Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vil virða hv. 3. þm. Vestf. það til afsökunar að ég held að hann hafi ekki haft tækifæri til að hlusta á framsöguræðu mína hér áðan. Mér sýndist hann ( KP: Jú, jú, ég hlustaði á hana.) vera fjarverandi. En ég vil láta það koma skýrt fram í örfáum orðum að undir þetta ráðuneyti fer Náttúruverndarráð og öll náttúruvernd, náttúrurannsóknir, öll mengun umhverfis, bæði til lands og til sjávar, undir það fer öll dýraverndin og eyðing vargs. Undir þetta ráðuneyti fer Veðurstofan, undir þetta ráðuneyti fara landmælingar, undir þetta ráðuneyti fara sömuleiðis skipulagsmál og byggingarmál, en það er dregið um 7--8 mánuði, svo að ég vil láta það koma mjög greinilega fram að ég er afar ánægður með það hve mikið fer undir þetta ráðuneyti og einu breytingarnar sem hafa orðið frá því að ég flutti frv. eru þær að eiturefnin og geislavarnirnar fara út. Það eru einu breytingarnar. ( EgJ: Það eru orðalagsbreytingar.) Jú, orðalagsbreytingar, það er hárrétt og sumum þeirra beitti ég mér satt að segja fyrir eða studdi. Ég studdi sumar þeirra svo að ég vil bara láta koma greinilega fram að það er á miklum misskilningi byggt að hér sé ekki um mörg málefni og mikil að ræða.