Lánasýsla ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1012 um frv. til laga um stofnun Lánasýslu ríkisins. Nál. er frá fjh.- og viðskn.
    Nefndin hefur fjallað um frv. Eftirtaldir voru kallaðir á fund nefndarinnar: Már Guðmundsson, efnahagsráðunautur fjmrh., Ingimundur Friðriksson, forstöðumaður alþjóðasviðs Seðlabankans, og Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt án breytinga. Undir þetta rita allir nefndarmenn. Eyjólfur Konráð Jónsson ritar undir með fyrirvara.
    Það frv. sem hér um ræðir er um stofnun sérstakrar stofnunar er nefnist Lánasýsla ríkisins. Á hún að hafa með að gera öll viðskipti ríkisins er varða innlenda sem erlenda lánsfjáröflun og sjá um sölu spariskírteina ríkissjóðs og einnig að hafa yfirumsjón með lántökum ríkisins erlendis.
    Í umsögnum þeirra aðila sem mættu fyrir nefndina kom fram nauðsyn á stofnun sérstakrar stofnunar þar sem þetta er nú til húsa í fjmrn. og að æskilegt sé að fela þetta sjálfstæðri stofnun þar sem umfang þessara mála er orðið svo mikið að það telst til hlýða.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál enda allir nefndarmenn sammála um að þessi stofnun skuli sett á stofn. Ég legg því til fyrir hönd nefndarinnar að mál þetta verði samþykkt óbreytt.