Táknmál heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Staðreynd er að fáir eða engir hópar fólks búa við eins mikla félagslega einangrun og heyrnarlausir. Þessi staðreynd þarfnast vart útskýringa þegar þess er gætt að vandfundinn er sá heyrandi maður sem hefur ekki lent í því með einum eða öðrum hætti að skilja ekki það sem fram fer í kringum hann sökum tungumálaerfiðleika og þá fundið til einangrunar og vanmáttar. Sú er sífellt staða heyrnarlausra í okkar málsamfélagi. Við Íslendingar tölum tungumál sem heyrnarlausir skilja ekki og læra ekki nema með mikilli fyrirhöfn, erfiði og hjálp og því eru þeir í vissum skilningi útlendingar í eigin landi. En þeir eiga sér eigið mál, íslenskt táknmál sem þeir nota til tjáningar og samskipta við aðra heyrnarlausa og þá heyrandi sem hafa lært táknmál.
    Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra hér á landi, íslenska mál númer tvö. Þeir þurfa því að vera tvítyngdir til að þrífast vel. Rétt eins og góð íslenskukunnátta er líkleg til að auðvelda heyrandi að nema önnur tungumál er góð táknmálskunnátta heyrnarlausra algjör forsenda þess að þeir geti tileinkað sér íslensku, náð góðum árangri og orðið tvítyngdir og þar með átt möguleika á því að rjúfa félagslega einangrun sína og notfæra sér ýmislegt það sem þjóðfélagið býður að öllu jöfnu öðrum þegnum sínum upp á, m.a. almenna menntun á grunnskólastigi jafnt sem öðrum skólastigum. Foreldrar og fjölskyldur heyrnarlausra þurfa að eiga kost á táknmálskennslu til að geta umgengist, skilið og tjáð sig eðlilega við börn sín.
    Táknmálsumhverfi er heyrnarlausum nauðsynlegt. Líkt og heyrandi maður verður feginn eftir langa útivist að tala sitt eigið tungumál er heyrnarlausum léttir í því að dvelja í táknmálsumhverfi, þ.e. umhverfi þar sem þeir nota sitt eigið mál, fyrsta mál, táknmál, sem er þeirra eðlilegasta og óheftasta tjáning einstaklingnum til styrktar og hvíldar. Forsenda þessa alls er að íslenskt táknmál hljóti opinbera viðurkenningu og að heyrnarlausir verði viðurkenndir sem málminnihlutahópur. Þá fyrst skapast aðstæður til raunverulegra og nauðsynlegra úrbóta fyrir heyrnarlausa og aðstandendur þeirra, kennara, túlka og aðra sem þessum málefnum sinna eða tengjast. Slíkt væri mjög í anda þess sem nú er almennt viðurkennt, sbr. niðurstöður þriðju Evrópuráðstefnu um táknmálsrannsóknir sem haldin var dagana 26.--29. júlí 1989 í Hamborg. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:
,,1. Eru uppi áform um að viðurkenna íslenskt táknmál sem sérstakt og sjálfstætt mál og þá jafnframt að viðurkenna heyrnarlausa sem málminnihlutahóp (sbr. ályktun Evrópuþingsins 17. júní 1988) og táknmál sem móðurmál (fyrsta mál) hans?
    2. Ef svo er, hvaða ráðstafanir verða gerðar í framhaldi af því til að styrkja stöðu táknmáls í uppeldi og menntun heyrnarlausra?
    3. Ef svo er ekki, með hvaða hætti telur ráðuneytið unnt að skapa heyrnarlausum börnum þroskavænlegt umhverfi og kennslu við hæfi?``