Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Hér í þessari virðulegu stofnun er okkur alþingismönnum treyst fyrir fjöreggi þjóðarinnar. Ákvarðanir okkar skipta sköpum um atvinnuöryggi fólksins, velferð einstaklinga og heimila og kannski umfram allt hvernig við búum í haginn fyrir börnin okkar og skilum landinu af okkur til komandi kynslóða. Það er ástæða til að spyrja hvort störf þingsins, áherslur og forgangur mála endurspegli þann veruleika sem víða sér stað úti í þjóðfélaginu. Veruleikann í aðstæðum útivinnandi foreldra og barna þeirra, veruleikann í lífi láglaunafólks og einstæðra foreldra sem berjast við að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags. Veruleikann í kjörum og aðstæðum fatlaðra, veruleikann í afkomu og húsnæðismálum aldraðra, veruleikann í þrotlausri og oft vonlausri baráttu unga fólksins bestu ár ævinnar við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nei, veruleikinn úti í þjóðfélaginu og aðstæður fólksins eru ótrúlega oft órafjarri Alþingi. Engu að síður verður varla annað sagt en að þessari ríkisstjórn hafi tekist að koma fram margvíslegum umbótamálum til að tryggja afkomu fólksins og treysta það velferðarkerfi sem við viljum búa þessari þjóð.
    Með húsbréfakerfinu, kaupleiguíbúðum og nýjum lögum um félagslegar íbúðir verður lagður grunnur að framtíðarlausn í húsnæðismálum Íslendinga. Með húsbréfakerfinu hagnast jafnt íbúðarseljendur sem íbúðarkaupendur. Íbúðarseljendur fá greiðslur fyrir hinar seldu íbúðir mun fyrr en áður og íbúðarkaupendur þurfa ekki að bíða í biðröðum eftir því að geta fest kaup á íbúð. Biðtíminn í biðraðakerfinu sem tók gildi 1986 hefur verið um tvö til þrjú ár en er um tvær til þrjár vikur í húsbréfakerfinu. Í húsbréfakerfinu á fólk möguleika á hærri lánum en í biðraðakerfinu sem gerir það að verkum að fólk þarf ekki á eins miklum skammtímalánum að halda í bönkum. Greiðslubyrði í húsbréfakerfinu er líka um 15% lægri en í biðraðakerfinu fyrstu fimm árin
miðað við kaup á 6 millj. kr. íbúð. Sú krafa hefur verið sett fram að veita meira fjármagni inn í biðraðakerfið til að stytta biðtímann eftir lánum. Lítum á til hvers það leiðir. Til að eyða biðröðinni eftir lánum úr biðraðakerfinu þannig að biðtími eftir lánum verði svipaður og í húsbréfakerfinu þarf 21 milljarð kr. Sýnir okkur nokkuð betur að þetta kerfi gengur ekki upp? Fólk fer einfaldlega í biðröðina til að eiga víst mikið niðurgreitt lán ef það þyrfti kannski einhvern tímann, eftir 3, 4 eða 5 ár að skipta um íbúð eða kannski stækka einbýlishúsið. Síðan hittir biðraðakerfið þá fyrir sem síst skyldi, þá sem eru í brýnni neyð að fá lán til íbúðarkaupa. Húsbréfakerfið er aftur á móti lausn til frambúðar. Með húsbréfakerfinu og vaxtabótakerfinu er aðstoð hins opinbera beint til þeirra sem þurfa á henni að halda. Þannig og aðeins þannig verður unnt að leysa þann vanda sem verið hefur á almenna húsnæðismarkaðnum.

    Með lögunum um kaupleiguíbúðir opnuðust nýir möguleikar fyrir sveitarfélögin og fjölbreyttir valkostir fyrir fólk í húsnæðismálum. Að mati Byggðastofnunar eru kaupleiguíbúðir sá valkostur í húsnæðismálum sem hentar landsbyggðinni best. Val fólksins stendur þar líka um þrjá kosti. Leigu, eða kaup á íbúð eða að kaupa hlutareign, þ.e. 15--30% í íbúðinni. Með hlutareign í kaupleiguíbúðum var t.d. Búseta tryggður lagagrundvöllur. Þessi kostur hentar einnig mjög vel í húsnæðismálum aldraðra og fatlaðra. Í húsnæðismálum aldraðra hefur líka verið stofnaður nýr lánaflokkur til að auðvelda fólki kaup á þjónustuíbúðum aldraðra en frá stofnun hans 1988 hafa verið veitt lán til 375 þjónustuíbúða aldraðra. Á vegum félmrn. er nú einnig í undirbúningi fimm ára framkvæmdaráætlun um uppbyggingu í húsnæðismálum aldraðra. Sérstakt átak er einnig fram undan í húsnæðismálum fatlaðra, bæði varðandi félagslegar íbúðir og sambýli fyrir fatlaða auk framkvæmdaráætlunar um þjónustu og uppbyggingu framkvæmda í þágu fatlaðra á næstu árum. Stóraukin áhersla hefur verið lögð á félagslegar íbúðarbyggingar og aldrei verið veitt til þeirra eins miklu fjármagni og á síðustu þremur árum. Sl. þrjú ár hefur verið leyst úr húsnæðisþörf á þriðja þúsund fjölskyldna með félagslegum íbúðum og kaupleiguíbúðum en einungis um 1700 fjölskyldna á öllu tímabilinu 1980--1987, eða á átta árum.
