Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna þessarar fyrirspurnar vill forseti geta þess að vegna anna hefur ekki unnist tími til að prenta og dreifa því þingskjali sem hefði réttilega átt að vera hér á borðum hv. þm. þegar þessi umræða hófst í morgun. Forseti vill hins vegar benda á að það eru fjölmörg fordæmi þess að mál hafi verið rædd án þess að þingskjöl hafi legið fyrir. Þetta verður ekki löng umræða. Ég hef fengið upplýsingar um að þetta þingskjal komi innan skamms og vænti þess að hv. þingdeildarmenn sýni nokkra þolinmæði í þessu máli. Þessi umræða verður ekki mjög löng, enda um það samið vegna eldhúsdagsumræðna sem hefjast hér í kvöld klukkan hálfníu að þessi fundur dragist ekki mikið fram yfir klukkan hálftvö.