Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að frv. sem hér er til umræðu skuli vera komið hingað til Ed. Frv. hefur legið lengi í Nd. og fengið þar mjög ítarlega umræðu. Núna hefur náðst samkomulag um hvaða verkefni falla undir þetta ráðuneyti til viðbótar þeim sem komu þegar stofnun umhverfisráðuneytis varð að veruleika.
    Ég fagna því sérstaklega að tveir mikilvægir málaflokkar falli til ráðuneytisins, þ.e. mengunarmálin og síðan skipulagsmálin um áramótin næstu. Ég átti sæti í nefndinni sem samdi þessi tvö frv. og vonaðist eftir því í upphafi að þau mundi fara þannig í gegn, en hef áttað mig á því að mörg ljón eru á veginum og skoðanir skiptari en ég gerði ráð fyrir. En ég held að sú lausn sem nú er komin á sé mjög viðunandi fyrir hæstv. umhvrh. og vil í þessum ræðustóli lýsa yfir ánægju minni með það samkomulag.
    Ég áttaði mig ekki almennilega á ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar hér áðan eða a.m.k. ekki upphafi ræðunnar en er hún leið áfram komst ég að raun um hvaða hvatir lágu að baki og að afstaða mín í sjávarútvegsmálum hafi skipt sköpum í afstöðu hans til umhverfismála. Mér þykir afar leitt að svona hlutir geti gerst og að málflutningur í sjávarútvegsmálum skuli á þennan hátt hafa áhrif á skoðun manna á umhverfismálum.
    Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri og tefja þetta mál. Ég tel kominn tíma til að við afgreiðum það héðan úr deildinni.