Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. sem sæti eiga í heilbr.- og trn. deildarinnar fyrir þeirra miklu vinnu í sambandi við þetta frv. Mér er kunnugt um að það hafa verið haldnir margir langir og strangir fundir, bæði fyrir áramótin og svo aftur nú í þessum önnum sem þingstörfin eru í svo að það er fyllilega ástæða til þess að þakka þeim fyrir þeirra ágætu störf.
    Ég veit ekki hvort það eru mörg frv. sem hafa fengið eins marga undirskriftalista með eins mörgum nöfnum og athugasemdum og þetta frv. fékk fyrir áramótin. Fannst mér reyndar sumt af því kannski meira unnið af kappi en forsjá, en hvað um það. Um málið hefur núna náðst samkomulag sem ég vil þakka nefndarmönnum enn fyrir og hvernig þeir hafa staðið að afgreiðslu málsins.
    Nefndinni bárust fjölmargar athugasemdir og umsagnir sem reynt hefur verið að taka tillit til að verulegu leyti. Það hafa verið gerðar breytingar á frv. sem taka mið af þeim umsögnum og sem ég fyrir mitt leyti a.m.k. get mjög vel sætt mig við. Auðvitað kann að vera að einhver áherslumunur sé og er alltaf þegar leitað er samkomulags. Einhverjir vildu kannski hafa hlutina örlítið öðruvísi, en ég tel að hér sé um mjög ásættanlegt frv. að ræða, eins og það væntanlega verður ef þær brtt. verða samþykktar sem nefndin hefur sameinast um að flytja.
    Það er e.t.v. ástæða til að ræða örlítið um það mál sem mér heyrist að hafi a.m.k. nú í seinni lotunni verið umræðuefni nefndarmanna, þ.e. starfsemi heimilislækna utan heilsugæslustöðva, svo og starfsemi annarra sérfræðinga í læknastétt sem reka eigin læknastofur. Ég vil fyrir mitt leyti láta það koma fram að ég er mjög ásáttur við brtt. í 3. lið á þskj. 1053. Í seinasta málsl. segir: ,,Þrátt fyrir skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi geta íbúar
borgarinnar jafnan valið sér heilsugæslulækni eða heimilislækni utan heilsugæslustöðva og leitað læknishjálpar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.``
    Ég er mjög ásáttur við þessa breytingu eins og hún hljóðar hér. Það var aldrei, hafi það ekki verið nægilega skýrt í upphaflegu frv., meiningin þó höfuðborginni væri skipt niður í heilsugæslumdæmi og niður á einstök starfssvæði heilsugæslustöðva að menn ættu ekki aðgang að hvaða heilsugæslustöð sem þeir kysu sér og gætu ekki áfram leitað til þeirra heimilislækna sem starfa utan heilsugæslustöðva. Í dag munu vera um 30 læknar sem þannig starfa hér í Reykjavík. Sumir þeirra eru með skráða samskiptaaðila kannski tvö þúsund. Ef þeir væru allir með tvö þúsund væri hér um að ræða tugi þúsunda borgarbúa. Það hlýtur því að vera langt í að sú starfsemi verði af lögð og ekki hafa verið uppi neinar hugmyndir um það að ganga í það með byltingarkenndum hætti.
    Ég vil hins vegar láta það koma fram sem mína skoðun að við eigum að halda áfram að byggja

markvisst upp heilsugæslustöðvarnar hér í Reykjavík. Um það held ég að sé enginn ágreiningur í sjálfu sér. Þar eru mörg og dýr verkefni fram undan því að ný hverfi rísa svo skjótt að það hefur ekki verið hægt að fylgja því eftir að byggja heilsugæslustöðvar í þessum hverfum. Nýjasta dæmið er auðvitað Grafarvogurinn en sama má segja um Breiðholtshverfin. Þó að þau geti nú varla lengur talist ný er enn eftir að reisa þar heilsugæslustöðvar þó svo að við höfum nýlega náð þeim ánægjulega og mikilvæga áfanga að opna þar nýja heilsugæslustöð.
    Ég hef hugsað mér að setja í gang vinnu við áætlunargerð þar sem fram komi hvernig staðið verður að því á næstu árum að reyna að fullnægja þessari þörf. Ég hef rætt það við suma heimilislækna sem starfa utan heilsugæslustöðvanna að það væri mín stefna og skoðun. Um það er í sjálfu sér enginn ágreiningur. Þá verður þessum læknum boðið að koma til starfa á þeim heilsugæslustöðvum ef þeir kjósa það. Það er ekki meiningin að stöðva á einn eða annan hátt þeirra starfsemi að öðru leyti. Eins og ég sagði áðan sé ég ekki fyrir mér að slíkt væri framkvæmanlegt af hálfu neins aðila með skjótum hætti hvernig svo sem hugur hans og vilji kann að vera í því efni. Er ég þá að hugleiða um það að þó að í ráðherrastól heilbrrn. settist maður með einhver önnur sjónarmið hvað þetta varðar eru ekki tök á því að gera neinar slíkar byltingarkenndar breytingar.
