Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Stjórnmálamenn, flokkar og ríkisstjórnir leggja verk sín fyrir dóm kjósenda, ykkar sem fylgist með þessum umræðum. Hér fer fram eins konar munnlegur málflutningur fyrir rétti og ykkar er að kveða upp dóminn. Að sjálfsögðu látið þið menn njóta verka sinna en hlífist ekki við að dæma hart um það sem miður fer. Við skulum samt hafa í huga að ríkisstjórnir ráða ekki öllu og eru háðar ytri skilyrðum. Sumar starfa í meðlæti, sumar í mótlæti.
    Nú skulum við bera saman tvær ríkisstjórnir. Önnur starfaði í meðlæti í góðærinu mikla 1985--1987. Hún fékk upp í hendurnar 50 þús. millj. kr. í aukinni þjóðarframleiðslu, þ.e. um 830 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Hin ríkisstjórnin, sú sem nú starfar, starfaði á samdráttarskeiði og varð að stjórna við þau skilyrði að þjóðarframleiðslan rýrnaði 1988, 1989 og það sem sýnt er fram á þetta ár, um um það bil 25 milljarða kr. Eða hafði minna milli handanna sem svarar 415 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Nú skulum við leiða fram vitni. Það vill svo til að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu er búin að kveða upp dóm um hina fyrri ríkisstjórnina sem starfaði í meðlæti. Nú vitna ég í sjálft Morgunblaðið. Dómurinn hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á því leikur enginn vafi að ekki var rétt staðið að hagstjórn á uppgangstímabilinu 1985--1987. Sérstaklega má benda á að þjóðhagslegur sparnaður dróst saman og erlendar skuldir fóru vaxandi við mjög hagstæðar ytri aðstæður. Viðvarandi halli var á ríkisbúskapnum og það var meginástæðan.`` Þetta segir m.a. í skýrslunni.
    Virðulegu dómarar. Þannig var stjórnað í góðæri. Þeim tókst ekki að stjórna í góðæri. Formaður Sjálfstfl. var fjmrh. á þessum tíma. Þeir runnu af hólmi þegar harðnaði á dalnum og hafa síðan aðallega stundað málþóf, teygt lopann hér í þingsölum um þingsköp en gripið í blaðamennsku við Morgunblaðið í
tómstundum.
    Virðulegi forseti. Önnur ríkisstjórn sem starfaði í mótlæti hafði orðið að sjá á eftir 25 þús. milljörðunum. Hvernig hefur henni tekist til? Lítum á nokkrar staðreyndir.
    Verðbólgan. Hún var 30--35% á sl. hausti. Hún er nú komin niður í eins stafs tölu. Seðlabankinn, páfinn sjálfur, spáir um 7% verðbólgu á þessu ári. Verðbólguhraðinn á tveggja mánaða tímabili er núna 6%. Matvælaverð hefur á þremur mánuðum hækkað um 0,8% sem samsvarar 3,4% verðbólgu. Allar ríkisstjórnir hafa allan lýðveldistímann sagt: Við stefnum að því að ná verðbólgunni niður á sama stig og í helstu viðskiptalöndum. Það hefur engri tekist fyrr en þessari. Er þetta eitthvert blöff? Nei, kjarasamningarnir standa fram í september á næsta ári, 1991. Það er jafnvægi á vinnumarkaði og í peningamálum. Þetta eru raunhæfar horfur.
    Vextir. Um hvað hefur verið meira talað í þessu

þjóðfélagi á undanförnum erfiðleikaárum en vexti? Þeir voru 32% á óverðtryggðum skuldabréfum í nóvember. Þeir eru núna 14%. Ég er hérna með í höndunum blað frá verðbréfamarkaði sjálfs Íslandsbanka. Tilvitnun, með leyfi forseta: ,,Vextir í Bretlandi eru 16%. Enginn vafi leikur á því að eftir síðustu lækkanir eru raunvextir á Íslandi að verða með því lægsta sem gerist í nærliggjandi löndum.`` En er þetta nú ekki bara blöff, er þetta ekki allt á kostnað launþega? Tökum dæmi. Hverjir hafa átt erfiðast á undanförnum árum? Eru það ekki þeir sem skulda? Tökum dæmi af fjölskyldu sem skuldar, þó ekki sé nema 500 þús. kr. Hún hefði borgað á þessu ári 110.000 kr. ef hún hefði búið við sama verðbólgu- og vaxtastig og á fyrra ári. Í ár borgar hún, ef þessi verðbólga helst, 53 þús. Hún hefur fengið í vasann 57 þús. kr., svona mánaðarlaun láglaunafjölskyldu. Ef hún hefði átt að ná þessum árangri í gegnum kauphækkun þá hefði kauphækkun orðið að vera þreföld á við það sem hún var. Þá hefði líka siglt í kjölfarið meiri verðbólga og hærri vextir og hún hefði verið verr sett en áður.
