Námsgagnastofnun
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um Námsgagnastofnun. Þetta er 2. umr. í síðari deild þannig að málið virðist vera á góðri leið með að verða að lögum. Ég átti sæti í þeirri nefnd, þ.e. menntmn. þessarar deildar, sem fjallaði um frv. og skrifaði undir nál. og hef ekki viljað gera ágreining um þetta mál en vildi þó engu að síður koma að nokkrum athugasemdum við 2. umr.
    Ég vil þá byrja á því að skýra ofurlítið nánar hver ástæðan er fyrir brtt. sem fram kemur í nál. á þskj. 980 og sem hv. frsm. nefndarinnar, 10. þm. Reykv., hefur gert hér grein fyrir. Hún er þess efnis að lagt er til að 6. mgr. breytist. Hún er nú orðuð á þessa leið í frv., með leyfi forseta:
    ,,Stofnunin hefur með höndum þróun námsgagna, kannanir og rannsóknir á gerð þeirra og notkun.`` Það er lagt til að í stað orðanna ,,kannanir og rannsóknir`` í 6. mgr. komi: og hefur frumkvæði að könnunum og rannsóknum.
    Þetta mál var allmikið rætt í nefndinni og reyndar hreyfði ég því að rétt væri að bæta enn við þessa mgr., að árétta nauðsyn samstarfs við Kennaraháskóla Íslands og Rannsóknastofnun uppeldismála að því er snertir rannsóknir þær sem Námsgagnastofnun mundi fjalla um eða beita sér fyrir. Þetta orðalag varð þó að samkomulagi og felur það auðvitað í sér að ekki er sjálfgefið að Námsgagnastofnun sjálf annist þær rannsóknir sem hér er fjallað um.
    Við fengum á fund nefndarinnar tvo valinkunna menn, sérstaklega til viðræðna um þetta atriði, þ.e. þá Jón Torfa Jónasson frá Rannsóknastofnun uppeldismála og Ingvar Sigurgeirsson frá Kennaraháskóla Íslands. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það orðalag sem varð niðurstaðan var frá þeim komið. Þeir voru hins vegar sammála því sjónarmiði að það ber að gjalda varhug við að dreifa um of kröftum okkar í rannsóknarmálum. Við vitum að rannsóknir á öllum sviðum eru dýrar. Við höfum takmarkað fjármagn til rannsókna. Við eigum í erfiðleikum
með að sinna ýmsum rannsóknarverkefnum vegna hins takmarkaða fjármagns og þess vegna er ekki eðlilegt að við dreifum allt of mikið okkar takmörkuðu kröftum í þessum efnum.
    Ég held að allir séu sammála um það að Námsgagnastofnun eigi að hafa með höndum þróun námsgagna og jafnvel ýmsar kannanir í því sambandi. Það er þáttur í eðlilegu starfi og við vonumst til að starf hennar miði að því að betrumbæta þau námsgögn sem skólar landsins fá í hendur, en hins vegar sé það meira en vafamál hvort þessi stofnun eigi að stunda sjálfstæðar rannsóknir. Ég vek í því sambandi athygli á að helstu rannsóknastofnanir okkar í menntamálum eru, við getum sagt, þrjár. Það er Kennaraháskóli Íslands, það er sérstök rannsóknastofnun uppeldismála og að sjálfsögðu Háskóli Íslands. Hins vegar er Kennaraháskólinn miðstöð rannsókna á sviði uppeldismála. Í lögunum um Kennaraháskóla Íslands,

sem samþykkt voru á Alþingi þann 4. maí og gefin út 18. maí 1988, er sérstakur kafli um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands. Þar segir í VII. kafla sem heitir Rannsóknir:
    ,,25. gr. Heimilt er skólaráði, að fengnu samþykki menntmrh., að ákvarða um heildarskipulag og stjórnun rannsókna og útgáfustarfsemi innan Kennaraháskóla Íslands.
    Skólaráð skal setja reglur um ráðstöfun á rannsóknasjóðum sem Kennaraháskólinn hefur til umráða.
    26. gr. Heimilt er að innan Kennaraháskólans starfi rannsóknastofnun. Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknaskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
    Fela má rannsóknastofnuninni umsjón með útgáfustarfsemi á vegum Kennaraháskólans.
    Rannsóknastofnunin getur veitt kennurum og kennaraefnum ráðgjöf og fræðslu um framkvæmd rannsókna.
    Í reglugerð skal m.a. kveða á um starfssvið stofnunarinnar, stjórn, tengsl við skólaráð, samstarf við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála og aðra aðila er rannsóknum sinna.``
    Um svipað leyti og lögin um Kennaraháskóla Íslands voru afgreidd voru jafnframt afgreidd sérstök lög um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála þar sem fram kemur að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skuli vera sjálfstæð vísindaleg stofnun og samstarfsvettvangur aðila er sinna rannsóknum á því sviði. Síðan er rakið í 2. gr. hlutverk Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála og skal það vera:
,,1. Vinna að rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála og skulu að jafnaði tekin fyrir verkefni er teljast hafa fræðilegt eða hagnýtt gildi fyrir skóla- og menntamál á Íslandi.
    2. Veita faglega ráðgjöf um rannsóknir og þróunarverkefni á sviði uppeldis- og menntamála.
    3. Veita kennurum, kennaraefnum og háskólastúdentum í framhaldsnámi á sviði uppeldis- og menntamála þjálfun og ráðgjöf í fræðilegum vinnubrögðum.
    4. Kynna íslenskar og erlendar rannsóknir. Við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála skulu starfa sérfræðingar á sviði uppeldis- og menntamála. Heimilt er háskólakennurum að inna vinnuskyldu sína eða hluta hennar af hendi með störfum í þágu stofnunarinnar.``
    Þetta er sem sagt sú grein þessara sérstöku laga um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sem fjallar um meginhlutverk hennar.
    Ég held að það sé mikill vilji fyrir því innan menntakerfisins að efla Rannsóknastofnum uppeldis- og menntamála þannig að hún geti í raun orðið rannsókna- og vísindastofnun á þessu sviði. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að vísindalegum rannsóknum sem snúa að námsgögnum sé beint inn í Rannsóknastofnun uppeldis- og

