Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. minni hl. fjvn. (Egill Jónsson):
    Herra forseti. Formaður fjvn. hefur flutt hér tillögur meiri hl. um afgreiðslu vegáætlunar fyrir árið 1990. Eins og þar kemur fram og reyndar liggur ljóst fyrir hafa stjórnarandstæðingar í fjvn. skilað séráliti. Og því áliti ætla ég einmitt að gera hér nokkur skil, en undir það rita auk mín Pálmi Jónsson og Málmfríður Sigurðardóttir.
    Niðurstaða okkar er sú að við munum ekki greiða atkvæði með þessari vegáætlun þótt þingmenn hafi starfað saman í þingmannahópum að niðurskurði á vegaframkvæmdum í sínum kjördæmum. Þessi vegáætlun er fyrir margra hluta sakir afar merkilegt plagg. Sérstaklega þó vegna þess að aðeins er eitt ár liðið frá því að hér var afgreidd vegáætlun til fjögurra ára. Eins og lög og reglur mæla fyrir fer fram endurskoðun á vegáætlun annað hvert ár en ekki árlega. Reyndar eru fordæmi fyrir því að vegáætlun sé brotin upp einu ári eftir að endurskoðun fer fram og þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til ársins 1988 þegar þáv. samgrh., Matthías Á. Mathiesen, hafði forgöngu um að brjóta vegáætlunina upp. En ástæðan fyrir því var sú að þá þótti nauðsynlegt að auka vegaframkvæmdir í landinu frá því sem vegáætlun hafði gert ráð fyrir. Nú er hins vegar sá óvenjulegi háttur tekinn upp að brjóta upp vegáætlun einu ári eftir að regluleg endurskoðun hennar á sér stað með því að skerða stórlega framkvæmdir í vegamálum. Hér er þess vegna um ákaflega skýra stefnubreytingu að ræða í vegamálum, þessum lífsnauðsynlega málaflokki, ekki síst fyrir fólkið sem á sína búsetu úti á landsbyggðinni.
    Nú er það út af fyrir sig ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn grípur til þess að skera niður vegafé. Hún hefur reyndar ekki haft möguleika á því nema tvisvar sinnum, þ.e. núna og í fyrra. Fyrir einu ári skar ríkisstjórnin vegafé niður um 682 millj. kr. og þótti ýmsum súrt í broti og höfðu raunar um það stór orð að slíkt skyldi ekki koma fyrir aftur. Þegar hæstv. samgrh.
flutti mál sitt hér á Alþingi um vegáætlun fyrir árin 1989--1992 komst hann þannig að orði um þetta atriði, með leyfi forseta:
    ,,Í tillögu þeirri sem hér liggur fyrir er miðað við að markaðir tekjustofnar standi áfram undir öllum útgjöldum vegáætlunar. Reiknað er með hægum en jöfnum vexti bensínsölu á tímabilinu en óbreyttum stofni í þungaskatti. Með því að nýta tekjustofnana samkvæmt lögum, þ.e. að láta þá fylgja verðlagi, má auka framkvæmdafé vegáætlunar umtalsvert og er við það miðað hér.``
    Þannig má ná hlutfalli af þjóðarframleiðslu miðað við hinn nýja grundvöll á bilinu 1,4--1,5% á næstu árum. Er það verulegur áfangi í þá átt að ná því framkvæmdamagni sem langtímaáætlunin miðast við og talsvert hærra hlutfall en runnið hefur til vegamála hin síðari ár. Þetta hlutfall næst þó ekki á yfirstandandi ári, eins og kunnugt er. Vegna ástands í efnahagsmálum þjóðarinnar varð því miður ekki hjá

því komist að hluti markaðra tekna rynni í ríkissjóð á þessu ári.
    Tilefni þessarar yfirlýsingar var, eins og ég sagði áðan, að ákvörðun hafði verið tekin um að skerða markaðar tekjur til Vegagerðar ríkisins um 682 millj. kr. Um þennan boðskap og þessa niðurstöðu ríkisstjórnarinnar snerust umræðurnar æðimikið, ekki einungis af hendi okkar stjórnarandstæðinga heldur kom þetta líka mjög fram í máli þeirra sem styðja núv. ríkisstjórn. Þess vegna var það að í síðari ræðu sinni bætti hæstv. samgrh. um betur til þess að taka af öll tvímæli um framhaldið í þessum efnum. Þá sagði hann, með leyfi forseta, á þessa leið: ,,Varðandi það efni sem hér hefur verið nefnt af mörgum og var reyndar sérstaklega gert að umtalsefni af mér í upphafi, að því miður varð það að ráði vegna erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálunum á sl. hausti að taka hluta af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins, þ.e. sérstaka hækkun sem gripið var til á þeim tekjustofnum og láta renna í ríkissjóð, vil ég upplýsa að við þá afgreiðslu í hæstv. ríkisstjórn var gerð bókun sem lýtur að því að hér er um einstaka afgreiðslu að ræða, bundna yfirstandandi ári og ekki er ætlunin að hún verði til frambúðar.`` Enn fremur sagði hann: ,,Á grundvelli þessarar bókunar og vilja ríkisstjórnarinnar er vegáætlun nú þannig sett upp að þegar á næsta ári renna markaðir tekjustofnar að fullu og öllu til framkvæmda í vegamálum. Og ég vil gefa þá yfirlýsingu sem samgrh. að ég mun sjá til þess að við þessa afgreiðslu ríkisstjórnarinnar verði staðið, verði það í mínu valdi.`` --- Við þessa yfirlýsingu verði staðið verði það í mínu valdi. --- Og enn situr hæstv. ráðherra í embætti, þrátt fyrir þessa svardaga.
    Hvað hefur svo gerst síðan? Tekin hefur verið ákvörðun um það að leggja fram á Alþingi till. til breytingar á fjögurra ára vegáætlun. Og hverju er nú verið að breyta? Það er verið að skera vegáætlun niður upp á 854 millj. kr. Vilja menn nú ekki rifja upp bókun ríkisstjórnarinnar sem hún gerði þegar hún var að skera niður vegáætlun frá því í fyrra? Og vilja menn ekki rifja upp yfirlýsingu samgrh., sem er náttúrlega þess efnis að hann lagði embættisheiður sinn að veði til að sannfæra menn um að ekki yrði gripið til þessa ráðs aftur. Nú bregður hins vegar svo við að flutt er vegáætlun á Alþingi sem hljóðar upp á 4 milljarða 396 millj. á móti 5 milljörðum 250 millj., eins og ákveðið var í
fyrra. Það eru reyndar ýmsar kúnstir viðhafðar í sambandi við að púsla þeirri vegáætlun sem nú er saman. En ég ætla ekki að fara út í það hér því það eru minni háttar mál hjá þessari niðurstöðu.
    Nú vilja menn kannski segja: Á hæstv. samgrh. sér engar málsbætur? Og á ríkisstjórnin sér engar málsbætur? Vera má að ef grannt er skoðað séu bakdyrnar svona í hálfa gátt. Tekjustofnarnir hafa nefnilega ekki verið nýttir eins og til stóð. Mér sýnist að vannýting þeirra sé upp á u.þ.b. hálfa millj. kr. Þar af, vegna þess að tekjustofnarnir hafa ekki verið látnir taka eðlilegum kostnaðarhækkunum, má ætla að út af standi kannski eitthvað í kringum 350 millj. kr. En