    Lækkun vaxta var þess vegna besta kjarabótin fyrir fjölskyldurnar og heimilin. Um afkomu fyrirtækjanna er það að segja að hún hefur skilað inn tugum milljóna hjá venjulegu meðalfyrirtæki, í bata. Þar er inneign upp á kjarabætur framtíðarinnar. Skuldsett fyrirtæki, hvað gat komið þeim betur en lækkun fjármagnskostnaðar? Enda sjáum við það í afkomu sjávarútvegsins, en við það höfum við verið að stríða í tvö og hálft ár að koma honum á kjöl.
    Spáð var atvinnuleysi þúsunda manna. Tekist hefur að koma í veg fyrir það. Nýtt átak við stórvirkjanir og stóriðju mun skapa 2500 ný störf. Við Íslendingar þurfum ekki að hafa áhyggjur af atvinnuleysi á næstunni.
    Viðskiptajöfnuðurinn. Hann er búinn að vera hagstæður allt árið 1989, hann var hagstæður upp á 7,5 milljarða og er mun lægra hlutfall af vergri framleiðslu, hallinn sem eingöngu er vaxtagreiðslur vegna erlendra lána tekinna m.a. í góðærinu áður. Meira að segja sparnaður hefur aukist, og nú vitna ég í sjálfan seðlabankastjóra. Hlutfall af landsframleiðslu í sparnaði hefur aukist allverulega á þessum tíma.
    Er þá allt eins og best verður á kosið í þessu fyrirmyndarríki? Nei, en enginn getur neitað þessum staðreyndum um þann árangur sem náðst hefur. Það má nefna ríkisfjármál. Það er halli í ríkisbúskapnum. Hann er búinn að vera innbyggður í mörg ár. Þegar samdrátturinn kemur eru útgjöldin bundin vegna þess að Alþingi hefur lögbundið með sjálfvirkum hætti útgjaldastig ríkissjóðs þannig að tímabundið myndast þar halli. Engu að síður hafa orðið verulegar framfarir. Lánsfjárþörf ríkissjóðs er mun lægra hlutfall af landsframleiðslu en var og hallinn er fjármagnaður á innlendum vettvangi, sem skiptir sköpum um efnahagsáhrifin.
    Með öðrum orðum, niðurstaðan. Við erum hér í munnlegu réttarhaldi. Hver er dómurinn? Þrátt fyrir erfiðleikana hefur sú ríkisstjórn sem innan árs mun

skila af sér skilað ótvírætt miklu betra búi en ríkisstjórn sem naut meðlætis og fékk allt upp í hendurnar. Þetta er ekki venjuleg, vitlaus vinstristjórn, góðir hálsar. Þeir segja að hún sé óvinsæl. Já, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þeir segja að hún sé sundurlynd. Já, þetta eru ólíkir flokkar með ólíka stefnu. En sundurlynd ríkisstjórn hefur náð þessu. Sjálfstfl., hvað er hann aftur? Er hann ekki eins konar fjölflokkabandalag?
    Virðulegi forseti. Flokkar, eins og stjórnmálamenn, leggja verk sín fyrir dóm. Hver hefur verið hlutur Alþfl. í stjórnarsamstarfi í þrjú ár? Ég nefni ykkur nokkur mál. Skattkerfisbyltinguna 1987--1988. Hinar róttæku breytingar í húsnæðismálum. Endurskipulagningu á fjármagnsmarkaði og í bankakerfi, breytingar á atvinnustefnu, stefnumótun og forustu um stefnumótun í Evrópumálunum.
    Tökum dæmi af skattkerfisbreytingunni. Hvað voru margir búnir að tala um það lengi að koma á staðgreiðslukerfi skatta? Hvað var búið að tala um og gera margar atrennur að því að koma á tollabyltingunni til þess að laga okkur að samstarfi við Evrópuþjóðirnar? Hve oft var búið að hafa uppi stór orð um að reyna að loka skattsvikaleiðum með því að fækka undanþágum í söluskatti? Hversu margir fjármálaráðherrar höfðu stefnt að því að koma á virðisaukaskatti? Munurinn er bara þessi: Það var talað um það í áratugi, en við komum því í verk. Og hver er dómur OECD-skýrslunnar um það? Þeir segja m.a.: ,,Þær endurbætur sem gerðar voru á skattakerfinu auka líkur á tekjuafgangi í ríkisbúskapnum þegar og ef hagvöxtur glæðist á ný og áhrif upptöku virðisaukaskatts eru í sömu átt.`` Með öðrum orðum, það er verið að búa í haginn fyrir framtíðina. Þetta er dómurinn nú en hann var harður í munni margra þegar við vorum að keyra þetta í gegn.
