Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög þýðingarmikið frv. og ég vil segja að sumu leyti dæmigert frv. fyrir þá stjórnarstefnu sem við Íslendingar verðum nú að sæta um skeið. Það er áreiðanlega rétt sem er á vörum margs fólks í þjóðfélaginu að það sé hart fyrir okkur Íslendinga, sem státum stundum af því að við skulum eiga elsta löggjafarþing veraldar, að á sama tíma og verið er að brjóta niður sósíalisma og ríkisforsjá í öðrum löndum skulum við sitja uppi með það nátttröll sem núv. ríkisstjórn er og ber með sér, ef maður skoðar innviði ríkisstjórnarinnar, öll þau óheilindi sem einkenna samsvarandi ríkisstjórnir hvarvetna þar sem sósíalistar fara með völd og skiptir ekki máli hvort við horfum til ríkja vestan eða austan hins gamla járntjalds.
    Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á það, herra forseti, að nú eru nefndarmenn stjórnarflokkanna önnum kafnir við að reyna að spilla fyrir því að mál samstarfsráðherranna nái fram að ganga. Það liggur líka fyrir að innan Alþb. eru mjög mikil óheilindi og komin upp sú undarlega staða að formaður Alþb., sem raunar hefur ekki hlotið sæti á Alþingi, stendur á móti framboðslista flokksins í Reykjavík og er að vinna, með alls konar samtíningi, að því að bjóða fram lista hér í Reykjavík til borgarstjórnarkosninga. En Alþfl. stendur uppi svo snautlega að eftir næstu borgarstjórnarkosningar mun hann sennilega ekki eiga einn einasta mann í borgarstjórn Reykjavíkur í fyrsta skipti í sögu flokksins.
    Það má kannski segja að ekki sé undarlegt að þetta skuli gerast á sama tíma og það liggur fyrir að Alþfl. hefur með fulltingi hæstv. núv. húsnæðismálaráðherra beitt sér fyrir þeirri tillögugerð hér á hinu háa Alþingi að verkamannabústaðirnir verði lagðir niður og aðalreglan verði sú að það fátæka fólk sem ekki getur af eigin rammleik eignast húsnæði á almennum frjálsum markaði skuli nú þurfa að sæta því að eiga ekki lengur kost á
eignaríbúð í verkamannabústöðum. Mér þykir það mikill ljóður á ráði formanns félmn. Ég veit ekki hvort hann er hér staddur.
    Við 1. umr. málsins var því beint til nefndarinnar, bæði af mér og hæstv. húsnæðisráðherra, að samanburður yrði gerður á því hvaða munur væri á greiðslukjörum í félagslega kerfinu og verkamannabústaðakerfinu. Ég hafði satt að segja búist við að því yrðu gerð rækileg skil en það fylgir enginn slíkur útreikningur grg. meiri hl. Er þó óhjákvæmilegt að það mál verði tekið til glöggrar athugunar í félmn. Nd. Ég hygg að þetta mál muni fá þar mjög ítarlega skoðun. Mér þykir líka sárt að ekki skuli hafa unnist tími til að taka rækilega til athugunar hver væri eignarstaða Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, hvernig þróunin hefur verið á þessum sjóðum síðustu ár, hver spáin sé um greiðsluflæði í þessum sjóðum í fyrirsjáanlegri framtíð og við hverju megi búast. Að milligjöf úr ríkissjóði verði að vera til þessa kerfis ef svo fer fram sem horfir að

félagslegar íbúðir verði aðalreglan hér á landi. Hugsunin sem liggur á bak við frv. er sú, sem að vísu góður upphafsmaður var að, góður var nú nauturinn og að mörgu leyti mikil fyrirmynd okkar sjálfstæðismanna, gamli Bismarck, sem var upphafsmaður velferðarþjóðfélagsins og hafði þá trú að hægt væri með opinberum millifærslum og opinberum fjárgjöfum að leysa vandamál þeirra sem minnst mættu sín í þjóðfélaginu, þyngja skattana jafnt og þétt en í staðinn ætti með opinberri forsjá að beina peningunum út til fólksins í landinu, að hinir opinberu aðilar gerðust þannig skömmtunarstjórar fjármagnsins, skömmtunarstjórar sem höfðu hliðsjón af tilbúnum forsendum sem þeir bjuggu sér til sjálfir en ekki á þeim eðlilegum forsendum nútímaþjóðfélags sem við sjálfstæðismenn leggjum til grundvallar í okkar þjóðfélagsskoðun og sem hefur valdið því að hér á landi hefur til skamms tíma meiri fjöldi verkafólks átt eignaríbúðir en í öðrum löndum.
    Ég vil minna á að það framtak Margrétar Thatcher og breska íhaldsflokksins sem hefur kannski valdið miklu um þann mikla og góða árangur sem sú ríkisstjórn hefur náð er einmitt að brjóta á bak aftur hið opinbera húsaleigukerfi sem þar hefur verið. Ég vil líka minna á að erlendir menn sem eru kunnugir félagslegu íbúðakerfi í öðrum löndum hafa látið í ljós mikla aðdáun yfir því hvernig við Íslendingar höfum staðið að okkar húsaleigulöggjöf og hvernig við höfum reynt að stuðla að því að almenningur geti komist í nokkrar álnir, allur almenningur eigi þess kost að búa í eigin húsnæði og vera að því leyti sjálfstæður. Það er rauður þráður í gegnum þetta frv. hér að gera hvort tveggja, draga úr því að fólk geti af eigin rammleik komist áfram og hins vegar deila ábyrgðinni og áhrifunum, rugla ákvarðanatöku og með þeim hætti gera torvelt að það kerfi, sem þó er verið að reyna að setja upp hér, geti verkað með sæmilegum hætti.
    Ég veit, herra forseti, ekki hvort rétt er að hefja þessa umræðu. Ég hafði búist við því að hæstv. félmrh. segði nokkur orð eftir að frsm. nefnda höfðu lýst sínum skoðunum, þó ekki væri nema til að fram kæmi hvaða skoðanir hæstv. félmrh. hefur á þeim brtt. sem hér hafa komið fram. En hann sá ekki ástæðu til
þess, enda er sá háttur meira og meira áberandi í þinginu eftir því sem stjórnarflokkum fjölgar að umræðan færist úr þingsölunum en inn í svokallaða þingflokka. Mér skilst m.a. að sú hafi verið niðurstaðan þann tíma sem ég gat ekki sótt fundi nefndarinnar að hér var samþykkt lagafrv. í trausti þess að það þýddi annað en orðin segðu til um.
    Við skulum aðeins byrja á því að rifja upp hvað olli því að núv. húsnæðisráðherra vakti mesta athygli meðan Alexander Stefánsson var ráðherra húsnæðismála. Ég vil aðeins rifja það upp að þá vitnaði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mjög í tiltekinn einstakling í þjóðfélaginu og bætti löngum við ,,sem vinnur hjá Fasteignamati ríkisins``. Það átti að vera mikill stimpill á það að þessi maður hefði rétt fyrir sér, að hann vann hjá Fasteignamati ríkisins. Ekki

