Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson :
    Herra forseti. Mér skilst að hér eigi nú að hefjast umræða um frv. um yfirstjórn umhverfismála. Ég reikna með að þessi umræða eigi að byrja á því að hæstv. forsrh. tali fyrir tillögum sem hann hefur lagt fram í því máli. Ég verð að viðurkenna það að á undanförnum mánuðum hef ég ekki saknað hæstv. umhverfisráðherra þegar við höfum verið að ræða þennan málaflokk. En ég geri það núna og mér finnst satt að segja alveg ótækt að hæstv. umhverfisráðherra sé ekki í salnum þegar hæstv. forsrh. fer að tala fyrir sínum tillögum. Það má kannski ætla að hæstv. umhverfisráðherra sé kunnugur þessum tillögum en alla vega vildi ég, áður en ég tala efnislega um þær, heyra viðbrögð hæstv. umhverfisráðherra við tillögum hæstv. forsrh. Þess vegna spyr ég hæstv. forseta hvort hæstv. umhverfisráðherra sé í húsinu, og ef ekki hvort tími sé til að sækja hann. Ef ekki þá sé ég ekki hvernig ætti að taka til við þessa umræðu einmitt nú.