    Húsnæðismál. Hvernig voru þau mál? Biðlisti upp á 10 þús. manns. Við boðuðum nýja valkosti í húsnæðismálum. Kaupleiguíbúðirnar hafa verið lögfestar. Húsbréfakerfi hefur verið komið á og hentar þeim sem þurfa að skipta um íbúð og framlög til félagslegra íbúðarbygginga eru stóraukin. Það er gerbreyting.
    Hvað er búið að tala lengi um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga? Allan lýðveldistímann. Loksins var því komið í gegn.
    Fjármagnsmarkaðurinn. Við upplifðum hættulega tilraun með frjálsa vexti á miklu þensluskeiði og án þess að þeirrar fyrirhyggju væri gætt að setja lagaramma utan um verðbréfamarkaðinn. Það hefur verið hlutverk Jóns Sigurðssonar að setja þennan lagaramma. Það hefur verið hlutverk Jóns Sigurðssonar, eftir 20 ára umræður um sameiningu banka, að gera það á tíu mánuðum. Vaxtalækkunin sem ég var að lýsa áðan, besta kjarabótin, undir hvers forustu hefur hún verið gerð?
    Atvinnustefnan. Eftir margra áratuga hlé að því er varðar nýjar virkjanir og stóriðjuframkvæmdir þá eru þær í góðu horfi og munu mala okkur gull, skapa atvinnu og 200 þús. tonna álverksmiðja mun skila

okkur sama hlutfalli í erlendum gjaldeyri inn í þjóðarbúið og 200 þús. tonna aukinn þorskafli.
    Með öðrum orðum, við erum hér að fjalla um stórmál. Hver verða stærstu mál framtíðarinnar til enda kjörtímabils og á næsta kjörtímabili? Ég nefni ykkur þrjú. Evrópumálin, virkjana- og stóriðjumálin, kerfisbreytingar í atvinnumálum, ekki hvað síst að því er varðar undirstöðuatvinnuvegina, landbúnað og sjávarútveg. Og hvernig eigum við að nýta góðærið sem nú er að byrja? Við eigum að gera það að mínu mati með þrennum hætti.
    1. Til þess að greiða skuldir þjóðarbús og fyrirtækja að hluta.
    2. Til þess að stuðla að aukinni tekjujöfnun í þessu þjóðfélagi.
    3. Til þess að hafa hemil á þeim einokunaröflum fjármagnsins sem í vaxandi mæli eru að treysta völd sín í þessu þjóðfélagi.
    Það vill svo til að öll þessi mál sem ég nefndi, öll þessi stóru mál eru mál sem Alþfl. hefur haft forustu um í þessu stjórnarsamstarfi og þau eru mál þar sem Alþfl. hefur mótað stefnu og er heilsteyptur í afstöðu sinni.
    Virðulegi forseti. Það er breytt heimsmynd. Við höfum séð nánast eins og í beinni útsendingu í sjónvarpi hvernig heimsveldi kommúnismans hefur hrunið eins og spilaborg. Við höfum upplifað siðferðislegt gjaldþrot þessarar hugmyndafræði og upplausn sovéska nýlenduvaldsins. Við upplifum líka stórkostlegar breytingar í vestanverðri álfunni. Við eygjum von um nýja sameinaða Evrópu. Lærisveinar Stalíns, sem stunduðu hér sovéttrúboð og
sundruðu kröftum verkalýðshreyfingar og jafnaðarmanna lengi, hafa nú komist á leiðarenda. Þeir munu væntanlega ástunda sína innhverfu íhugun og sjálfsgagnrýni. En þeir aðrir sem telja sig hafa eitthvað jákvætt fram að færa munu leggja fram krafta sína með okkur hinum lýðræðisjafnaðarmönnum á nýjum vettvangi og eru byrjaðir að stíga fyrstu skrefin í þá átt þegar við þessar kosningar. Þannig munum við snúa tafli sögunnar við.
    Góðir jafnaðarmenn. Við höfum unnið gott verk í ríkisstjórn í góðæri og í mótlæti. Við eigum mörg verk að vinna og eins og venjulega munum við sigla okkar fleyi heilu í höfn enda, eins og ég hef sagt stundum áður, vanir menn um borð.