man ég nú hvað þessi einstaklingur heitir. Hann hefur alveg horfið úr umræðunni síðan og enginn þingmaður, hvorki ráðherrar né aðrir séð neina ástæðu til þess að gera hans skoðanir í húsnæðismálum sérstaklega að umræðuefni, enda skilst mér að maðurinn sé hættur að vinna hjá Fasteignamati ríkisins.
    Það er skemmst frá að segja, ef við aðeins rifjum upp söguna, að hinn nýi Alþfl., sem núverandi ráðherrar eru fulltrúar fyrir, setti þá kröfu fram í kosningunum á árinu 1977 og 1978 að óhjákvæmilegt væri að full verðtrygging kæmi á allar fjárskuldbindingar. Og sá ungi og öflugi Alþfl., sem nú ber ábyrgð á stefnu flokksins og er að leggja hann niður í Reykjavík, beitti sér m.a. fyrir því að öll lán til húsnæðismála yrðu verðtryggð. Það tókst að ná fram þessum markmiðum í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar. Síðan tók við völdum ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens og þá var það svo að núv. hæstv. menntmrh. var húsnæðisráðherra. Honum tókst á fjögurra ára valdaferli sínum að ganga þannig frá eiginfjárstöðu byggingarsjóðanna að þeir voru nánast gjaldþrota í árslok 1982 og eiginfjárstaða þeirra fór mjög versnandi á næsta ári. Þá var svo komið að lán úr Byggingarsjóði ríkisins til nýrra meðalíbúða í blokkum nam rétt um 10--11%. Til þess að bæta úr þessu var sú ákvörðun tekin af þeim meiri hluta sem þá sat að leggja á svokallaðan eignarskattsviðauka sem hafði það að markmiði að afla fjár í Byggingarsjóð ríkisins og leggja niður þá stefnu að fjár til hans og í Lánasjóð ísl. námsmanna yrði aflað með erlendum lánum. Það var auðvitað hart aðgöngu fyrir okkur sjálfstæðismenn að þurfa að fara þessa leið en við töldum óhjákvæmilegt að beita aukinni skattheimtu til þess að bæta úr þeim vanrækslusyndum sem við stóðum þá frammi fyrir frá þeirri vinstri stjórn eða félagshyggjustjórn sem þar hafði á undan verið.
    Það er nú eiginlega orðið hálfsorglegt, herra forseti, að orðið félagshyggja er að verða svo ljótt í íslensku máli að menn eru eiginlega hættir að bera sér það í munn vegna þess að það er búið að koma slíku óorði á það. Þeir sem bera höfuðábyrgð á því eru auðvitað þeir menn sem nú fara með stjórn í landinu.
    Við gerðum þá ráðstafanir til þess að reyna að styrkja innviði Byggingarsjóðs ríkisins með þessari nýju skattheimtu. Þá átti sæti í Nd. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem mjög talaði við, hvað hét hann, Stefán Ingólfsson sem vinnur hjá Fasteignamatinu. Stefán Ingólfsson sem vinnur hjá Fasteignamatinu hafði sannfært þennan hv. þm. um að staða Byggingarsjóðs ríkisins og staða Byggingarsjóðs verkamanna væri ekki góð. Ég minnist þess að hinar löngu tölur sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir setti þá á gengu mjög nærri þáv. hæstv. félmrh. Alexander Stefánssyni. Ég þykist raunar fullviss um að hann muni gera þessi mál að sérstöku umræðuefni þegar málið kemur til umfjöllunar í Nd. Það er hins vegar til marks um það hvort hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi borið sérstaklega fyrir brjósti hag þessara sjóða, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs

verkamanna, hvernig fjárframlög til þessara sjóða hafa verið á undanförnum árum, hvernig hún hefur reynt að standa á verði fyrir þessa sjóði.
    Ég rifjaði það upp við 1. umr. að í fjárlögum fyrir árið 1989 samþykkti Alþingi að veita einum milljarði og 50 millj. kr. til Byggingarsjóðs verkamanna. Þó lá það fyrir og var öldungis ljóst að þessi fjárhæð var mjög ófullnægjandi ef það vakti fyrir löggjafanum að reyna að halda rétt í horfinu, hvað þá ef einhverjum hefur dottið í hug að reyna að bæta svo stöðu Byggingarsjóðs ríkisins sem nauðsynlegt var til þess að fylgja fram þeirri stefnu sem þá var og er enn mörkuð í lögum. Og til þess að standa á bak við þær ábyrgðir sem þessi sjóður hefur á sig tekið.
    Í fjárlögum fyrir sl. ár var sem sagt ákveðið að einn milljarður og 50 millj. kr. skyldu renna í Byggingarsjóð ríkisins. Hæstv. húsnæðisráðherra sætti sig við það að þessi fjárhæð yrði skorin niður í 550 millj. kr. Og í fjárlögum fyrir þetta ár er lagt til að fjárhæðin verði 150 millj. kr. Ég fór fram á það við 1. umr. málsins að þessi atriði yrðu sérstaklega athuguð. Ég varð ekki var við annað en hæstv. félmrh. hefði tekið vel í það. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef ráðherrann vill bera einhverja virðingu fyrir því sem þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir sagði og fyrir því sem Stefán Ingólfsson í Fasteignamatinu sagði, meðan hann var í Fasteignamatinu, að ráðherra komi hér upp á eftir og útskýri fyrir þingheimi hvaða rök hann hefur
fyrir því að nú sé hægt að fara svo með Byggingarsjóð ríkisins að hann þurfi rétt um 10% af því fjármagni í fjárlögum þessa árs sem Alþingi samþykkti að hann þyrfti til sín á sl. ári. Þá samþykkti Alþingi einn milljarð og 50 millj. Á þessu ári segja fjárlög að í Byggingarsjóð ríkisins eigi að renna 150 millj. kr., rétt um 10%. Og þó var fjárhæðin á sl. ári skorin niður um 500 millj. kr., úr einum milljarði og 50 millj. í 550 millj.
    Samkvæmt fjárlögum í ár og samkvæmt endurskoðaðri áætlun á árinu 1989, með öðrum orðum leiðréttingu ríkisstjórnarinnar á fjárlögum, renna til Byggingarsjóðs ríkisins samtals 700 millj. kr. Alþingi ætlaði sjóðnum 50% hærri fjárhæð á árinu 1989 eða einn milljarð og 50 millj. Það vantar sem
sagt 50% upp á að Byggingarsjóður ríkisins fái á þessu ári og síðasta ári þá fjárhæð sem Alþingi samþykkti í desembermánuði 1988 að sjóðurinn ætti að fá á árinu 1989.
    Þetta er ekki lítill niðurskurður. Ég fór fram á það, herra forseti, við 1. umr. málsins að hæstv. félmrh. gerði grein fyrir þessu máli og útskýrði fyrir þingheimi hvaða rök væru á bak við þessa ákvörðun. Ég hafði þess vegna vænst þess að ráðherrann stæði upp þegar framsögumenn hefðu lokið sínum ræðum og gerði þingheimi grein fyrir afstöðu sinni.
    Nú skulum við líta á Byggingarsjóð verkamanna. Í desembermánuði 1988 mat Alþingi stöðu Byggingarsjóðs verkamanna svo að óhjákvæmilegt væri að gera ráð fyrir 600 millj. kr. fjárveitingu í sjóðinn á sl. ári. Sú fjárhæð var óbreytt eftir það sem