hvað þá með blessað fólkið sem á bílana sem gefa þessar tekjur? Hlýtur það ekki að fagna því að greiða minni skatta? Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi skorið niður vegáætlun með þeim hætti sem ég hef hér lýst þá hefur verið séð fyrir því að taka peningana af fólkinu í landinu sem á bifreiðarnar. Eins og kunnugt er hafa bifreiðagjöld verið stórlega hækkuð svo að skattborgararnir fá sínar kveðjur með öðrum hætti en hækkuðu bensíni.
    Hér hef ég nú brugðið upp mynd af þessum verknaði hæstv. ríkisstjórnar. Og mér er spurn: Hvað með framhaldið? Hvað með vegagerðarframkvæmdir á næsta ári? Vill hæstv. samgrh. segja okkur eitthvað um þær? Varaformaður fjvn., hv. 1. þm. Vesturl., sem er mikill áhugamaður um vegaframkvæmdir, sagði eitthvað á þá leið við fyrri umræðu málsins að nú væri bara eitt ráð til vegna allra þessara óskapa sem væru látin ganga yfir vegamálin, og það væri þá helst að forsvara með því að tekið yrði til við nýja vegáætlun. Nú yrðu menn að láta hendur standa fram úr ermum og fara að vinna að nýrri vegáætlun. Þess vegna væri góður kostur að fá það upplýst hér í þessari umræðu hver eigi að vera grundvöllur þeirrar vegáætlunar. Við hvaða tekjustofna á að miða? Hvað ætlar ríkisstjórnin að hirða mikið af hinum föstu tekjustofnum Vegagerðar ríkisins í ríkissjóðshítina hjá hæstv. fjmrh.?
    Auðvitað er það grundvallaratriði hvað sé til af peningum til þess að leggja vegina fyrir. Hitt er náttúrlega nauðsynlegt, að raða framkvæmdum saman og ná um þær bærilegu samkomulagi. En það er til lítils að gera góðar áætlanir og ná samkomulagi um þær hér á hv. Alþingi þegar gripið er svo til sams konar vinnubragða og hefur verið gert núna tvívegis af núv. samgrh. Ég gerði mér það til gamans að fletta aðeins ræðum hæstv. ráðherra frá því að hann var hér í stjórnarandstöðu. Og það var fróðlegt að sjá hvað mikinn áhuga þessi hv. þm., sem þá var, hafði fyrir vegagerð og vegamálum. ( Landbrh.: Ég er gamall vegagerðarmaður.) Já, ég geri ráð fyrir því, hæstv. ráðherra, að þú hefðir reynst betur í því verki en að stjórna því sem ráðherra. En það voru mikil fyrirheit og mikill tillöguflutningur sem þessi hæstv. ráðherra hafði þá í frammi. Satt að segja hafði ég varla þrek til að lesa það allt saman og bera það saman við þau verk sem hér liggja fyrir.
    Á fskj. með nál. minni hl. er mynd sem menn geta virt fyrir sér. Þau ár sem Sjálfstfl. fór með samgöngumál var lagning bundins slitlags, allt frá árinu 1984, yfir 160 km. Árin 1985, 1986, 1987 og 1988 var lengd bundins slitlags yfir 200 km, mest árið 1987 þegar bundið slitlag var lagt á 305 km. Á síðasta ári var sambærileg tala 152 km eða helmingi minni en á árinu 1987. Og það eru horfur á því, þó það liggi ekki enn þá fyrir, að enn þá muni verða samdráttur í lagningu bundins slitlags á þessu ári. Ég sé ekki betur en að á þessum tveimur árum og með þeirri stefnu sem hér er verið að marka, m.a. með því að draga saman tekjustofna Vegagerðar ríkisins, sé verið að rústa langtímaáætlun í vegagerð sem gott

samkomulag var um hér á Alþingi.
    Þetta sem ég hef sagt gerir það að verkum að við greiðum að sjálfsögðu ekki atkvæði með þeirri till. sem hér er til afgreiðslu. Þess í stað munum við væntanlega sitja hjá við afgreiðsluna.