Öryggi á vinnustöðum
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir með flutningsmönnum og nefndinni að sjálfsagt er að skilgreina betur hvað eru börn og unglingar og vera nokkuð með það á hreinu. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara fyrst og fremst vegna þess að ég skal viðurkenna að ég hef ekki alveg sannfæringu fyrir því sem kemur fram í frv., þ.e. breytingunni á hvað er barn, að það skuli vera yngra en 16 ára, sem við höfum fram að þessu túlkað allt að 14 ára, og ungmenni sem hafa verið tilgreind áður hjá okkur 14 og 15 ára eru núna raunverulega orðin 16--18 ára. Þessi breyting þýðir það í raun að ungmenni, 16--18 ára samkvæmt lögum sem við erum hér að breyta, sem eru lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, mega ekki vinna lengur en 10 klukkustundir á dag. Við sem vorum alin upp í sveit í gamla daga að hluta til og tókum þátt í vinnu á vinnumarkaðinum um sumartímann kvörtuðum mest yfir því að fá minna kaup 15 ára en 16 ára og fá ekki fulla vinnu eins og aðrir. Ef fara á að takmarka unglinga núna við 16--18 ára aldur, að þeir teljist ekki vera orðnir fullfrískir menn að taka þátt í vinnumarkaðinum, þá held ég að það sé nokkuð langt gengið.
    Ég bendi líka á að í grg. með frv. segir að verið sé að samræma þetta barnaverndarlögunum og vitnað þar m.a. í 43. gr. og reyndar 41. gr. líka. 43. gr. fjallar fyrst og fremst um eftirlit barnaverndarnefnda á skemmtunum og kvikmyndasýningum og öðru þess háttar svo að ég sé ekki alveg samhengið þar á milli. Í 41. gr., sem er nú reyndar orðin þörf á að endurskoða og ættu a.m.k. þeir sem berjast mest fyrir jafnrétti að reyna að fá leiðréttingu á þeirri grein, eru því gerð mjög góð skil hvað karlar og konur mega gera, eða drengir og stúlkur.
    Ég treysti mér ekki til að standa að samþykkt þessa frv., tel að þó að meiningin sé góð, þá sé gengið þarna fulllangt með því að telja ungmenni allt að 18 ára aldri og mæli ekki með samþykkt frv.