Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það er ekkert skrýtið að mál sem þetta valdi miklum deilum. Æpandi hrossakaup á Alþingi hljóta alltaf að valda deilum. Menn þurfa ekkert að undra sig á slíku.
    Ég vil taka undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér áðan, málið hefur verið að dröslast hér allt, allt of lengi. Og ég vil einnig taka undir það að sökin liggur fyrst og fremst hjá umhvrh. sem hefur látið sig vanta í þessa umræðu hvað eftir annað. Ég fullyrði að ef hæstv. ráðherra hefði sýnt þessu máli meiri áhuga en raun ber vitni hefði það verið afgreitt út úr þessari deild fyrir nokkrum mánuðum síðan. Sökin er því öll á þeim bæ.
    Gert hefur verið um það samkomulag að afgreiða þetta mál út úr deildinni á grundvelli þeirra tillagna sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram. Og samkomulagið ber það einnig í sér að ekki verði frekari umræða um málið. Skal ég verða við því.
    Ég er hins vegar í prinsippi mjög mótfallinn stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis og hef látið það koma mjög skýrt fram. Ég tel að það muni, eins og reynsla annarra þjóða hefur leitt í ljós, verða að stóru og dýru bákni fyrr en varir. Ég tel að umhverfismálum eigi að sinna mjög gaumgæfilega. Það hefði mátt gera inni í öðrum ráðuneytum eða öðru ráðuneyti þar sem sú deild hefði átt að hafa með ráðgjöf, samræmingu og eftirlitshlutverk að gera. Ég hef því lagt fram frávísunartill., ásamt hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, sem gerir ráð fyrir að þessu máli verði vísað frá og skipuð verði milliþinganefnd er vinni málið betur. Frávísunartill. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem fram hefur komið veruleg andstaða frá þeim stofnunum, sem flytja á undir umhverfisráðuneyti, og jafnviðamikil stjórnkerfisbreyting og í frv. felst hefur ekki verið nægilega vel kynnt og undirbúin, svo að óþolandi
réttaróvissa mundi skapast ef að lögum yrði, samþykkir deildin, í trausti þess að forsrh. skipi nefnd með fulltrúum ráðuneyta, stofnana og allra þingflokka til að vinna milli þinga við að fullvinna frv., að vísa dagskrármálinu til ríkisstjórnarinnar.``