Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes):
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni þessarar umræðu sem hér fer fram. Ég vil nú lítt blanda mér í umræðu um pólitísk hrossakaup. Mér finnst hún ekki viðeigandi þegar verið er að ræða þetta mikilvæga mál. Í hvert skipti sem ríkisstjórn er mynduð á Íslandi fara fram samningar. Þetta hefur verið gert síðan við hófum myndun ríkisstjórna á Íslandi eftir að við fengum sjálfstæði okkar. Með sömu rökum má þá segja að í hvert skipti sem ríkisstjórn er mynduð á Íslandi fari fram pólitísk hrossakaup ef menn kjósa að kalla það því nafni. Hér er um fullkomlega eðlilega samninga að ræða sem voru gerðir þegar þessi ríkisstjórn var mynduð 10. sept. sl. Þetta er hluti af þeim stjórnarsáttmála sem þá var kynntur fyrir þjóðinni allri og þarf enginn að fara neitt í grafgötur með hvað fólst í þeim stjórnarsáttmála. Þarf ég ekki að eyða fleiri orðum á það.
    Ég ætla hins vegar að lýsa ánægju minni yfir því samkomulagi sem hefur náðst um afgreiðslu á þessu verkefnafrv. umhverfisráðuneytisins úr Nd. Alþingis hér rétt áðan og ætla svo sannarlega að vona að hv. Ed. geti fylgt málinu eftir á þeim grundvelli. Ég lýsi ánægju minni yfir samkomulaginu hvað varðar þau verkefni sem nú færast til hins nýja umhverfisráðuneytis verði frv. að lögum eftir afgreiðslu hv. Ed. Þau falla mjög vel að þeirri starfsemi sem nú er í undirbúningi eða þegar hafin á vegum ráðuneytisins. Mig langar t.d. að geta þess að við höfum hafið undirbúning að miklu átaki í sambandi við sorphirðu og endurvinnslumál og sömuleiðis er fyrirhugað að hefja undirbúning, framkvæmdir og aðgerðir á vettvangi holræsamála. Þess vegna fagna ég því mjög að mengunarvarnadeild Hollustuverndar skuli koma inn undir ráðuneytið strax vegna þess að það auðveldar þessa vinnu svo sannarlega.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er einn mikilvægasti málaflokkur sem við eigum eftir að glíma við á næstu árum og hef styrkst í þeirri trú þá mánuði sem ég hef sinnt þessum málum innan hæstv. ríkisstjórnar. Verkefnin eru í raun óþrjótandi og það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að menn skuli hafa séð ástæðu til þess hér í þinginu að draga þessa umræðu, ég vil ekki segja niður í svaðið en niður á plan pólitískrar lágkúru sem var mikill óþarfi að mínum dómi. Ég held að það hefði verið miklu mannlegra og skemmtilegra fyrir þingið að afgreiða þetta mál með samstöðu þannig að við hefðum öll hjálpast að við að lyfta umræðunni upp á svolítið hærra plan sem umhverfismálunum ber. Ég ætla svo sannarlega að vona og reyndar treysti því að hv. Ed. fjalli um frv. á örlítið málefnalegri hátt en gert var í hv. Nd.
    Ég ítreka svo bara að lokum að ég lýsi ánægju minni yfir því samkomulagi sem hefur náðst og tel það mjög vel viðunandi fyrir ráðuneytið og þau verkefni sem þar eru að hefjast.