Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga. Í nál. segir svo:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk til viðræðna um efni þess þá Örlyg Geirsson, formann endurbótasjóðs menningarstofnana, og dr. Finnboga Guðmundsson, formann byggingarnefndar þjóðarbókhlöðu.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt án breytinga.``
    Undir nál. rita allir nefndarmenn fjh.- og viðskn.
    Frv. þetta er, eins og segir í grg. með frv. þegar það var lagt fram, og ég vitna þá beint til athugasemda við frv., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt núgildandi lögum skal skattskylt mark til sérstaks eignarskatts breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skattvísitala er ákveðin í fjárlögum fyrir ár hvert. Þar sem ákveðið hefur verið að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt liggur fyrir að það verður ekki ákveðin skattvísitala í fjárlögum fyrir árið 1990. Af þessum sökum er nauðsynlegt að hækka skattskylt mark til sérstaks eignarskatts með sérstakri löggjöf. Hér er lagt til að það verði hækkað í samræmi við áætlaða launa- og verðlagsþróun að undanförnu og á næsta ári.`` Orðalagið ,,að undanförnu`` skýrist af því að þetta frv. var lagt fram á þinginu 1987.
    Nefndin hefur sem sagt fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.