Ferðamálastefna
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um ferðamálastefnu og eins og komið hefur fram í máli manna er um ítarlega tillögu að ræða sem er vel skýrð í grg. og með fylgiskjölum. Það vildi svo til að á sl. vetri átti ég þess kost að sitja ferðamálaráðstefnu á Austurlandi sem að mjög stórum hluta fjallaði um þá tillögu sem hér liggur nú fyrir og þar var skýrð sérstaklega. Mér er þess vegna vel kunnugt um hve mikið starf hefur hér verið af hendi leyst og það má ekki minna vera en að þeir sem hafa áhuga fyrir ferðamálum og áhuga fyrir málefnum dreifðra íslenskra byggða þakki það starf og fagni þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.
    Það er reyndar svo með allar tillögur af þessum toga að þær valda ekki miklum straumhvörfum nema á eftir fylgi aðrar ákvarðanir. Að vísu er það alltaf góður kostur að skýra mál, koma þeim í umræðu í þjóðfélaginu og þá ekki síst hér á hinu háa Alþingi. En ef menn ætla að ná fram markvissum vinnubrögðum verður að sjálfsögðu að fylgja á eftir löggjöf eða ákvarðanir eins og hér hefur reyndar verið bent á af hv. síðasta ræðumanni, ákvarðanir við fjárlagagerð. Af því ræðst náttúrlega hinn raunverulegi árangur af slíku starfi sem hér er leyst af hendi.
    Í jafnvíðtækum tillögum og þeirri sem hér er fjallað um geta menn að sjálfsögðu metið málin með ýmsum hætti, en það sem ég legg áherslu á í þessari tillögugerð og mér þykir mikilvægast eru þær áherslur sem koma fram í sambandi við umhverfið í þessu landi, náttúru þess, og hvað hér eru með skýrum hætti dregin fram í dagsljósið þau miklu verðmæti sem í okkar sérstæða náttúrufari búa og þeir möguleikar sem við eigum óhagnýtta í þessum efnum. Hér er þá fyrst og fremst um verkefni að ræða sem tengjast þeim byggðum sem laða til sín náttúruskoðendur og hefur reyndar verið sýnt fram á hve miklir
möguleikar eru einmitt bundnir við slíkar aðstæður. Við getum tekið sem dæmi Mývatnssveit og Þingvelli, að ógleymdri Austur-Skaftafellssýslu, ekki kannski einungis þjóðgarðinn heldur líka umhverfið þar í grennd þar sem á sér stað mikil uppbygging ferðamannaaðstöðu og ferðamannaþjónustu sem verður áreiðanlega lyftistöng fyrir þær sveitir sem þannig taka á málum.
    Nú verður það væntanlega svo, eins og hér er skýrt frá, að þessi þáltill. verður útfærð í lagafrumvörpum með haustinu og þá gefst mönnum kostur á að brjóta efni hennar til mergjar á réttum vettvangi. Þess vegna sýnist mér ekki að hér séu efni til mikillar efnislegrar umræðu, en ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, að ég fagna því að þessi tillaga er hér fram komin til umræðu og meðferðar á Alþingi.