menntamála og að kröftum sé ekki dreift með því að Námsgagnastofnun fari sjálf með vísindalegar rannsóknir á þessu sviði eins og greinilega var að stefnt með frv. eins og það leit út þegar það var lagt fram og kom inn í þessa deild.
    Ég vildi, herra forseti, árétta þessa skoðun og skýra betur hvað liggur að baki brtt. sem hefur nú verið lögð fram sem hluti af nál. menntmn. Ég árétta að mér finnst eðlilegt að stofnunin hafi með höndum þróun námsgagna og kannanir sem snerta slíka þróun, en hinar vísindalegu rannsóknir eigi að vera í höndum þeirra stofnana sem Alþingi hefur sérstaklega sett lög um og eiga að vera höfuðmiðstöðvar rannsókna í uppeldis- og menntamálum.
    Það vill nú gjarnan vera svo hér á hv. Alþingi að við fáum í hendur frv. um hinar ýmsu ríkisstofnanir. Oft mótast þessi frv. mjög af starfsfólki viðkomandi stofnana. Það er mannlegt og eðlilegt að forstöðumenn og starfsfólk viðkomandi stofnana vilji veg þeirra sem mestan, vilji efla þær, fá þeim ný verkefni og þar með að gera sín eigin störf meira gildandi en þau hafa verið. Mér finnst við hv. alþm. allt of oft falla í þá gryfju að samþykkja gagnrýnislaust lög af þessu tagi sem fela í sér stöðuga útþenslu og stöðuga aukningu á stofnunum ríkisins og ríkiskerfinu. Það gefur auga leið að rannsóknarskylda sem samþykkt yrði fyrir Námsgagnastofnun mundi auðvitað kalla á nýtt starfsfólk áður en langt liði. Og um það mundi verða sótt, bæði til menntmrn. í tengslum við gerð fjárlaga og síðan til fjmrn. og síðan væntanlega inn í fjvn. og til Alþingis. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að við alþingismenn gætum mjög að okkur í þessum efnum. Ég tel að það hafi tekist nokkuð að bæta hér um með brtt. sem hér liggur fyrir og samkomulag var um og ég vænti þess að muni verða samþykkt.
    Það væri að vísu tilefni til að ræða nokkuð önnur atriði í frv. Frv. felur ekki í sér neinar verulegar breytingar frá núgildandi lögum um Námsgagnastofnun. Því hefur nokkuð verið breytt frá því það var lagt fram þannig að þær breytingar sumar sem að var stefnt í upphafi hafa ekki náð fram að ganga. En allt miðar nú frv. frekar að því að styrkja og efla þessa stofnun sem er út af fyrir sig ágætt. Mér finnst hins vegar að við þingmenn höfum oft of mikla trú á ríkisstofnunum til þess að leysa hin ýmsu vandamál í okkar þjóðfélagi. Ég nefndi það t.d. þegar frv. til grunnskólalaga var hér til umræðu ekki alls fyrir löngu að Danir hafa verið að gera mjög djarflegar breytingar á sínum grunnskólalögum og dreifa verulega valdinu, bæði út til skólanna sjálfra og til sveitarfélaganna. Það er merkilegt að í tengslum við þessar miklu breytingar á grunnskólalögunum, sem tóku gildi í Danmörku á síðasta ári, ákváðu þeir að leggja niður sína námsgagnastofnun, þ.e. þá ríkisstofnun sem hefur farið með útgáfu námsgagna hingað til og beindu þeim verkefnum í aðrar áttir. Dreifðu valdinu meir til skólanna sjálfra, til samtaka þeirra, til sveitarfélaganna, þannig að þeir tóku þá ákvörðun að binda ekki ofurtrú við störf miðstýrðrar

ríkisstofnunar að þessum mikilvægu verkefnum heldur að dreifa valdinu. Hins vegar hefur ráðuneytið áfram ákveðið eftirlitshlutverk í þessum efnum.
    Ég vildi aðeins skýra frá þessu hér. Þetta er ekki mín tillaga en mér finnst að við þurfum að gá svolítið að okkur og huga dálítið betur að okkur í þessum efnum, að treysta ekki um of á miðstýrðar ríkisstofnanir sem hafa tilhneigingu til að vaxa og þenjast út jafnvel án þess að þess sjáist stað í auknum afköstum eða auknu starfi. Ég tek það sérstaklega fram að Námsgagnastofnun er stofnun sem er ágætlega vel stjórnað að mínu mati í dag. Hún hefur unnið mjög gott starf og starf hennar fer batnandi. Ég hygg að um það geti allir verið sammála og ég bið menn um að skilja á engan hátt orð mín svo að ég sé að gagnrýna stofnunina sem slíka eða það fólk sem þar starfar.
    Ég taldi hins vegar rétt að koma með þessar athugasemdir og upplýsa hvað menn hafa verið að gera í Danmörku í þessum efnum. En aðaltilgangur minn hingað var þó sá að skýra rækilegar en gert var í framsögu með nál. af hvaða rótum er runnin sú brtt. sem við leggjum til í menntmn.