Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig rétt að hér stendur að nokkru leyti þingreyndur maður og svo ætti að vera um fleiri. ( ÞP: Stjórnarþingmaður?) Nei, það er ekki stjórnarþingmaður. Ég hélt að það gæti legið fyrir hv. þm. Sjálfstfl. eftir hvað, tæpt ár er það ekki síðan hæstv. ríkisstjórn tók við völdum, að ég hef ekki lýst yfir stuðningi við hæstv. ríkisstjórn. Ég hef kosið, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að fara eftir sannfæringu um afstöðu til mála, ekki eftir flokksþrælkun eða flokksfjötrum og því mun ég halda áfram.
    Varðandi það sem hæstv. forsegi segir: Það er alveg rétt, eins og ég tók fram, að þessi beiðni barst ekki á tilskildum tíma. Ástæðan er ljós. Fréttin barst ekki fyrr og eiga þeir sem að henni standa í fjölmiðlum að hafa rétt til þess að útblása slíka hluti á þeim tímum þegar hv. þingmönnum gefst ekki tækifæri til þess að leiðrétta þá? Er það meining hæstv. forseta að þingmenn almennt geti ekki leiðrétt slíka hluti eða hæstv. ráðherrar ef þingflokksformenn hafa valið þann kost að koma þessu á framfæri á þeim tímamörkum sem útilokað var að biðja um umræður utan dagskrár vegna slíkra yfirlýsinga? Nú er það ekki mitt að sjá til þess að hæstv. ráðherrar sinni sínum skyldum og sitji þingfundi. ( Gripið fram í: Jú.) Það er miklu frekar verkefni hæstv. forseta en mitt að sjá til þess að ráðherrar sinni sínum þingskyldum og sitji þingfundi. Ég get ekki krafið þá um það, ekki í embættis valdi. En það geta sumir aðrir og ættu að gera.
    Nú stendur svo á, virðulegur forseti, að málum er þannig háttað að sjútvn. Ed. er boðuð á fund kl. hálfþrjú. Og ég hlýt að spyrja: Ætlast hæstv. forseti til þess að nefndarstörfin gangi fyrir eða þingstörfin? Ég óska úrskurðar um það. Það er ekki hægt að ætlast til þess að óbreyttum þingmönnum sé ætlað að vera á tveimur eða þremur stöðum á sama tíma til þess að sinna störfum hér á hv. Alþingi.
    Þetta er út af fyrir sig ekkert nýtt. Þetta hefur endurtekið sig ár eftir ár og nánast áratug eftir áratug að stjórnendur þingsins haga vinnubrögðum með þessum hætti. Og það er ekki við mig að sakast í þeim efnum. Ég beini því til hæstv. forseta hvort það er ekki í hans höndum að haga stjórnun þingsins þannig að hægt sé að sinna verkefnum með eðlilegum hætti. Það verður ekki gert með því sem hér er nú boðað. Ef hæstv. forseti vill láta nefndarstörfin ganga fyrir, þá þýðir ekkert að vera að tala um að hafa utandagskrárumræðu kl. 3 því að þá er sjútvn. Ed. á fundi til þess að ræða kvótamál. Menn geta ekki hliðrað sér hjá því að taka tillit til þess hvernig störf eiga að vinnast hér á Alþingi og ég ítreka því enn: Til þess er tími nú. Ef menn ætla þingnefnd að sinna þeim verkefnum sem henni er ætlað, þá er hér tími til þess að ræða utan dagskrár þessar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið út og ég vil fá tíma til þess að spyrjast fyrir um því að þær eru ekki gerðar með mínu samþykki og í engum tengslum við mínar

ákvarðanir að því er varðar afgreiðslu mála úr sjútvn. og umræðu hér á Alþingi, þ.e. í hv. Ed., um það mál sem kallað er kvótafrv. Þetta hygg ég að forseta hljóti að vera ljóst, að hann getur ekki kallað sömu einstaklingana til starfa á tvennum vígstöðvum á sama tíma. Þetta þarf að koma fram og ég hygg að forseta sé þetta ljóst og hann átti sig á því að undan þessu verður ekki vikist, að þessi umræða fari fram.