    Leiguíbúðir sveitarfélaga eru nú að verða valkostur fyrir fólk. Á yfirstandandi ári hafa verið veitt lán til 142 leiguíbúða en á átta ára tímabili þar á undan voru einungis veitt lán til 99 leiguíbúða á landinu öllu. Í frv. um félagslega hluta íbúðakerfisins sem nú liggur fyrir Alþingi er stefnt að því að stórauka möguleika fólks á félagslegum íbúðum og leiguhúsnæði og auka aðstoð hins opinbera við leigjendur. Þær áherslur sem nú hafa verið lagðar í húsnæðismálum skapa því nýja valkosti fyrir fólkið. Þær vísa veginn út úr íbúðaþrældómi unga fólksins, út úr upplausnarástandi fjölskyldna vegna húsnæðismála, út úr ofurklyfjum þungrar greiðslubyrði sem sligað hafa þúsundir fjölskyldna í þessu landi.
    Á vettvangi sveitarstjórnarmála hafa einnig náðst stórir áfangar sem skipta máli fyrir velferð fólksins. Í höfn er eitt helsta baráttumál sveitarfélaganna
sl. tvo áratugi. Um er að ræða breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem marka algjör þáttaskil í málefnum sveitarfélaga og gefa sveitarfélögunum aftur betra svigrúm til að auka þjónustu við íbúa sína. Lög um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt voru á síðasta þingi eru einnig mjög mikilvægur áfangi fyrir sveitarfélögin. Með þessum lögum eru stóraukin framlög til jöfnunar milli sveitarfélaga. Á sl. ári var einungis varið til þess innan við hundrað milljónum króna. Á þessu ári verður aftur á móti varið til jöfnunar milli sveitarfélaga rúmum einum milljarði króna. Á þeim stutta tíma sem Alþfl. hefur haft forræði sveitarstjórnarmála hafa því náðst stórir áfangar sem íbúar sveitarfélaganna munu lengi búa að.

    Í kjölfar úttektar sem félmrn. gerði á fjárhagsstöðu verst stöddu sveitarfélaganna er nú unnið að margvíslegum tillögum til úrbóta. Þar má t.d. nefna að fyrir Alþingi liggur nú frv. sem gerir Lánasjóði sveitarfélaga kleift að skuldbreyta skammtímalánum sveitarfélaga í hagstæðari lán til lengri tíma og bæta þar verulega fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga.
    Fyrir Alþingi liggur einnig frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga sem er stór áfangi að heilstæðri félagsmálalöggjöf hér á landi sem tryggir rétt fólksins til alhliða félagsþjónustu um allt land, en núverandi löggjöf tekur einungis til framfærslumála.
    Á ýmsum sviðum hefur verið unnið að jafnréttismálum. Má þar nefna jafnréttisáætlanir ráðuneyta og ríkisstofnana um jafnrétti til launa og
stöðuveitinga. Nú liggur einnig fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á jafnréttislögum þar sem m.a. er áhersla lögð á fjögurra ára framkvæmdaáætlun á mörgum sviðum jafnréttismála kynjanna.
    Á vegum ráðuneytisins hefur einnig verið unnið að því að tryggja réttarstöðu heimavinnandi fólks og eru nú í framhaldi af því í undirbúningi breytingar á sviði trygginga-, lífeyrissjóðs- og skattamála til að tryggja betur félagsleg réttindi heimavinnandi fólks. Unnið er að tillögum til úrbóta í atvinnumálum fatlaðra, bæði hvað varðar verndaða vinnustaði og almennan vinnumarkað. Einnig hefur á vegum félmrn. verið gerð úttekt á atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni. Tillögur um úrbætur þar að lútandi eru nú til athugunar hjá ríkisstjórninni og Byggðastofnun. Frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu liggur nú fyrir Alþingi, en þar er um að ræða eitt stærsta vinnumarkaðsmál fyrir launafólk. Starfsmenntun launafólks er ein veigamesta forsenda þess að hægt sé að tryggja atvinnuöryggi launafólks og bæta launakjör sem og að nýta sér tæknibreytingar til aukinnar framleiðni, hagvaxtar og bættra lífskjara hér á landi.
    Hér er aðeins fátt eitt talið. Þrátt fyrir erfitt ástand í efnahags- og atvinnumálum hefur verið lagður grunnur að stórfelldum umbótamálum sem þjóðin mun búa að um langa framtíð. Á þessu vori blasa líka við íslensku þjóðinni bjartari og betri tímar en verið hafa um langt skeið. Öll teikn eru nú á lofti um stöðugleika í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar og ný tækifæri til aukins hagvaxtar og atvinnuuppbyggingar eru í sjónmáli.
    Góðir Íslendingar. Það er ástæða til bjartsýni því grunnur hefur verið lagður að nýju framfaraskeiði til bættra lífskjara og félagslegra framfara.