Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 04. maí 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langa ræðu um efnisatriði þessa frv. Ég ætla ekki að segja að ég hafi reynt að tefja eðlilega afgreiðslu málsins. Hins vegar held ég að það sé farið fram á of mikið, að sjútvn. afgreiði frv. með bundið fyrir augu.
    Út af því sem hæstv. forsrh. sagði að hann réði ekki við allt, þá vil ég benda á það að þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð í september 1988 var í málefnasamningi ákveðið að semja og leggja fram fiskvinnslustefnu. Svo mér kemur það mjög á óvart að innan raða þeirra sem gera þennan málefnasamning skuli vera menn sem hafa borið sigurorð af forsrh. í þessum efnum. Það kemur mér á óvart að heyra. Og ég tek algerlega undir orð hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í þessum efnum. Og um þetta að fiskvinnslan segi að hún eigi sjálf að marka stefnuna. Ef einhverjir forsvarsmenn fiskvinnslunnar hafa sagt þetta álít ég þá vera óvita. Þeir geta ekki markað þá stefnu sjálfir og einir. Ef önnur fiskveiðistjórnunarstefna er ákveðin af löggjafanum fá þeir litlu ráðið. Það sem við erum hér að tala um og höfum þungar áhyggjur af er það að hér verði haldið uppi fiskverði til þess eins að flytja óunninn fisk úr landi á kostnað byggðarlaganna vítt og breitt um landið.
    Það er svona einfalt að skilja þetta en það er ekki eins einfalt að koma í veg fyrir það, það skal ég játa. Það sem mér finnst sérstaklega vanta í þetta frv. er að tryggja betur að fiskvinnslustöðvar og verkafólkið og allir þeir sem eiga lífsafkomu sína undir þeim byggi á traustari atvinnugrundvelli en nú er og sérstaklega verður ef fram heldur sem mönnum sýnist nú.
    Ég eyddi nokkrum tíma í gær í það að skýra frá því hvernig atvinnulífið í öðrum löndum hefði hrunið við það að missa hráefni og missa fiskinn. Sérstaklega þó á Humber-svæðinu í Bretlandi. Ég sýndi fram á hvernig
atvinnugrundvöllurinn hrundi hjá því fólki, m.a. fyrir nauðsynlegar aðgerðir okkar Íslendinga í útfærslu fiskveiðilandhelginnar og við að koma erlendum þjóðum burt úr okkar fiskveiðilögsögu. Jafnframt eyddi ég þó nokkrum tíma í að skýra frá því með hvaða hætti bresk stjórnvöld og Evrópubandalagið líka gengu í það að reisa þessi svæði atvinnulega séð úr rústunum.
    Þetta sagði ég ekki í öðrum tilgangi en þeim að vara við að það sama, þó af nokkrum öðrum ástæðum sé, geti komið fyrir hér hjá okkur. Um þetta held ég að við þurfum ekki að deila hvar sem við erum í flokki eða hvort sem við styðjum ríkisstjórnina sem nú situr eða erum henni andvígir. Ég hélt að þetta ætti að vera það sem við ættum sameiginlegt og þyrftum að taka á. Þess vegna tek ég mjög undir orð hv. þm. Stefáns Valgeirssonar í þessum efnum.
    Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann gaf við beinni fyrirspurn frá mér og e.t.v. verður að athuga nánar í nefndinni hvað þetta varðar. Ég skildi mjög vel þessi svör. Ég held að nauðsynlegt sé að

þetta hafi komið fram hér í umræðum vegna túlkunar sem geti orðið og það í mörgum tilfellum síðar meir.
    Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég ekki að halda þessari umræðu áfram. Ég tel sjálfsagt að þetta mál fari til nefndar, en endurtek það sem ég sagði í gær að ég tel að til þess að vinna efnislega að frv. er ekki hægt að afgreiða þetta mál á morgun, það er útilokað. En ef stjórnarmeirihlutinn er ákveðinn í því að hafa að engu efnislega meðferð málsins í nefnd í Nd. er það á hans ábyrgð en því verður harðlega mótmælt, a.m.k. hvað mig áhrærir.