kallað er ,,endurskoðuð áætlun`` í grg. fjárlagafrv. fyrir þetta ár þannig að Byggingarsjóður verkamanna hélt sínu framlagi á sl. ári. Nú bregður svo við að í Byggingarsjóð verkamanna renna einungis 500 millj. kr. á þessu ári. Upphæðin er lækkuð um 100 millj. kr. Þá er spurningin: Er þessi lækkun á fjárveitingu til Byggingarsjóðs verkamanna grundvölluð á því að verið sé að draga úr umsvifum sjóðsins? Er hún grundvölluð á því að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að sjóðurinn standi undir sér í framtíðinni? Er þetta fyrsta skrefið sem stigið er í þá átt? Ef maður les, herra forseti, það frv. sem hér liggur fyrir er alveg greinilegt að löggjöfin stendur til hins gagnstæða. Löggjöfin stendur til þess að færa út umsvif Byggingarsjóðs verkamanna og láta skömm skella, kæra sig kollóttan um hvernig fer um framhaldið. Hæstv. ráðherra veit sem er að hann mun ekki sitja lengi í því sæti sem hann situr í núna eftir að búið verður að kjósa á næsta ári svo hann hugsar sér einungis að efna til eyðslunnar en vill ekki standa ábyrgur frammi fyrir neinum þeim aðgerðum eða ráðstöfunum sem mega verða til þess að treysta fjárhagslegar undirstöður Byggingarsjóðs verkamanna.
    Nú má kannski segja að ef hæstv. félmrh. væri nýr hér á þingi og ætti sér enga fortíð á Alþingi ætti þetta ekki að koma þingheimi svo mjög á óvart. Ráðherrann hafi aldrei haft neina sérstaka skoðun á því hver ætti að vera eiginfjárstaða Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. En ráðherra getur ekki flúið í það skjólið. Ráðherrann hefur haldið fleiri háværari og harðari ræður um húsnæðismál en nokkur annar sá maður eða kona sem á Alþingi hefur setið frá öndverðu, þannig að fortíðina má lesa sem opna bók. Og í þessari fortíð stendur það kratastöfum að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sé sammála Stefáni Ingólfssyni, sem vinnur hjá Fasteignamatinu, um það að nauðsynlegt sé að tryggja betur eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna.
    Á sama tíma og þau voru sammála um það, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Stefán Ingólfsson, sem vinnur hjá Fasteignamati ríkisins, að nauðsynlegt væri að huga svolítið að því hvernig sjóðirnir stæðu, hafði hv. þm. og Stefán Ingólfsson, sem vinnur hjá Fasteignamati ríkisins, áhyggjur af þeirri miklu misvísun sem orðið hafði á launakjörum frá árinu 1981 til áranna 1984--1985 vegna þeirra verðskuldbindinga sem almenningur hafði tekið á sig vegna þess misvægis og misræmis sem var á lánskjaravísitölunni og sem var á launavísitölunni eins og hún var útreiknuð. Og auðvitað var það rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Stefáni Ingólfssyni, sem vinnur hjá Fasteignamati ríkisins, að þarna hafði orðið nokkur misvísun. Þessi misvísun var auðvitað fyrst og fremst komin til af því að kaupmátturinn rýrnaði, sem var óhjákvæmilegt vegna stjórnarstefnu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens og sem var óhjákvæmilegt vegna þess viðskilnaðar sem sú ríkisstjórn hafði.
    Þá vorum við sammála um það, ég og hv. þm.

Jóhanna Sigurðardóttir, að nauðsynlegt væri að standa að því að verulegu fé yrði varið til að veita svokölluð greiðsluerfiðleikalán til þeirra íbúðareigenda sem hefðu orðið illa úti vegna misræmis í lánskjaravísitölunni frá 1981 og vegna þess að viðskilnaður Svavars Gestssonar sem húsnæðisráðherra hafði verið þannig að þeir sem urðu að búa við hið fyrra kerfi fengu mjög óverulega fyrirgreiðslu til íbúðarbygginga eða íbúðarkaupa. Við vorum sammála um það þá, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Stefán Ingólfsson, sem vinnur hjá Fasteignamatinu, að það yrði að efna til slíkrar fyrirgreiðslu. Nú hefur það gerst, ég veit ekki hvort hæstv. húsnæðisráðherra hefur tekið eftir því, en síðan 1988 hefur raungengi íslensku krónunnar lækkað um 15--20%, kaupmáttur í landinu hefur
lækkað eitthvað svipað. Jafnframt hefur það gerst að ríkisstjórnin hefur bætt gráu ofan á svart með því að þyngja mjög skattheimtu á þurftartekjur. Svo er komið nú að staðgreiðsluskatturinn er fjórum prósentustigum hærri en hann var þegar hann var lagður á 1988 og lífskjörin hafa verið að versna. Atvinnuleysið hefur verið að vaxa, yfirvinnan hefur verið að minnka og atvinnuöryggið er ekki það sama og áður. Þetta hefur allt gerst. Viðskrh. Alþfl. skýrir frá því í blöðunum að við Íslendingar eigum bráðum von á því að erlendir menn sem eru vanir atvinnuleysinu muni koma hingað til Íslands til þess að láta í ljós sérstaka ánægju yfir því hvernig til hefur tekist og viðskrh. segir að þetta atvinnuástand sé skólabókardæmi um það að ríkisstjórninni hafi vel til tekist.
    Það er fjögurra dálka fyrirsögn í Þjóðviljanum, í blaðinu sem kom á sumardaginn fyrsta, ef ég man rétt, frekar en á miðvikudag, verulega stór og mikil frétt á forsíðu að það sé mat atvinnueftirlits félmrn., eða hvað það nú heitir, að hér sé komið viðvarandi atvinnuleysi, viðvarandi mikið atvinnuleysi. Það er sú ályktun sem Þjóðviljinn dregur af fréttatilkynningu frá félmrn. Nú hef ég ekki séð þessa fréttatilkynningu og skal ekki, herra forseti, um það segja hvort Þjóðviljinn dregur að þessu leyti réttar ályktanir. En ég hef ekki orðið var við að nein leiðrétting hafi komið fram um það að þarna hafi verið farið rangt með. Viðvarandi mikið atvinnuleysi á Íslandi. Yfirvinna hefur minnkað og tekjuskatturinn er kominn upp í 40% af launum, staðgreiðsluskatturinn er 40% af launum. Og það sem meira er, það fólk sem hefur verið að afla sér eigin húsnæðis á undanförnum árum situr uppi með háu skuldirnar sem til eru komnar vegna þess misvægis sem orðið hefur á síðustu missirum í lánskjaravísitölu, í skuldbindingum, fjárskuldbindingum og vegna hinna lágu launa, sultarlauna og sultartekna sem við Íslendingar verðum nú að búa við. Það er í ljósi þessara upplýsinga, herra forseti, sem hæstv. félmrh. sér ekki ástæðu til að segja eitt einasta orð hér í deildinni þegar þetta mál er tekið til umræðu.
    Nú skulum við velta fyrir okkur: Ætli einhver þörf sé á því að veitt sé meiri fjármunum í greiðsluerfiðleikalán nú en áður hafði verið fyrirhugað? Ég gerði þetta mál að sérstöku umræðuefni, herra forseti, hér við 1. umr. málsins.

