Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Friðrik Sophusson :
    Herra forseti. Aðeins vegna orða hv. síðasta ræðumanns vil ég taka það fram að ég hef ekki flutt neina ræðu í þessu máli, við 2. umr. málsins, hafði reyndar hugsað mér það ef áfram yrði haldið. Mér sýnist, ef farið verður að ráðum hæstv. forseta Sþ. og haldið hér áfram, að þá verði auðvitað að gefa mönnum kost á því að ræða þetta mál eðlilega. Það hefur sá ekki gert sem hér stendur, en nú stendur svo á að ég þarf að vera á fundi kl. 8 í fyrramálið í hv. iðnn. Síðan skilst mér að ætlunin sé að halda fundi hér kl. 10 eða um það bil í deildum. Þá er boðaður fundur, langþráður fundur, í hv. fjh.- og viðskn. kl. 1. Um kvöldið á að vera útvarpsumræða ef ég hef heyrt rétt og tekið rétt eftir og ég býst við því að hæstv. forseti Sþ. þurfi jafnvel á þingmönnum að halda föstudagskvöldið og fram eftir nóttu þannig að ef hún vill eiga með okkur eina nótt og þráir það mjög mikið, þá býst ég við að hún fái að njóta þess t.d. milli föstudags og laugardags. Í trausti þess að við sem þurfum svona a.m.k. nokkurra tíma svefn fáum að sofa til kl. 7 í fyrramálið, fjóra tíma eða svo, vonast ég til þess að hæstv. forseti skilji það að þessi þingskapaumræða er ekki tilkomin vegna þess að menn vilji ekki afgreiða einhver mál, heldur vegna þess að orðið hefur samkomulag um að stefna að þingslitum á laugardaginn og það væri ekki góður siður að leyfa mönnum ekki að sofa andartak og ætti kannski að minna hæstv. forseta á það að hann hefur úr forsetastóli áminnt menn vegna þess að hann telji þá vera of syfjaða til þess að sinna þingstörfum. Þetta kom frá hæstv. forseta Sþ. um daginn í umræðu þar sem hæstv. forseti var að kvarta undan því að menn töluðu með þeim hætti að ætla mætti að þeir hefðu ekki fengið svefn á undanförnum nóttum. (Gripið fram í.) Það á ekki við ræðumann, það er alveg rétt, en það gæti átt við hæstv. forseta sem mér sýnist vera orðin ansi syfjuð núna hér í kvöld og held ég nú að það væri rétt að bíða til föstudagskvölds. Við munum verða hér undir hennar stjórn á morgun fram yfir miðnætti og ég veit að hún mun áreiðanlega njóta þess vel og ég er viss um að hún lítur miklu betur út í sjónvarpi ef hún fær sæmilegan svefn í nótt þó að það séu ekki nema 3--4 tímar, en föstudagskvöldið verður hennar og þá skulum við vaka með henni eins lengi og henni sýnist.