Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Félmn. hefur fjallað um tillöguna. Álit hennar er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem gerir ráð fyrir sérstöku átaki til að leysa mötuneytis- og húsnæðisvanda framhaldsskólanema sem stunda nám fjarri heimabyggð. Gerð verði áætlun um uppbyggingu á þessu sviði og tryggð fjárveiting til þess þegar á árinu 1990.
    Umsagnir bárust frá Bandalagi íslenskra sérskólanema, Bandalagi kennarafélaga, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, fræðslustjóra Reykjavíkur, fræðslustjóra Vesturlands, fræðslustjóra Suðurlands, nemendafélagi Menntaskólans á Ísafirði, nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Skólafélagi Menntaskólans á Akureyri (Hugin) og Skólameistarafélagi Íslands. Allir þessir aðilar taka jákvætt undir efni tillögunnar.
    Nefndin telur að með tillögunni sé tekið á brýnu hagsmunamáli framhaldsskólanemenda og aðstandenda þeirra og rétt sé að gerð verði áætlun sem miði að lausn þess. Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Að þessu áliti standa allir fulltrúar í félmn. Brtt. er þannig:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera áætlun sem miði að því að leysa mötuneytis- og húsnæðisvanda framhaldsskólanema sem stunda nám fjarri sinni heimabyggð og marka stefnu um framkvæmdir í þessu skyni.``