrir hver áhrif þess verða á lánakerfið í heild, m.a. á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Ein veigamesta breytingin varðar skipan í húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Samkvæmt frv. bera sveitarstjórnir í landinu alfarið fjárhagslega og framkvæmdalega ábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu. Þess vegna ber að tryggja það með lögum að meiri hluti sveitarstjórna eigi ávallt meiri hluta í húsnæðisnefndum. Ekki náðist samstaða um það atriði í nefndinni.
    Minni hl. nefndarinnar ítrekar að nauðsynlegt hefði verið að nefndin fengi lengri tíma og ítarlegri upplýsingar til að vinna að málinu. Slíkt reyndist ekki unnt. Því treystir minni hl. sér ekki til að taka afstöðu til frv. á þessu stigi og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. rita Salome Þorkelsdóttir og Guðmundur H. Garðarsson.
    Ég vil bæta því við að ég tel að þær breytingar, sem nefndin leggur til við frv., séu yfirleitt til bóta. En það hefði þurft að skoða miklu fleira í þeim efnum. Ég fagna því að tekið var tillit til tillögu minnar er varðar tvær brtt. við frv. Þær láta að vísu lítið yfir sér en það eru 1. brtt. við 3. gr., a-lið, að í stað orðsins ,,félagslegum`` er notað orðið ,,viðráðanlegum``. Manni finnst einhvern veginn hljóti að vera erfitt að meta við hvað sé átt þegar verið er að tala um eitthvað sem eigi að meta eftir félagslegum kjörum. Það hlýtur að vera átt við að það sé viðráðanlegt fyrir þá aðila sem hlut eiga að máli hverju sinni.
    Það má einnig benda hér á í framhaldi af því sem ég sagði áðan um umsagnir sem bárust að einnig barst umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja
eftir að málið var afgreitt úr nefndinni. Hún var dagsett 9. apríl. Einnig bárust sérálit frá tveimur fulltrúum í húsnæðismálastjórn sem gera athugasemdir varðandi skipun í húsnæðisnefndirnar. Þar leggja þeir áherslu á að verkalýðshreyfingin hafi, sem áður, mikil áhrif á skipun þeirra nefnda sem um þessi mál fjalla á hverjum stað, eins og þeir segja. Eins og fram hefur komið þá var ekki fallist á að breyta skipan í húsnæðisnefndir þannig að tryggt sé að sveitarstjórnir, sem eiga að bera þessa ábyrgð, beri einnig ábyrgð á meiri hluta húsnæðisnefndanna. Ég tel nefnilega að jafnvel þessi athugasemd frá þeim félögum, Birni Þórhallssyni og Grétari Þorsteinssyni, að það væri ekkert síður möguleiki á að tryggja jafnvel enn þá sterkari stöðu verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðisnefndunum ef sveitarstjórnirnar bæru alfarið ábyrgð á skipan þeirra. Því að ég hef það traust á sveitarstjórnum að þær leggi sig fram um á hverjum

tíma að skipa í nefndir það fólk sem best þekkir til mála í viðkomandi málaflokkum. Í þessum tilvikum þá teldi ég að það hlyti að vera lögð áhersla á það hjá sveitarstjórnum að tryggja hagsmuni verkalýðshreyfinganna innan slíkra húsnæðisnefnda, jafnvel þó að þess væri ekki getið í lögunum.
    En þetta varðandi húsnæðisnefndirnar er það sem aðallega er gagnrýnt í umsögnum þeim sem hafa borist og það er sterkasta gagnrýnin frá sveitarfélögunum sem öll leggja áherslu á þýðingu þess að þeir sem bera ábyrgð á viðkomandi sveitarstjórnum hafi tryggan meiri hluta í húsnæðisnefndunum.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara að setja hér á langa ræðu þó að auðvitað væri hægt að fjalla að nýju um húsnæðismálin í heild. Það væri vissulega freistandi að gera það en ég ætla að sleppa því. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel mjög miður að ekki var upphaflega leitað breiðrar samstöðu um undirbúning þessa frv. Þar af leiðandi höfum við, þingmenn Sjálfstfl., ekki möguleika á að kynna okkur þetta mál eins ítarlega og við hefðum viljað geta gert til þess að geta tekið afstöðu í málinu. Mér þykir alltaf miður að geta ekki tekið afstöðu og greitt atkvæði með eða á móti málum, ekki síst þegar um svo viðamikil mál er að ræða sem hér er verið að fjalla um. En þetta varð niðurstaða okkar á þessu stigi málsins. Málið á eftir að fara til Nd. Ég veit ekki hvort þar kemur upp ný staða þannig að okkar fulltrúar sem fjalla um málið geti tekið þar aðra afstöðu. Það kemur þá í ljós. Ég vil jafnframt benda á að á fundinum í gær óskaði hv. 14. þm. Reykv. eftir upplýsingum um áhrif frv. á stöðu sjóðanna, sem getið er um í nál., og formaður nefndarinnar reyndi að afla þeirra upplýsinga en það hefur ekki reynst mögulegt á þessum skamma tíma.
    Ég læt því máli mínu lokið, hæstv. forseti, og ítreka það að við munum sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.