    Varðandi sérfræðingana sem hafa starfað utan stofnana er auðvitað líka ljóst að það eru ekki fyrirhugaðar neinar breytingar hvað varðar starfsemi eða starfssvið eða starfsvettvang þeirra.
    Hv. 6. þm. Reykv. nefndi hlutverk Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og vitnaði til ákvæðis til bráðabirgða þar sem segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stjórnin`` þ.e. væntanleg stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar ,,skal í umboði heilbr.- og trmrh. annast rekstur Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og í samráði við héraðslækni og stjórnir heilsugæsluumdæmanna í Reykjavíkurhéraði undirbúa að starfsemi stöðvarinnar leggist niður eigi síðar en 1. jan. 1992.``
    Hér er átt við það að við gerum breytingar á starfi Heilsuverndarstöðvarinnar eins og það er nú rekið. Auðvitað gerist það ekki öðruvísi en aðrar stofnanir í einhverri mynd taki við þeirri starfsemi sem þar er nú rekin, að heilsugæslustöð, annaðhvort í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar eða hugsanlega í væntanlegri heilsugæslustöð á horni Vesturgötu og Garðastrætis, taki við hlutverki heilsugæslustöðvarinnar sem þar er nú rekin. Annarri starfsemi sem þar er nú í gangi verður auðvitað að finna farveg. Þar rekur t.d. Reykjavíkurborg að hluta til langlegudeild. Þar er veitt ýmiss konar sérþjónusta sem ástæðulaust er að telja hér upp tímans vegna. En ég vil leyfa mér að fullyrða það og það er svar mitt til hv. þm. að það er ekki meiningin að leggja allt þetta starf sem þar er í gangi af og ekkert taki við heldur er hér fyrst og fremst verið að hugsa um það að lög um heilsuverndarstarf,

sem hér eru tilgreind, nr. 44 frá 1955, sbr. lög nr. 28/1957, falla úr gildi og við taka þessi lög um heilbrigðisþjónustu með þeim ákvæðum sem þau hafa að geyma.
    Ég man ekki hvort aðrar beinar spurningar voru til mín í ræðum hv. þm. ( GA: Endurskoðun á lögum.) Já, það var spurt um heildarendurskoðun á lögunum. Við höfum nú reyndar ekki verið með það í umræðu eins og er, þannig að þó það hafi flogið fyrir í nefndarstarfinu eða annars staðar þá hefur ekki verið rætt um það að taka slíkt starf upp, a.m.k. ekki nú í sumar. Hér hafa verið gerðar, ef þetta frv. verður að lögum, veigamiklar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu sem ég tel rétt og reyndar nauðsynlegt að fái nokkuð að sýna sig og sanna, sérstaklega hvað varðar ýmsa skipulagshætti. Eru þær afleiðingar af verkaskiptalögunum sem samþykkt voru á seinasta þingi og margsinnis hefur komið fram í umræðum um þetta frv. Ég hef því ekki verið með það í huga að setja nú þegar eða fljótlega í gang heildarendurskoðunarstarf, en vafalaust er ástæða til þess að skoða það og fylgjast vel með því hvenær það væri tímabært. Mér finnst þó rétt að láta eitthvað af þeim veigamiklu breytingum sem nú er verið að takast á við koma til framkvæmda og láta það koma í ljós hvernig þær reynast.
    Varðandi þann ágreining sem einkum fyrir áramótin var uppi varðandi stjórnunarform einstakra heilbrigðisstofnana þá var sá ágreiningur kannski fyrst og fremst við borgaryfirvöld vegna Borgarspítalans. Með frv. eins og það liggur hér fyrir og viðræðum sem ég hef átt við borgarstjóra og fulltrúa úr borgarstjórn Reykjavíkur tel ég að náðst hafi samkomulag um að leggja þau deilumál til hliðar um sinn og leita eftir samkomulagi um það hvernig þeim málum skuli skipað í framtíðinni. Deilurnar risu einkum vegna þess að Reykjavíkurborg hefur sjálf kostað að öllu leyti sumt af því húsnæði sem Borgarspítalinn rekur nú starfsemi sína í. Fallist var á það sjónarmið að ekki væri eðlilegt að gera breytingar á stjórnun Borgarspítalans meðan svo háttaði. Ef hins vegar næst samkomulag og ríki og borg ná saman um kostnaðarskiptingu hvað varðar þetta húsnæði er líka samkomulag um það, álít ég, milli mín og borgarstjóra að þessi mál komi þá aftur til skoðunar.
    Ég vænti þess, hæstv. forseti, að frv. fái hér skjótan framgang og veit reyndar að héðan af muni það gera það í þessari hv. deild en vænti þess að það muni gera það í þinginu. Því ég álít afar mikilvægt og brýnt að fá frv. endanlega samþykkt og lögfest, þannig að við getum unnið að verkefninu í samræmi við ákvæði verkaskiptalaganna milli ríkis og sveitarfélaga. Meginhlutinn af þeim brtt. sem hér voru lagðar fram í upphafi voru til komnar vegna þeirra laga, en síðan hefur ýmsum öðrum þáttum verið bætt hér inn sem tvímælalaust mega verða til bóta.