Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Frsm. menntmn. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti menntmn. varðandi frv. til laga um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Stefán Stefánsson í menntmrn.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 1037 eftir afgreiðslu efri deildar.
    Ragnar Arnalds var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir nál. rita aðrir menntamálanefndarmenn, Birgir Ísl. Gunnarsson, Árni Gunnarsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Sólveig Pétursdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Rétt er að geta þess að við meðferð málsins í nefndinni urðu nokkrar umræður um framtíðarskipan og lagasetningu fyrir Rannsóknadeild fisksjúkdóma. Nefndin fjallaði nokkuð um þann kafla sem fram kemur í athugasemdum við frv. og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin``, þ.e. sú nefnd sem frv. samdi, ,,ákvað eftir vandlega íhugun að leggja ekki til breytingar á lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma að sinni, en telur afdráttarlaust að málefni er varða rannsóknir fisksjúkdóma eigi að falla undir lög og reglugerð um Tilraunastöðina. Rannsóknir á fisksjúkdómum eins og öðrum dýrasjúkdómum samræmast fyllilega hlutverki stofnunarinnar eins og það er skilgreint í 2. gr. frv. Að öðru leyti ættu málefni fisksjúkdóma eins og um þau er fjallað í núgildandi lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma að heyra undir sérstök lög um fiskeldi, fisksjúkdóma og varnir gegn þeim, sem brýna nauðsyn ber til að setja hið fyrsta. Nefndin lítur svo á að núgildandi lög um Rannsóknadeild fisksjúkdóma samræmist ekki þessu frv. og skuli einungis gilda til bráðabirgða eða þar til sérstök lög um fiskeldi, fisksjúkdóma og varnir gegn þeim hafa verið sett.``
    Mér þykir rétt í ljósi umræðna í nefndinni að árétta það að menntmn. Nd. var þeirrar skoðunar að einmitt þetta atriði, þ.e. að núgildandi lög um Rannsóknadeild fisksjúkdóma samræmist ekki þessu frv. og skuli einungis gilda til bráðabirgða, þurfi að koma hér skýrt fram. Í því sambandi hygg ég að sé ástæða til að hvetja hæstv. menntmrh. til að vinna að því helst í sumar að áframhald verði á þessu lagastarfi, nefnd verði sett til að ljúka þessu starfi og vinna þann þátt sem þarna er óunninn. Nokkrar umræður urðu jafnframt um málefni Tilraunastöðvarinnar að Keldum og það hlutskipti að málefni hennar falla að talsverðu leyti undir tvö ráðuneyti, en ekki tel ég efni til að ræða það frekar hér.