Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég hef nú verið fjarverandi nokkra stund úr deildinni og veit ekki hvað hefur verið ákveðið um framgang mála. Ég spyr forseta hvort ekki standi allt til þess að klára þessi tvö mál hér í deildinni. ( Forseti: Það er meiningin.) Það er meiningin.
    Mér er sagt að hér hafi verið haldin mjög ítarleg framsöguræða af formanni sjútvn. Því miður gat ég ekki fylgst með henni og hef heldur ekki útbúið neitt nál. um þetta sérstaka mál sem hér er til umfjöllunar, Úreldingarsjóðinn. ( Gripið fram í: Það er frávísunartillaga um málið.) Já, það er frávísunartillaga.
    Ég lýsi yfir andstöðu minni við þetta mál. Ég tel að nafnbreytingin hefði nú ekki átt að verða á þann veg sem lagt er til. Það hefði mátt láta þetta halda áfram að heita Úreldingarsjóð en ekki Úreldingarsjóð fiskiskipa heldur Úreldingarsjóð byggða á Íslandi. Vegna þess að vitaskuld er það það sem verið er að leggja til og ekki síst eftir breytingarnar. Það er verið að gera ákveðna hluti til þess að veikja undirstöðu byggðanna. Og það tengist náttúrlega þeirri sjávarútvegsstefnu og þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í kvöld. Þessu máli á að vísa frá. Það færir okkur ekki annað en erfiðleika eða eykur þá erfiðleika sem við búum þegar við í sambandi við stærð fiskiskipaflotans og stöðu landsbyggðarinnar.