Búnaðarmálasjóður
Föstudaginn 04. maí 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það er ekki nema örstutt varðandi það efni hvernig að þessu máli var unnið af hálfu landbrn. Rétt til upplýsingar og skýringar þá lagði ég einmitt mikið kapp á að sú nefnd sem starfaði að undirbúningi málsins lyki störfum fyrir búnaðarþing nú á þessum vetri. Reyndar var það svo að ég lét senda þau drög sem nefndin hafði þá gengið frá á síðasta sólarhring, liggur mér við að segja, áður en búnaðarþing kom saman, til búnaðarþingsins áður en nefndinni hafði unnist tími til að skila formlega af sér til mín. Það var ekki fyrr en síðla í þeirri viku sem búnaðarþing var haldið að nefndin hafði í raun lokið störfum og skilaði til mín endanlega tillögum og skýrslum. En ég lét eftir sem áður senda þau drög sem fyrir lágu þegar búnaðarþing kom saman til þingsins. Það eru því nýjar upplýsingar fyrir mig að búnaðarþing hafi þurft að ganga sérstaklega eftir því. En það má svo sem einu gilda. Aðalatriðið er að málið kom til umfjöllunar á búnaðarþingi og þar sem Stéttarsamband bænda átti fulltrúa í undirbúningsnefndinni og ég gekk sérstaklega úr skugga um að forráðamenn Stéttarsambandsins voru samþykkir efni tillagnanna og þar sem enn fremur fulltrúi Stofnlánadeildarinnar, sem hér á mikilla hagsmuna að gæta, var í nefndinni taldi ég eftir atvikum sæmilega fyrir samráði við helstu hagsmunaaðila séð.
    Um hitt get ég verið hv. þm. óskaplega sammála, og skal nú vona að ég fari að verða reynslunni ríkari, að æskilegt væri að við hefðum meiri tíma til að fjalla um þetta mál. En ég vona, og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er svo mikið hagsmunamál að koma þessu máli fram, að við getum sameinast um að gera það.