Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans við fyrirspurninni sem ég lagði hér fram. Ég átti von á að heyra annað en fram kom í máli hans. Ég átti von á að hann tæki undir að einhverju leyti þá vel unnu skýrslu sem fram kom frá umboðsmanni Alþingis þar sem hann fer mjög hörðum orðum um bankaeftirlitið og störf þess í þessu máli.
    Hitt er svo allt annað mál hvort vanræksla sú sem bankaeftirlitið sýndi af sér hafi skapað einhverja fébótaábyrgð. Ég ætla ekki að fara út í þá hluti að þessu sinni en þar sem viðskrh. vísaði til minnar lögfræðikunnáttu vil ég nú segja að það gegnir allt öðru máli þegar um það er að ræða að viðkomandi starfsemi, eins og verðbréfasjóðir, hefur fengið leyfi og fullgildingu til reksturs svona starfsemi og ströng fyrirmæli eru um eftirlit af hálfu aðila sem á að vera óháður, bankaeftirlitsins, en um eðlilega eftirlitsstarfsemi af hálfu ríkisins, eins og bifreiðaskoðun.
    Ég vil einnig skora á viðskrh. að taka nú þetta mál til athugunar, þrátt fyrir það sem hann lýsti yfir hér, og láta fara fram einhverja athugun á málinu sem slíku og hegðun bankaeftirlitsins í því þar sem greinilegt er að mikið ber á milli frá skýrslu bankaeftirlitsins og svo umboðsmanns.
    Eins og ég rakti hér í upphafi þegar ég bar fram fyrirspurnina er tilefni hennar það að umboðsmaður Alþingis tekur þetta mál upp og fer ofan í starfsemi stjórnsýslunnar. Aðalatriði málsins er að síðan getur ráð eða stjórn Seðlabankans komið og sagt: Störf umboðsmannsins eru að engu hafandi. Það er aðalatriði málsins, að við þingmenn tökum undir það starf sem fer fram hjá umboðsmanninum og reynum að standa að baki honum og framfylgja þeirri vinnu sem þar er unnin.