Búnaðarmálasjóður
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það er sjálfsagt að reyna að svara hv. 1. þm. Reykv. Fagna ég því að hann lætur sig málefni landbúnaðarins varða og kveður sér hljóðs um þau efni. Það mætti vera meira af því að allir teldu þau málefni sér viðkomandi en ekki bara hluti hv. þm. eins og stundum hefur viljað brenna við.
    Það er kannski erfitt að leggja mælikvarða á það hvað eigi að flokkast undir meiri háttar eða minni háttar breytingar. Þó vil ég segja það sem mína skoðun að ég held að þetta sé verulega stórt skref í þá átt að laga sjóða- og félagskerfi landbúnaðarins að breyttum aðstæðum. Það má í raun segja að í hnotskurn gangi þetta mál út á það að hluti af tekjustofni, svonefnt framleiðendagjald sem áður hefur verið tekið af framleiðsluvörum bænda og runnið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, sé núna tekið þaðan og fært yfir í félagskerfið eða hina félagslegu hlið til að standa straum af starfsemi þar. Þetta þýðir að sjálfsögðu að tekjustofnar Stofnlánadeildar skerðast. Þeir hafa í raun verið undirstaða þess að deildin hefur getað lánað bændum á sérlega hagstæðum vöxtum auk þess sem Stofnlánadeild hefur, sérstaklega á síðustu árum, verið gert að standa undir ýmsum öðrum verkefnum sem reyndar voru áður viðfangsefni ríkisins. Það er því alveg ljóst að greiðslubyrðin er í raun að færast af ríki yfir á Stofnlánadeild og síðan yfir í félagskerfi landbúnaðarins í gegnum þetta gjald sem tekið er af framleiðsluvörum bænda. Ég hygg að það megi til sanns vegar færa að það sé þróun í þá átt sem hv. 1. þm. Reykv. var í raun og veru hér að víkja að.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að þessi lagabreyting hefur engin áhrif á búvöruverð eða gjaldtökuna sem slíka. Hér er einungis um tilfærslu að ræða. Þar sem á ferðinni er samkomulagsmál allra helstu aðila í landbúnaðinum vil ég leyfa mér að vænta þess að það mæti skilningi.
    Deila má um það hvort það hafi orðið atvinnugreininni til hagsbóta eða ekki, eins og hv. þm. vék lítillega að, að þessi háttur hefur verið hafður á hvað stofnlánasjóð eða fjárfestingarlánasjóð landbúnaðarins, Stofnlánadeildina snertir, að hún hefur haft ákveðna tekjustofna sem allir framleiðendur í landinu hafa lagt deildinni til sem síðan hefur gert henni kleift að lána þeim sem standa í fjárfestingum á hverjum tíma á hagstæðari kjörum en ella hefði verið mögulegt. Ég sagði í minni framsöguræðu að gegnum þetta hefði átt sér stað veruleg jöfnun og ég tel að sú jöfnun hafi verið mjög mikilvæg. Ég vildi ekki horfa framan í þær aðstæður sem væru í íslenskum landbúnaði í dag ef hann hefði byggt fjárfestingar sínar á 8. áratugnum sérstaklega, þegar mjög mikið var framkvæmt í íslenskum landbúnaði, og núna á síðustu árum, á lánum sem orðið hefðu jafndýr og varð á hinum almenna markaði þegar verst lét hér fyrir nokkrum árum síðan á ákveðnu tímabili, sem ég ætla ekki að fara út í sérstakar umræður við

hv. þm. um. Þá óttast ég að víða væri ærið verra ástand en þó er í íslenskum landbúnaði.
    Í gegnum þetta fyrirkomulag hefur átt sér stað viss jöfnun, viss stuðningur þeirra sem búa grónu búi, ef svo má að orði komast, við þá sem standa í framkvæmdum og fjárfestingum á hverjum tíma. Þannig má segja að greinin í heild hafi að nokkru leyti staðið á bak við framkvæmdirnar, fjárfestingarnar, og ég vil leyfa mér að meina framfarirnar, þar sem þær hafa verið í gangi á hverjum tíma í landbúnaðinum. Ég held að það sé að mörgu leyti ágætis fyrirkomulag og það er mjög nærri mínum pólitísku skoðunum en um það geta menn að sjálfsögðu deilt.
    Ég held sem sagt að þetta sé óumdeilanlega skref í rétta átt. Ég hygg þó að rétt sé að viðurkenna að fleira þarf að koma til til þess að unnt sé að segja með réttu að heildaryfirferð á þessu hafi farið fram. Að mínu mati þarf að fara yfir og endurskoða betur málefni Bjargráðasjóðs. Það þarf að fara yfir tryggingarmálefni í landbúnaði og samræma þá hluti. En þetta er tvímælalaust skref í rétta átt og gæti tengst áframhaldandi vinnu að endurskoðun og uppstokkun eða endurskipulagningu félagskerfis landbúnaðarins, sem mikið hefur verið til umræðu. Það er að sjálfsögðu stórt og mikið mál þar sem frumkvæðið verður auðvitað fyrst og fremst að koma frá samtökum bænda eða bændum sjálfum, eðli málsins samkvæmt.
    Ég hygg líka að hv. þm. sjái, ef hann fer yfir fylgiskjöl frv., ýmsar mjög gagnlegar upplýsingar sem þessu máli tengjast þar sem gerðar eru áætlanir um skiptingu tekna og afkomu Stofnlánadeildar og fleira sem þessu máli tengist.
    Ég vona að þetta hafi að einhverju leyti svarað spurningum hv. 1. þm. Reykv.