Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Á því þingi sem senn er að ljúka gefa þrjú mál öðrum fremur tilefni til umræðu á eldhúsdegi. Fyrir það fyrsta eru efnahagsmálin og sá bati sem nú er fyrirsjáanlegur. Í öðru lagi stjórn fiskveiða og í þriðja lagi umhverfismálin. Allt eru þetta mál sem valdið hafa miklum deilum hér á Alþingi og verið tilefni til langra og mikilla umræðna.
    Horfurnar í efnahagsmálum eru nú snöggtum betri en þær voru þegar núverandi stjórn var mynduð. Sú efnahagsstefna sem þá var tekin upp hefur gerbreytt aðstæðum í þjóðfélaginu til batnaðar. Grundvöllur þessarar efnahagsstefnu var markaður af Borgfl. Þegar ríkisstjórnin var mynduð lagði Borgfl. höfuðáherslu á lækkun framfærslukostnaðar heimilanna með lækkun matarverðs og lækkun vaxta. Sú stefnumörkun skapaði grunninn að kjarasamningum í febrúarmánuði sl. Voru þessi tvö atriði hornsteinar þeirra samninga sem þá tókust milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, bænda og bankanna.
    Stefna ríkisstjórnarinnar og ekki síst kjarasamningarnir hafa skapað grunn að nýju framfaraskeiði í íslenskum efnahagsmálum með stöðugleika í verðlagsmálum, lágri verðbólgu, jafnvægi í viðskiptajöfnuði, minnkandi skuldasöfnun erlendis og jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum. Afraksturinn verður aukinn hagvöxtur og betri lífskjör.
    Þótt þingflokkur Borgfl. sé ekki stór hefur þátttaka hans í ríkisstjórn haft úrslitaáhrif á framvindu stjórnmála og efnahagsmála hér á landi síðustu mánuði og þá sátt sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Þau mál sem hafa hvað hörðustum deilum valdið á Alþingi síðustu vikur og mánuði eru stjórn fiskveiða og verkefni umhverfisráðuneytis. Stjórn fiskveiða er eitt meginmál þjóðarinnar, enda um að ræða þá atvinnugrein sem þjóðarafkoma byggist á að verulegu leyti.
    Af stjórnarandstæðingum hef ég verið gagnrýndur mjög fyrir að veita frv. um stjórn fiskveiða brautargengi hér á Alþingi og að því verið látið liggja að ég
hafi verið keyptur til stuðnings við frv. Það er rétt að ég hef ekki verið mikill stuðningsmaður kvótakerfis í sjávarútvegi og talið að slíkt kerfi leggi óeðlilega mikil höft á framtakssama og dugandi menn sem stunda vilja sjósókn á Íslandsmiðum. Áskildi ég mér því rétt þegar málið var til meðferðar í sjútvn. að skoða allar hliðar málsins. Eftir viðtöl við fjölmarga aðila um land allt sem byggja afkomu sina á sjávarútvegi og ekki síst fiskverkunarfólk var mér ljós nauðsyn þess að málið yrði afgreitt á yfirstandandi þingi. Mér þykir það slæm pólitík sem haldið hefur verið fram að annarleg sjónarmið hafi valdið ákvörðun minni. Ég vil vekja athygli á því að sagt hefur verið að hefði ég tekið ákvörðun um að fella frv. hefðu án efa heyrst raddir frá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar þess efnis að ég væri genginn til liðs við íhaldið.
    Við erum komnir á hættulega braut þegar mönnum

er brigslað fyrir að taka sjálfstæðar og málefnalegar ákvarðanir í svo mikilvægu máli sem stjórn fiskveiða er. Staðfestir þessi umræða þann spillta hugsunarhátt sem því miður er ríkjandi í stjórnmálum og hjá þeim flokkum sem lengst hafa starfað á Alþingi. Hvað vildu mennirnir sem ákafast börðust gegn frv. um stjórn fiskveiða? Vísa því aftur til ráðgjafarnefndarinnar. Mér er af því tilefni sú spurning efst í huga: Hver fer með löggjafarvaldið, hagsmunahóparnir eða Alþingi? Í mínum huga á að leysa mál af þessu tagi á pólitískum grunni en ekki af þröngum hópi hagsmunaaðila sem eigna vill sér þessa sameign þjóðarinnar.
    Umhverfismálin hafa sett mark sitt á það þing sem nú er að ljúka. Óhætt er að segja að ekkert mál hafi fengið eins mikla umfjöllun hér á Alþingi og umhverfismálin. Því miður hefur sú umræða ekki verið Alþingi til álitsauka og umhverfismálum til framdráttar. Nú á síðustu dögum þingsins á að nota þennan mikilsverða málaflokk sem skiptimynt í samningum um þingslit. Á sama tíma og vakning hefur átt sér stað í umhverfismálum í nálægum löndum teljum við Íslendingar okkur trú um að við búum í hreinu landi, lausir við alla mengun. Staðreyndin er því miður sú að við eigum við mikil og alvarleg vandamál að stríða í umhverfismálum þar sem skort og skolp ber hæst. Stofnun umhverfisráðuneytis er fari með samræmingu og skipulag þessara mála og fleiri, eins og landnýtingu og gróðureftirlit, er því afar brýn. Við þingmenn Borgfl. erum afar ósáttir við framgang þessa máls hér á Alþingi og lýsum vonbrigðum okkar með hvað einstakir flokkar og flokksbrot bera litla umhyggju fyrir nánasta umhverfi okkar.
    Góðir áheyrendur. Borgfl. kom óvænt inn í íslensk stjórnmál fyrir þremur árum síðan. Boðaði hann nýjar lausnir í þjóðfélagsmálum. Áhrifa hans hefur gætt um allt þjóðfélagið og komið umróti á í stjórnmálum. Þá hefur tilurð hans og störf vakið upp ótta í ýmsum skúmaskotum þjóðfélagsins. Áróðurinn hefur ekki vantað og öllum brögðum beitt til að knésetja fylgismenn hans. Ég vonast eftir, landsmenn góðir, að þið sjáið í gegnum þennan blekkingarvef. --- Lifið heil.