Hæstv. félmrh. tók undir ummæli mín með þeim hætti að ég hafði ríka ástæðu til að ætla að hann hefði einhverjar fréttir að færa varðandi greiðsluerfiðleikalánin nú. Ég beið þess vegna eftir því að hæstv. ráðherra stæði upp þegar framsögumenn nefnda voru búnir að ljúka sínu máli. Minntist þess líka að meðan hv. þm. Alexander Stefánsson var félmrh. talaði enginn þingmaður jafnoft um nauðsynina á erfiðleikalánum eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hér innan þings. Og utan þings enginn maður jafnoft um nauðsyn þessa eins og Stefán Ingólfsson, sem vinnur hjá Fasteignamati ríkisins.
    Ég hafði af þeim sökum búist við að hæstv. félmrh. mundi grípa tækifærið, úr því hann hafði sérstakt tilefni til þess þar sem voru orðaskipti okkar við 1. umr. málsins, og mundi nú tala um hvernig stæði á hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og mundi fræða okkur um það að þeirri deild sem sér um erfiðleikalánin hefði nú verið útvegað nægilegt fjármagn til þess að hún gæti brugðist skjótt og vel við. En hverjar eru staðreyndir þess máls? Einhver fugl sagði mér að þessi deild Húsnæðisstofnunar hefði 20--30 millj. kr. til ráðstöfunar. Er það rétt, hæstv. félmrh.? Er það til í dæminu að einungis séu eftir 20--30 millj. kr. til ráðstöfunar á þessu ári, til þeirra sem eiga í erfiðleikum með að halda sínu íbúðarhúsnæði og aprílmánuður ekki liðinn og þessar 20--30 millj. kr. eigi að duga það sem eftir lifir þessa árs? Er það hugsun og er það hugmynd hæstv. félmrh.? Eða hef ég fengið rangar upplýsingar? Það mundi sannarlega gleðja mig ef svo væri. Ég geri ekkert með það þó þarna skakki kannski 10 millj. eða einhverju svoleiðis. Við erum ekki að tala um það að fjárhæðir á bilinu 20 til 50 millj. dugi neitt. Mér var sagt eftir minni að í þessum sjóði væru nú til ráðstöfunar 20--30 millj. kr. Svo ég spurði: Hvað skyldi þurfa mikla fjármuni til þess að þetta væri, ekki sómasamlegt, en svona í þrengsta skilningi orðsins ekki til fullkominnar skammar? Og þá var mér sagt að það mætti tífalda þessa upphæð.
    Það getur verið að hæstv. félmrh. nefni enn hærri fjárhæð. En eftir því sem mismunurinn er minni --- segjum svo að það sé hægt að fullnægja þessum lánaflokki, herra forseti, með því að bæta við litlum hundrað, hvað eigum við að segja, 200--250 millj. kr. í þennan lánaflokk, til þess að það yrði nægilegt til að draga úr mesta sársaukanum þá væri það áreiðanlega verkefni sem hæstv. félmrh. ætti að beita sér fyrir. Og auðvitað er það öldungis ljóst að hæstv. félmrh. hefur það vopn í sínum höndum þegar hann talar við fjmrh., þegar hann talar við forsrh. og þegar hann talar við fjvn. að þessar litlu 150 millj. í Byggingarsjóð ríkisins séu félmrh. til skammar og þessar litlu 500 millj. sem eru til Byggingarsjóðs verkamanna séu líka félmrh. til skammar.
    Félmrh. getur til viðbótar ekki sætt sig við það að í engu verði sinnt því fólki sem á í mestu greiðsluerfiðleikunum það sem eftir lifir ársins. Nema það sé kannski markmiðið að koma þessu fólki öllu saman í leiguíbúðir. Fólki sem er kannski fimm eða

tíu eða fimmtán ár búið að vinna hörðum höndum, hefur
hlaupið og snapað hverja einustu vinnustund sem það hefur getað. Eða þá að þetta er fólk sem býr við heilsuleysi eða einhverja ógæfu sem veldur því að heimilið verður fyrir miklum útgjöldum eða þá að heimilið missir af tekjum. Það er kannski ekki svo stór þröskuldur sem það þarf að fara yfir til þess að geta áfram búið í sinni íbúð þó svo að greiðsluerfiðleikarnir séu yfirþyrmandi af því að það á að greiða kannski 700--800 þús. kr. á allt of skömmum tíma eins og ég hef séð dæmi um. Málinu var vísað frá af því að greiðsluerfiðleikarnir voru svo litlir. En þeir voru miklir fyrir það fólk sem í hlut átti. Það á kannski að láta alla þessa þjáningu verða til einskis, allt þetta mikla stríð verða til einskis hjá því fólki sem vill svo sannarlega fá að búa í því sem það á sjálft sem það hefur til sinnar ráðstöfunar og hefur stritað svo mikið fyrir að halda.
    Ekki er boðað neitt af þessu efni í frv. Og hæstv. húsnæðisráðherra sá ekki ástæðu til að standa hér upp og svara athugasemdum mínum við 1. umr. að þessu leyti. En sú nefnd sem skipuð var komst að niðurstöðu. Hér stendur í grg. frv.:
    ,,Nefndin ræddi ítarlega um kosti og galla þess fyrirkomulags sem við nú búum við, kallaði á fund sinn fulltrúa þeirra sem vinna við félagslega húsnæðiskerfið, neytendur, fulltrúa félagasamtaka, embættismenn og aflaði víðtækra gagna um félagslega íbúðarlánakerfið. Niðurstaða nefndarstarfsins varð sú að skila af sér sameiginlegum tillögum í fernu lagi:
     1. Frv. til laga um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
     2. Tillögum um breytt skipulag húsnæðismála í landinu.
     3. Tillögum um húsaleigubætur og leigumiðlanir.
     4. Tillögum um endurskoðun laga um húsaleigusamninga.``
    Þetta er fagnaðarefnið. Tillögur um húsaleigubætur og leigumiðlanir. Það er auðvitað nauðsynlegt að koma slíku upp þegar ráðherrann beitir sér sérstaklega fyrir því að leggja niður það kerfi sem nú er búið að vera hér í tvo mannsaldra rúma og gengur út á það að verkamaður megi eiga sína eigin íbúð. Og eins og ég hef áður sagt og er táknrænt við Hringbrautina þar sem styttan er af Héðni Valdimarssyni, þar sem hann er búinn að ganga upp að knjám til þess að reyna að koma því í framkvæmd að verkamennirnir megi líka eiga eitthvað. Ganga upp að knjám, eins og sést á styttunni. Og svo kemur hér ráðherra núna sem hefur það helst fyrir sitt markmið og sinn draum og sína hugsjón að brjóta þetta niður og kallar það sérstakar úrbætur að koma með tillögur um húsaleigubætur.
    Hvað felst í þessu frv. eða þessum tillögum um húsaleigubætur, hæstv. ráðherra? Hvernig eru þær hugsaðar? Hverjir eiga að fá þessar húsaleigubætur? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, herra forseti, að hæstv. félmrh. geri glögga grein fyrir þessu atriði sem er mjög viðamikill þáttur í húsnæðisstefnu ráðherrans og sem hlýtur auðvitað að vera enn einn liðurinn í því

að mismuna þegnum í þessu landi sem ráðherrann er mjög önnum kafinn við að vilja. Er það hugsunin hjá hæstv. ráðherra að það fólk sem kemst í félagslega íbúð svokallaða, félagslega kaupleiguíbúð, sem byggir á því að lánið sé til 50 ára, sem byggir á niðurgreiddum vöxtum, það fólk eigi að fá húsaleigubætur? En það fólk sem er hins vegar að berjast í bökkum við að eignast sitt eigið húsnæði og verður að greiða tvisvar og þrisvar sinnum hærri vexti og fær lán til helmingi skemmri tíma eða kannski til nokkurra ára eigi að búa við takmarkaðan frádrátt vegna fjármagnskostnaðar eða takmarkaðar greiðslur af þeim sökum? Hvort það er kallað húsnæðisbætur eða annað, að það fólk eigi að bera þungann sjálft og ekki eigi að taka tillit til þess í skattalögum með sama hætti og gera á í sambandi við húsaleigubætur? Á sem sagt að gera hvort tveggja, á að greiða með framlögum úr ríkissjóði háar fjárhæðir í vaxtamun til þess að gera húsaleigustefnuna aðlaðandi með því að falsa tölur á kostnað allra í landinu, búa til opinberan fjármagnskostnað? Og á til viðbótar að búa til sérstakar húsaleigubætur til þess að gera þetta kerfi enn þá meira aðlaðandi? Hver á síðan að greiða þetta? Og hvernig lítur þetta út ef við horfum 10 eða 20 ár fram í tímann, ef hver einasti maður í landinu er þá kominn í þá stöðu að búa við húsaleigubætur og búa við niðurfærðan vaxtakostnað? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta. Og ég vil líka spyrja: Er hugmyndin að setja á fót einhverjar opinberar leigumiðlanir til þess að einhverjir lúxuskratar geti setið þar fyrir opinbert fé án þess að gera gagn í staðinn fyrir að láta einstaklingana sjálfa um að leysa mál af þessu tagi eins og ævinlega hefur reynst farsælast? Það hefur jafnan einkennt Alþfl. að hugsa vel um sína og má kannski segja að leigumiðlanir þurfi ekki að vera mjög víða til þess að uppfylla þörfina eins og nú er komið og eins og Alþfl. hefur minnkað, búið að leggja hann niður hér við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.
    Nú er spurning, herra forseti, hvað átt sé við með þegar talað er um skipulag og stjórn, yfirstjórn, á bls. 3 í frv. Þar er kafli sem heitir: Sveitarstjórnir og húsnæðisnefndir. Þar stendur í 55. gr. sem verður, e-lið 3. gr. frv.: ,,Sveitarfélag ber ábyrgð á félagslegu húsnæði á vegum þess.`` Þá er spurningin: Er þannig um hnútana búið að sveitarfélögin geti takmarkað
ábyrgðina, ráðið því í hverju ábyrgðin verður fólgin? Á framkvæmdin með öðrum orðum að vera í höndum sveitarfélaganna? Í 57. gr. sem verður, stendur:
    ,,Sveitarstjórn ber fjárhagslega ábyrgð á félagslegum íbúðum á vegum hennar og enn fremur ábyrgð á framkvæmdum.
    Skylt er sveitarstjórn að hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflum.
    Sveitarstjórn ber að kanna heildarþörf á félagslegu húsnæði í sveitarfélaginu og á grundvelli hennar skal unnin fjögurra ára áætlun um byggingu eða kaup á félagslegum íbúðum sem endurskoðuð skal árlega.
    Áætlanir um byggingu eða kaup félagslegra íbúða

