Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa sagt að það kunni að vera eðlilegt að heimila þeim hv. stjórnarliðum sem vilja taka þátt í þeim umræðum sem hér eiga að fara fram að flytja sínar ræður núna þegar klukkan er farin að ganga þrjú að nóttu. Meira að segja hefur verið sagt hér að vilji hæstv. ráðherra segja nokkur orð um sín sjónarmið, sérstaklega í ljósi nýrra tillagna sem komið hafa fram í þessu máli, þá sé það auðvitað sjálfsagt.
    Það vill svo til að það er fundur í Ed. eins og sakir standa. Mér er ekki kunnugt um það að þar sé nefndarfundur kl. 8 í fyrramálið en ég veit að þar eru fundir haldnir til þess að hv. Nd. geti fengið mál til umræðu á morgun, sem mun vera stjórn fiskveiða. Mér hefur skilist á hæstv. forsrh., og reyndar öðrum ráðherrum, að þeir vilji gjarnan fá það mál afgreitt á þessu þingi, jafnvel þótt slík lög eigi ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári. Við höfum orðið við þeirri beiðni. Í trausti þess að hæstv. forsrh. meini eitthvað með þeim orðum sem hann hefur látið falla um þau efni hefur þess verið freistað að halda fundi þar áfram og koma því máli út úr þinginu í síðasta lagi nk. laugardag til þess að þá geti þinglausnir átt sér stað.
    Ef það er hins vegar alvara hjá hæstv. forseta að fylgja hér mælendaskrá og hefja efnisumræðu um það mál sem hann hyggst taka fyrir í meira en örfáar mínútur, tíu mínútur eða svo, þá mun ég að sjálfsögðu krefjast þess að afboðaður verði fundur í fyrramálið sem á að verða kl. 8. Ég sé ekki betur en að þá verði hæstv. forseti að breyta fyrirhugaðri dagskrá morgundagsins, hverfa frá fundi sem átti að verða kl. 10. Og að sjálfsögðu verða þá engar útvarpsumræður annað kvöld, það er ekki hægt því, eins og hæstv. forseti sagði sjálfur, þá er sáttagrundvöllur brostinn í þessum málum öllum.
    Ég bið þess vegna hæstv. forseta um að kanna hvort ekki sé eðlilegt að hann ásamt tveimur mönnum sem bera ábyrgð á störfum þingsins taki sér smáhlé --- við skulum bíða í nokkrar mínútur --- og ræði hvaða lendingu þeir vilji hafa í þessu máli. Þeim hafa verið boðnir nokkrir kostir sem ég tel ástæðu til að þeir ræði og ég vil fyrir mitt leyti lýsa því yfir að ég er tilbúinn til þess að bíða hér í nokkrar mínútur meðan þeir ræðast við ef fundi verður frestað á meðan.