Æskulýðsmál
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um æskulýðsmál sem er heildarendurskoðun á löggjöf um æskulýðsmál og hefur verið til endurskoðunar og athugunar um skeið í menntmrn. Skipuð var nefnd snemma í október 1988 og var gert ráð fyrir því að nefndin hefði í fyrsta lagi það hlutverk að endurskoða lög um æskulýðsmál og í öðru lagi að skila tillögum um breytta stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum til aldamóta.
    Nefndin skilaði áliti sínu um endurskoðun æskulýðslaga snemma á þessu ári, í janúarmánuði og vinnur núna að tillögugerð varðandi stefnumótun í íþróttamálum til aldamóta. Vænti ég þess að nefndin skili mér tillögum þar um fljótlega.
    Nefndin skilaði sameiginlegu áliti til menntmrn. þar sem lögð var áhersla á nokkrar meginbreytingar í þessum málaflokki. Aðalbreytingin var sú að eftir tillögum nefndarinnar var gert ráð fyrir því að framvegis stýrðu æskulýðssamtökin í raun og veru sjálf þessum málaflokki fyrir hönd ráðuneytisins, en ekki ríkisstofnanir eins og Æskulýðsráð ríkisins eða æskulýðsfulltrúi ríkisins. Hér er um að ræða mjög mikilvæga stefnubreytingu
sem kemur fram í 1. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að menntmrn. setji reglur er kveði á um hvað teljist æskulýðssamtök í skilningi frv., og laganna ef að lögum verður, og jafnframt komi þar fram aldursákvæði.
    Hér er um að ræða þá grundvallarbreytingu að menntmrn. felur heildarsamtökum æskulýðsfélaga að annast þennan málaflokk í samráði við ráðuneytið, en Æskulýðsráð ríkisins í núverandi mynd er lagt niður.
    Önnur meginbreyting frv. er sú, eins og það lítur út hér, að gert er ráð fyrir því að embætti æskulýðsfulltrúa ríkisins verði lagt niður en í staðinn verði þeim fjármunum sem til þess embættis hafa farið, svo og þeim fjármunum sem farið hafa til æskulýðsmála almennt á fjárlögum á hverjum tíma, varið til sjóðs sem kallaður er æskulýðssjóður og miðað er við að fái um 10 millj. kr. á ári á verðlagi janúar 1990. Þess má geta að framlög til æskulýðsmála alls á fjárlögum ársins 1990 nema talsvert hærri upphæð. Það er ekki miðað við að öll framlög til æskulýðssamtaka fari endilega í gegnum þennan sjóð heldur meginhluti þeirra.
    Hér er um að ræða þær meginbreytingar sem frv. gerir núna ráð fyrir. Á því urðu tvær veigamiklar breytingar í ráðuneytinu, annars vegar sú að embætti æskulýðsfulltrúa er lagt niður samkvæmt tillögu ráðuneytisins og í öðru lagi er ekki gert ráð fyrir mörkuðum tekjustofni í þennan æskulýðssjóð eins og gert var ráð fyrir í tillögum nefndarinnar. Megin- og grundvallarbreytingin er hins vegar sú að gert er ráð fyrir að leggja Æskulýðsráð ríkisins niður og fela hinum frjálsu æskulýðssamtökum í landinu alla forystu í þessum málum.
    Ég tel ástæðulaust, herra forseti, að fara frekari orðum um þetta frv. Það er stutt, einfalt og skýrir sig

sjálft. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og vænti þess fastlega að nefndin sjái sér fært, þó skammur tími sé til stefnu, að ljúka málinu þannig að unnt verði að afgreiða það á þeim tíma sem eftir lifir af yfirstandandi þingi.