eiga að byggjast á mati á þörf fyrir nýjar íbúðir, upplýsingum um stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu, horfum í atvinnulífinu og mannfjöldaþróun. Einnig komi fram í áætluninni fjöldi þeirra íbúða sem nauðsynlegt er að byggja eða kaupa, æskilegar stærðir, húsgerð og áætlaður byggingartími. Jafnframt skal gerð grein fyrir æskilegri skiptingu íbúða milli eignaríbúða og leiguíbúða.``
    Svo mörg eru þau orð. Hver er það sem á að hafa framkvæmdina með höndum? Og hver á að vinna í umboði sveitarstjórnarinnar? Við fáum upplýsingar um það í f-lið 3. gr., sem verður 56. gr. Þar er talað um að skipaðar verði sérstakar húsnæðisnefndir og skal kosið í þær að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Þrír skulu kjörnir af sveitarstjórn og tveir fulltrúar tilnefndir af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu. Í frv. segir að nefndin skuli fara með stjórn og samræmingu félagslegs húsnæðis í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar og almennar upplýsingar og ráðgjöf varðandi húsnæðismál. Og nú spyr ég: Er eðlilegt að löggjafinn geti sett ákvæði af þessu tagi inn í lög, annars vegar lagt skyldur á sveitarfélögin að vinna að ákveðnum hlutum í húsnæðismálum, síðan sett á fót nefnd sem skal vera framkvæmdaraðili og vinna í umboði sveitarstjórnar þó svo að meiri hluti viðkomandi sveitarfélags sé ekki afgerandi í nefndinni? Engin trygging sé með öðrum orðum fyrir því að nefndin hafi sömu stefnu í húsnæðismálum og meiri hluti sveitarstjórnar.
    Nú skulum við aðeins athuga þessi mál. Nýbúið er að úthluta félagslegum íbúðum hjá Húsnæðisstofnun. Það stendur m.a. svo á í Ólafsfirði þar sem Sjálfstfl. er í meiri hluta --- það er kannski tilviljun að þetta dæmi skuli einmitt koma upp í Ólafsfirði þar sem Sjálfstfl. hefur meiri hluta --- að bærinn sótti um 14 íbúðir í því sem kallað hefur verið hið félagslega kerfi. Nú hefur fengist svar þar sem í ljós kemur að í hlut bæjarins hafa einungis komið lán til byggingar tveggja almennra kaupleiguíbúða.
    Ég spurðist fyrir um það hvernig á því stæði að svo illa hefði tekist til. Mér var sagt að umsókn þeirra Ólafsfirðinga hefði verið röng, þeir hefðu ekki kunnað að sækja um. Ef þeir hefðu sótt um eftir annarri formúlu hefðu þeir fengið fleiri íbúðir. Þær hefðu hins vegar ekki allar heitið kaupleiguíbúðir. Það er líka til eitthvert fyrirbæri sem heitir leiguíbúð sveitarfélaga og eitthvað fleira sem ég kann ekki að nefna. Þannig varð skriffinnskan til þess, var mér sagt í skriffinnskuapparatinu, skriffinnskubákninu, að ekki var aðeins níðst á sveitarfélaginu með þessum hætti heldur er búið að búa til einhverja formúlu hér í Reykjavík, ég veit ekki eftir hvaða heimildum, hvers konar félagslegar íbúðir sveitarstjórnirnar eigi að byggja úti á landi. Hvað segir hæstv. félmrh. um það? Er þetta víða? Það væri nauðsynlegt að fá um það upplýsingar. ( Gripið fram í: Get ég gert eitthvað fyrir þig, Halldór?) Hér inni, herra forseti, er hvorki formaður félmn. né ráðherra. ( Forseti: Ráðherrann er í kallfæri hér.) Ja, ekki sé ég hann. Ég held að ráðherrar geti vel setið hér í deildinni eða verið þar

sem þeir sjást. Þeir sækja ekki þingfundi það vel.
    Ég var að hafa orð á því, hæstv. ráðherra, að það væri búið að búa til formúlu fyrir því hér í Reykjavík hvers konar félagslegar íbúðir sveitarfélögin ættu kost á en þau mættu ekki einu sinni ráða því, slíkt er ofríkið orðið. Þetta eru þær upplýsingar sem ég fékk.
    Nú væri fróðlegt að fá að vita frá hæstv. félmrh. eða yfirstjórn húsnæðismála hvað lagt er til grundvallar þegar verið er að skammta sveitarfélögunum eftir einhverjum slíkum heimagerðum formúlum. Nema þetta sé kannski ósatt sem við mig hefur verið sagt. Það er annað sem er til marks um þetta. Þegar ég leitaði til ráðuneytisins og fékk upplýsingar var sagt við mig að samkvæmt íbúaspá, íbúðaspá eða mannfjöldaspá Byggðastofnunar þyrfti viðkomandi sveitarfélag ekki á frekari íbúðum að halda. Ég sagði viðkomandi starfsmanni félmrn. að þetta mál hefði komið upp hér við 1. umr. málsins og ég hefði þá tekið það sérstaklega fram að einhver framreikningur sem beðið er um hjá Byggðastofnun, framreikningur á íbúafjölda á þeim forsendum að athuga hvernig mannfjöldi hafi verið sl. 10 ár og reyna að reikna út frá þeim forsendum hvernig mannfjöldi verði næstu 10 ár, er auðvitað engin spá um það hvernig fjölgar á næsta ári. Algjörlega út í bláinn. Það er ekkert hægt að verja sig með einhverjum slíkum spám þegar verið er að reyna að gera sér grein fyrir því hvar helst sé þörf á því að reisa íbúðarhúsnæði.
    Ólafsfjörður er einmitt mjög glöggt dæmi um þetta, herra forseti. Að halda að þau göng sem verða opnuð á hausti komanda, þau göng gegnum Múlann skipti engu máli í sambandi við byggðaþróun. Við getum tekið annað dæmi. Það gefur auðvitað auga leið að það hefur mikil áhrif á byggðaþróun við Eyjafjörð ef álver rís á Dysnesi á næstu árum. Auðvitað mun það gera að engu allar spár um mannfjölda á þessum slóðum miðað við það hvernig umhorfs var við Eyjafjörð á árunum 1978--1988 eða 1979--1989 eða hvað við erum að tala um. Við getum talað um staði eins og Patreksfjörð þar sem svo stóð um skeið að horfur voru á að skipin sem þar eru hyrfu á brott. Það hefði auðvitað haft mjög skaðleg áhrif á byggðaþróun, ekki aðeins á Patreksfirði heldur einnig á Tálknafirði og Bíldudal, í allri Vestur-Barðastrandarsýslu. Á hinn bóginn er ástandið nú orðið þannig á Patreksfirði, vegna þess að opinberir sjóðir hlupu undir bagga, að þeir hafa viljað kaupa skip frá Suðurnesjum til Patreksfjarðar. Það mál er nú í athugun hjá stjórn Hlutabréfasjóðs. Og er þá kannski spurning hvort Byggðastofnun muni með sama hætti gjaldfella allar skuldir sem eru í Byggðastofnun á viðkomandi skipi ef það fer frá Suðurnesjum til Patreksfjarðar eins og gjaldfelldar voru skuldirnar ef skipið hefði farið frá Patreksfirði til Suðurnesja. En auðvitað sjáum við að ef þetta skip kemur til Patreksfjarðar mun atvinnuástandið gjörbreytast, samgöngur gjörbreytast með hinni nýju ferju yfir Breiðafjörðinn. Því er þess að vænta að fólk festist fremur í sessi á þessum stað. Ef það kemur á hinn bóginn í ljós að þessi mikla

