Framhaldsmenntun heyrnarlausra
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég treysti mér því miður ekki til að svara þessari spurningu með jái. Ég vil athuga þessi mál. Ég vil athuga hvaða afleiðingar ákvarðanir af þessu tagi hefðu og hvaða skyldur. Ég vil ekki vera að gefa hér yfirlýsingar sem menntmrh. án þess að ég hafi gert mér grein fyrir því í einstökum atriðum hvaða afleiðingar svona ákvarðanir hefðu. Ég tel reyndar líka að þetta sé ekki aðeins mál menntmrh. heldur hygg ég að þetta sé mál sem Alþingi verður að fjalla um. Ég sagði fyrr í dag að ég teldi eðlilegt að tillögur um þetta efni kæmu fyrir Alþingi í haust og svara þá spurningunni svona: Það verða undirbúnar tillögur um málið sem verða lagðar fyrir Alþingi í haust.
    Það hefur ekki verið ætlun menntmrn., eins og skilja mátti af orðum hv. 18. þm. Reykv., að leggja Heyrnleysingjaskólann niður án þess að neitt annað kæmi í staðinn. Það hefur aldrei verið ætlun menntmrn. Það hefur aldrei verið ætlun mín að henda því fólki út sem er í Heyrnleysingjaskólanum, eins og skilja mátti af býsna ósanngjörnum og óheiðarlegum málflutningi í fréttabréfi sem birtist hér fyrir nokkru á vegum forstöðumanna Heyrnleysingjaskólans. Það hefur ekki verið ætlun ráðuneytisins, eins og menn hljóta að skilja. Ég geri ekki ráð fyrir því að nokkur þingmaður ætli ráðuneytinu eða ráðherranum þá afstöðu að ætla sér að loka þessum skóla með slagbröndum án þess að gera eitthvað annað í staðinn.
    Umræðan hefur hins vegar snúist um það, og um það hefur ekki verið nein samstaða í raun og veru, með hvaða hætti sé almennt best að standa að grunn- og framhaldsmenntun heyrnarlausra hér á landi. Það kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. að hann teldi eðlilegt að framhaldsmenntun heyrnarlausra væri í öllum tilvikum í framhaldsskólum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að hún verði í öllum tilvikum í framhaldsskólum. Ég tel að bæði grunnmenntun og framhaldsmenntun heyrnarlausra geti bæði verið í heyrnleysingjaskóla og í almennum skólum, allt eftir því hvernig viðkomandi einstaklingur er á sig kominn.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þessi mál. Ég vil sérstaklega þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að hafa vakið máls á þessu hér í þremur fyrirspurnum og sömuleiðis fyrir það að hafa einnig tekið þessi mál upp á síðasta þingi og kannski þar áður. Það er mjög mikilvægt að fá aðstöðu til að ræða mál af þessu tagi hér á hv. Alþingi. Og fyrir það á hv. þm. þakkir skildar. Ég vil svo bæta því við að ég vona að þegar fjárlagatillögur fyrir árið 1991 verða lagðar fyrir Alþingi þá verði jafngóður og víðtækur stuðningur og skilningur á þessu máli eins og komið hefur fram í þessum sal í dag.