aðstoð verður til einskis og ef það kemur í ljós að Breiðafjarðarferjan skiptir ekki máli fyrir byggðaþróun í Vestur-Barðastrandarsýslu gefur það á hinn bóginn vísbendingu um hversu erfitt er með opinberri aðstoð, opinberum fjárveitingum að tryggja það að lífvænleg byggð haldist þar sem hún hefur áður staðið höllum fæti.
    Þarf ekki um þetta að fara frekari orðum en ég vil einungis harma það, herra forseti, að svo skuli hafa tekist til, eins og við í stjórn Byggðastofnunar
óttuðumst, að sú skýrsla sem starfsmenn Byggðastofnunarinnar hafa unnið og byggir á þeim forsendum að reyna að gera grein fyrir því hvernig umhorfs verði í landinu ef fólksflutningar verða með sama hætti á næstu árum og verið hefur, er notuð í allt öðrum tilgangi og getur þess vegna beinlínis orðið skaðleg.
    Það sýnir með öðru forsjárhyggju þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, sú nauðung sem ríkisstjórnin vill beita sveitarfélögin í landinu, hvernig frá t-lið 3. gr. er gengið í frv. Sú gr., sem verður 69. gr., orðast svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hafi framkvæmdaaðili áður hafnað forkaupsrétti að félagslegri íbúð skal ekki veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna næstu þrjú ár frá því forkaupsrétti var hafnað.``
    Í grg. segir um þetta atriði: ,,Hér er nýmæli á ferðinni. Í því skyni að koma í veg fyrir að sveitarfélög, sem hafna forkaupsrétti að félagslegri íbúð, ráðist á sama tíma í framkvæmdir við félagslegar íbúðir er lagt til að höfnun á forkaupsrétti standi í vegi fyrir láni til þess sveitarfélags næstu þrjú árin frá því forkaupsrétti var synjað. Með því móti má afstýra því að sveitarfélög takist á hendur ónauðsynlegar framkvæmdir við félagslegar íbúðir.`` Svo mörg voru þau orð.
    Að vísu hefur nefndin breytt þessu, ég er ekki með brtt. hér hjá mér, hvort það var niður í eitt ár eða tvö, mér er það ekki ljóst. En ég hygg að nefndin hafi breytt þessu ákvæði. Það væri kannski hægt, herra forseti, að fá brtt. nefndarinnar hér upp í ræðustól.
    Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða tilefni er til þessarar breytingar? Hér er brtt.: ,,Þetta á þó ekki við ef íbúðin hentar ekki að teknu tilliti til fyrirliggjandi umsókna.`` Það á sem sagt að halda áfram nauðunginni í þrjú ár.
    Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé að ráðherrann útskýri hvaða nauðsyn ber til þess að setja þetta inn. Ég þekki dæmi um það sem hér um ræðir frá Raufarhöfn frá síðustu árum, ég man ekki hvort það eru tvö eða þrjú ár síðan. Ég held að þetta dæmi sé frá þeim tíma sem núv. félmrh. sat í því embætti. Þannig stóð á á Raufarhöfn að eigandi verkamannabústaðar hafði ekki tök á að halda húsnæðinu þannig að þessi verkamannabústaður var settur á uppboð og seldur á nauðungaruppboði Byggingarsjóði verkamanna. Það var einn verkamaður á Raufarhöfn sem var giftur verkakonu sem óskaði eftir því við Byggingarsjóð verkamanna að fá íbúðina keypta á því verði sem hún seldist á uppboðinu. Þetta verkafólk var jafnframt reiðubúið til þess að greiða

áhvílandi lán á viðkomandi íbúð eftir kjörum Byggingarsjóðs ríkisins. Kerfið sagði á hinn bóginn að verkamannabústaðurinn yrði að vera verkamannabústaður áfram og þá var hlaupið til og metið hvað þyrfti að gera við þessa íbúð til þess að hún gæti kallast boðleg í því kerfi sem heitir ,,verkamannabústaðakerfi`` eða ,,félagslegt kerfi``. Þá kom í ljós að kosta þyrfti 800 þús. kr. til viðgerða á íbúðinni. Nú vildi svo til að þessi ungu hjón voru bæði laghent og áttu auk heldur iðnaðarmenn fyrir feður, þannig að þetta fólk hafði hugsað sér að gera sjálft við það sem það taldi nauðsynlegt að lagfæra og smátt og smátt koma íbúðinni í það horf sem það sætti sig við og nota til þess þann dauða tíma sem stundum er í þessum sjávarplássum, eins og við þekkjum.
    Við stóðum í þessu stappi í nokkra mánuði. Ég vil taka það fram að við sem reyndum að ná þessu fram, að ungi verkamaðurinn og unga verkakonan gætu fengið þessa íbúð keypta, nutum góðrar aðstoðar m.a. fulltrúa Alþýðusambands Íslands í húsnæðismálastjórn, og að síðustu hafðist þetta. Að síðustu tókst þetta. Og þessi ungu hjón fengu íbúðina með þeim kjörum sem þau báðu um og síðan var hægt að veita því fé úr Byggingarsjóði verkamanna sem um var talað í annað og þarfara. Auðvitað átti þetta unga fólk fullan rétt á því að kaupa innan kerfis félagslegra íbúða, hvort tveggja verkafólk og þar að auki áttu þau börn. En þau voru með þessa undarlegu áráttu að vilja komast yfir húsnæðið ódýrt og þetta unga fólk sá ekki eftir sér, né fjölskyldur þeirra, að leggja á sig nokkra vinnu til þess að kostnaðurinn við þeirra eignaríbúð yrði eins lítill og hugsast gæti.
    Þarna erum við einmitt komin að kjarna þessa máls og hann er sá að fyrir félmrh. vakir ekki með þessu frv. að stuðla að því að það fjármagn sem fest er í íbúðarhúsnæði hér á landi verði minna en áður. Hæstv. félmrh. lætur sig slíka hluti engu skipta. Og það sem er kannski enn alvarlegra er að hæstv. félmrh. er að beita sér fyrir lagasetningu sem leggur þungar og miklar skyldur á herðar sveitarfélögunum í landinu en þessi sveitarfélög eiga ekki einungis að hafa það vald án nauðungar að geta gert upp við sig og ráðið sjálft hvort þau muni neyta forkaupsréttar, t.d. í því tilviki sem ég var að lýsa hér áðan, að íbúð í verkamannabústaðakerfi færi í nauðungarsölu og af þeim sökum væri hagkvæmt bæði fyrir fólk á staðnum og sveitarfélagið að viðkomandi íbúð falli úr félagslegri eigu, sveitarfélagið nýti með öðrum orðum ekki forkaupsréttinn.
    Það má líka velta því fyrir sér í hvaða stöðu sveitarfélagið sé ef til slíkrar nauðungarsölu kemur þegar þessi lagagrein er svo fortakslaus og, eins og ég skil hana, tekur einnig til eignaríbúðar og þarf þá ekki að öðru leyti um það að ræða, hlýtur í rauninni að eiga við eignaríbúðir, getur ekki átt við annað.
    Spurningin er auðvitað: Hefur verið sýnt fram á að félagslegar íbúðir séu ódýrari en aðrar íbúðir? Hefur hæstv. húsnæðisráðherra einhverjar tölur um það? Hvert er t.d. meðalverð félagslegrar íbúðar í

Reykjavík, hvert var það í Kópavogi, sl. fimm ár, hvert var það á Akureyri, hvert var það á Húsavík? Hefur það verið athugað? Og hefur ráðherrann einhverja glögga skýringu á því hvernig standi á því að verð hinna félagslegu íbúða eru í engu samræmi við almennt markaðsverð á viðkomandi stöðum? Rýkur upp og niður og er í engu samhengi. Ekki hægt að lesa úr því neitt samhengi frá einu ári til annars ef horft er til þeirrar þróunar. Þannig að auðvelt og raunar óhjákvæmilegt er að draga þá ályktun að hið félagslega íbúðakerfi sé ekki hagkvæmt, hvorki fyrir þá sem í þeim íbúðum búa né til lengdar litið fyrir sveitarfélögin eða þjóðfélagið í heild sinni.
    Í þeim kafla þessa frv. sem heitir ,,Réttur einstaklinga til félagslegra íbúða`` er rétt að líta aðeins á þau skilyrði sem sett eru fyrir því að einstaklingi sé heimilt að festa kaup á félagslegri eignaríbúð eða félagslegri kaupleiguíbúð. Hér stendur í a-lið: ,,Eiga ekki íbúð fyrir eða samsvarandi eign í öðru formi.`` --- Eða samsvarandi eign í öðru formi. Hvað þýðir þetta? ( Gripið fram í: Skilurðu ekki íslenskt mál?) Er þarna einungis átt við eignaríbúðir? Eða er t.d. átt við vörubíl? Er átt við trillu? Hvað er átt við? Hefur trillusjómaður ekki rétt á að eignast íbúð eftir þessari grein ef hann á trilluna skuldlausa, þó svo að tekjur hans séu kannski litlar og aflabrögð rýr? Þýðir þetta að vörubílstjóri hefur ekki sjálfkrafa rétt á því að eignast íbúð í hinu félagslega kerfi ef skuldastaðan er bærileg hjá honum gagnvart sínu atvinnutæki? Hvað þýðir þetta? Það væri fróðlegt að fá við því einhver svör.
    Eigum við að taka annað dæmi? Það er heimilt, samkvæmt núgildandi lögum, að eftirlifandi maki sitji í óskiptu búi. Nú getur verið af einhverjum ástæðum að hann sjái ástæðu til að skipta sínu búi og með þeim hætti falli einhverjar eignir til fólks sem þó vill ekki ganga nærri sínu foreldri og getur þá eignast eitthvað í öðru formi. Þetta er náttúrlega svolítið óljóst. Hvað er átt við með ,,eiga ekki íbúð fyrir``? Loðdýrabóndi, sem að nafninu til á íbúð einhvers staðar uppi í sveit og búið er að rýja öllum eignum sínum, á hann íbúð fyrir? Á meðan verið er að fara þá leið að jörðin hans seljist á nauðungaruppboði og íbúðarhúsið með, verður honum þá sjálfkrafa vísað frá af því hann á íbúð fyrir? Hvað þýðir þetta? Það er alveg nauðsynlegt að fá einhverjar skýringar á því.
    Hvað er eign? Ég held að ráðherra verði að upplýsa við hvaða fjárhæðir hann miðar í þessu. Ekki man ég hvort það er í núgildandi lögum. Það virðist svo eftir greinargerð. En ekki finnst mér það skipta máli því ekki eru þau gallalaus nema síður sé að því er tekur til Byggingarsjóðs verkamanna.
    Í öðru lagi stendur hér: ,,Réttur til að festa kaup á félagslegri eignaríbúð eða félagslegri kaupleiguíbúð er bundinn við þá sem uppfylla eftirtalin skilyrði: ... Hafa haft meðaltekjur síðustu þrjú árin áður en úthlutun fer fram sem svarar eigi hærri fjárhæð en 974.667 kr. fyrir einstakling og 88.900
kr. fyrir hvert barn. Viðmiðunartekjur hjóna skulu vera

25% hærri en hjá einstaklingi. Með meðaltekjum er átt við heildartekjur umsækjanda, maka hans og barna. Fyrrgreindar fjárhæðir eru miðaðar við meðaltekjur áranna 1986, 1987 og 1988.``
    Síðan er sagt að sýna verði fram á viðunandi greiðslugetu þannig að greiðslubyrði lána fari ekki yfir þriðjung af tekjum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af þessu tilefni: Er honum kunnugt um það hvernig fjölskyldur standa stundum að málum ef við mikla erfiðleika er að etja? Það er alveg rétt, eins og ég sagði hér áðan, herra forseti, það kemur fyrir að verkamannaíbúðir fari á uppboð. Stundum er það náttúrlega vegna þess að viðkomandi eru miklir einstæðingar og af þeim sökum hafa ekki getað haldið sínum íbúðum. Hitt er ekki síður og raunar miklu, miklu algengara að fólk sem býr í slíkum íbúðum, einstætt foreldri með börnum, fólk sem hefur ekki fulla heilsu eða af einhverjum ástæðum á erfitt uppdráttar um sinn eða til langframa, nýtur aðstoðar frá fjölskyldu sinni til þess einmitt að komast í það öryggi sem því fylgir að búa í slíkri íbúð. Það er miklu, miklu algengara. Þess vegna er mér alveg óskiljanlegt að sett skuli tekjumörk af þessu tagi inn í lögin.
    Því er slegið föstu mjög greinilega að menn mega ekki hafa of miklar tekjur til þess að komast í þá aðstöðu að eignast íbúðir eftir hinu félagslega kerfi. Á hinn bóginn er þess krafist að greiðslubyrði lánanna fari ekki yfir þriðjung
af tekjum. Þetta ákvæði er satt að segja mjög varhugavert, vanhugsað og hættulegt. Það getur verið skammtímaástand sem veldur því að viðkomandi hafi takmarkaðar tekjur. Það þarf ekki að vera viðvarandi ástand. Auk þess vil ég minna hæstv. ráðherra á að greiðslubyrði vegna opinberra gjalda hefur þyngst mjög verulega og af þeim sökum er það auðvitað svo að maður veltir miklu frekar fyrir sér, ekki því hvort þriðjungur af tekjum fólks með þessar tekjur sem hér er verið að tala um og verulega minni, dugi til þess að greiða afborganir og vexti af félagslegum íbúðum. Maður veltir því fyrir sér hvernig þetta fólk, sem á kannski tvö eða þrjú börn, kemst af með afganginn. Það er auðvitað meira umhugsunarefni. Þarna er líka um mjög varhugaverða grein að ræða sem enn einu sinni lýsir þeirri áráttu, sem allt þetta gengur út á, að hafa vit fyrir fólki. Allt frv. eins og það leggur sig, að hafa vit fyrir fólki. (Gripið fram í.) Það er ugglaust. Ég veit ekki hvort ráðherrann dreymir um að hanga í þessu sæti sínu svo áratugum skiptir og upplifa það að eiga allar íbúðir í landinu sem húsnæðisráðherra og geta horft yfir ríki sitt, leiguhjallana og sagt: Þetta á ég.
    Það er auðvitað ekki til að auka sjálfsvirðingu fólks að beita opinberu afli til þess að koma í veg fyrir að fólk geti verið efnahagslega og fjárhagslega sjálfstætt. Ég get varla hugsað mér að nokkur ráðherra hafi farið með öllu ömurlegri hugsjón inn í sitt embætti en þetta, að breyta þjóðfélaginu svo að í staðinn fyrir að Íslendingar skeri sig úr sem það þjóðfélag þar sem eignarréttur á íbúðum er

almennastur, þá muni nú vera svo komið að fjölgun leiguíbúða sé hvergi í veröldinni meiri en á Íslandi. Að hvergi í veröldinni fjölgi leiguíbúðum jafnmikið og á Íslandi. Og hvergi í veröldinni fækki íbúðum sem byggðar eru sem eignaríbúðir jafnmikið og hér á Íslandi á þeim tíma sem þessi einstaklingur skipar sæti hæstv. húsnæðisráðherra.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég ítreka þær fsp. sem ég gerði til hæstv. húsnæðisráðherra. Það er þá í fyrsta lagi: Hversu mikið fé er eftir óráðstafað handa þeim sem sótt hafa um greiðsluerfiðleikalán? Og í leiðinni: Hversu margar umsóknir liggja nú fyrir sem ósvarað er og um hversu háar fjárhæðir er þar að tefla?
    Mér er sagt eftir minni viðkomandi að það séu eitthvað um 20--30 millj. eftir. Ég þori ekki að ábyrgjast að það sé rétt tala, en mér er sagt að þörfin sé tíföld.
    Í öðru lagi spyr ég: Hvaða sérstöku ástæður eru til þess að sú regla skuli vera algjörlega ófrávíkjanleg að sveitarstjórn megi ekki hafa það í sinni hendi hvort hún nýtir forkaupsrétt í sambandi við sölu á félagslegri íbúð, hvort sem um nauðungarsölu er að ræða eða ekki? Hvernig stendur á því og hvaða sérstöku rök eru fyrir hendi að hæstv. ráðherra geri þetta að afdráttarlausri reglu? Það hljóta að vera meira en lítið veigamikil rök sem hníga að því.
    Í þriðja lagi: Hefur hæstv. félmrh. gert það upp við sig hvort hann láti sér duga samsvarandi fjárhæðir á fjárlögum næsta árs, ef hann verður áfram í embætti, og hann hefur látið sér duga nú á þessu ári til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, að þær verði 150 millj. kr. og 500 millj. kr.? Kannski þær hækki lítillega í sambandi við verðbólgu. En að þetta sé nægilegt miðað við þær kröfur sem ráðherrann gerir til sjálfs sín og eiginfjárstöðu sjóðanna.
    Ég vil í fjórða lagi spyrja hæstv. félmrh. hvort einhver möguleiki sé fyrir þau sveitarfélög sem hafa orðið illa úti í sambandi við úthlutun á félagslegum íbúðum á þessu ári að fá það leiðrétt. Nú liggur það fyrir að sum sveitarfélög fengu þá úthlutun að að fullu var orðið við beiðni þeirra um leyfi til að byggja félagslegar íbúðir. Önnur sveitarfélög voru skorin niður við trog. Ég
tek það alveg sérstaklega fram að ég tel hæstv. ráðherra vera ábyrgan fyrir framkvæmd húsnæðismála í landinu.
    Ég vil í fimmta lagi spyrja hæstv. félmrh. við hvað sé átt í tillögum nefndarinnar með tillögum um húsaleigubætur og leigumiðlanir sem vikið er að á bls. 15 í athugasemdum við lagafrumvarpið. Og ég vil spyrja ráðherrann að því hvort hugmynd hans sé að þeir einstaklingar sem taki á leigu félagslegar íbúðir eigi kost á einhverjum sérstökum húsaleigubótum. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá þetta atriði fram og samtímis hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að íbúðaeigendur fái samkvæmt skattalögum samsvarandi breytingar til að þeir standi ekki að þessu leyti höllum fæti gagnvart hinum sem í leiguhúsnæði

búa. Með öðrum orðum, hvort húsnæðisráðherrann telur sig vera ráðherra þess fólks sem af eigin rammleik er að reyna að eignast þak yfir höfuðið eða hvort hann telur að það sé einhver annar sem eigi að gæta hagsmuna þess fólks.
    Ég vil svo í sjötta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann standi enn við þá fullyrðingu sína að hægt sé að bjóða upp á betri kosti í þessum leiguíbúðum, miðað við sömu opinberu fyrirgreiðslu, en gert er í verkamannabústaðakerfinu. Þá er ég að tala um að sveitarfélögin borgi það sama til verkamannabústaðakerfisins og þau borga til kaupleiguíbúða og þessara leiguíbúða. Ég er að tala um að ríkið geri þeim sams konar skil. Og ég er að spyrja ráðherrann að því hvort hann telji að umstangið, umsvifin og stofnanakostnaðurinn verði eitthvað mismunandi.
    Ég vil minna hæstv. ráðherra á að þeir sem eru í verkamannabústaðakerfinu standa sjálfir fyrir margvíslegu viðhaldi, verja þessar íbúðir eignatjóni, þykir vænt um þessar íbúðir. Þarf ekki að fjölyrða um þá miklu yfirburði sem það hefur bæði hér á landi og annars staðar, hvarvetna í veröldinni, að málunum sé sem mest komið í hendur einstaklinganna sjálfra. Að þeir eigi að bera ábyrgð á gjörðum sínum og að auðvelda eigi þeim og gera þeim kleift að vera sem sjálfstæðastir. Þá vil ég auðvitað leggja áherslu á það, eins og ég hef jafnan gert í þessum umræðum, að við sjálfstæðismenn höfum talið sjálfseignarkostinn bestan um leið og við höfum lagt á það ríka áherslu að við viljum eign fyrir alla og við viljum auðvelda því fólki sem lægstar hefur tekjur að komast í eigið húsnæði. Um leið leggjum við ríka áherslu og minnum á það mikla starf sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur unnið, það mikla framtak sem hún hefur sýnt til þess að koma til móts við þá sem verst eru staddir og rekið af þeim sökum leiguíbúðir til þess að hlaupa þar undir bagga.
    Á allt þetta vil ég minna og að síðustu aðeins segja þetta: Það dettur áreiðanlega engum í þessu húsi í hug, öðrum en þeim mönnum sem eiga sæti í ríkisstjórn, ég skal ekki segja, kannski forseta sameinaðs Alþingis og svona einstaka krata þar fyrir utan, að yfirstjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins og félmrn. á öllu íbúðarbákninu í landinu sé til meiri farsældar en einstaklingarnir sjálfir og völd fólksins, hvar sem það býr á landinu. Þess vegna væri þetta frv. mjög gott ef það hefði gengið í gagnstæðar áttir, aukið sjálfstæði sveitarfélaganna, byggðarlaganna, yfirsýn með félagslegum þætti húsnæðismálanna, fært það í þeirra hendur sem þar búa. Og ef það yrði gert um leið að þeir sem bera ábyrðina, framkvæmdarábyrgð, lagaábyrgð og fjárhagslega ábyrgð, hafi líka ákvörðunarvaldið í sínum höndum. Það er það sem nauðsynlegt er að verði og nauðsynlegt er að gerist.
    Ég vil svo að síðustu, vegna þess hvaða maður stjórnar hér fundi, rifja upp hversu ánægjulegt samstarf ég átti við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar á sínum tíma í

tengslum við kjarasamningana 1986 og upp úr því og allar þær mörgu viðræður sem ég átti þá við fulltrúa úr þessum hópum um það eðlilega markmið sem við vildum setja okkur, að hjálpa sem flestum að eignast íbúðarhúsnæði og reyna að koma í veg fyrir margvíslega misnotkun og margvíslegt, ég vil segja ranglæti sem almennt félagslegt kerfi hefur haft í för með sér hvar sem er. Það er það sem er hið sorglega í þessu máli. Og af þeim sökum er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. félmrh. þessara einföldu spurninga.