Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjvn. (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til fjáraukalaga vegna kjarasamninga í febrúar sl. Það er flutt í þeim tilgangi að afla ríkisstjórninni heimilda til að breyta útgjöldum ríkissjóðs í fjárlögum þessa árs í framhaldi þessara nýgerðu kjarasamninga. Í kjölfar kjarasamninganna hafa ýmsar breytingar orðið á verðlagsforsendum frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Heildaráhrif þessara breytinga fela í sér að gjöld umfram tekjur aukast á árinu um 645 millj. kr. Og nú eru horfur á að rekstrarhalli ríkissjóðs verði a.m.k. 4,3 milljarðar á þessu ári.
    Víða er leitast við að skera niður gjöld ríkissjóðs í þessu frv. Satt að segja virðist í fljótu bragði margt af því vera hálfgerður sparðatíningur og liggur við að sé broslegt. En sumt er auðvitað á annan veg. Það sem vekur helst athygli í þessu sambandi er það að ekki eru hafðar uppi neinar tillögur um sparnað í ríkisrekstrinum og ekki er heldur hróflað við þeim fjármunum sem ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar hafa óskipta til ráðstöfunar í fjárlögum þessa árs, en þeir nema hundruðum milljóna kr.
    Lækkun útgjalda ríkissjóðs sem fram kemur í frv. felst einkum í lækkun á framlögum til stofnframkvæmda og viðhalds á eignum ríkisins. Satt að segja hefur mönnum virst á umræðum í vetur og undanfarin ár að þar þyrfti frekar við að auka en að skera niður því það hefur verið almennt álit þeirra sem um þau mál hafa fjallað að viðhald á eignum ríkisins, einkum húseignum, væri ríkisstjórninni, og ríkisstjórnum yfirleitt, til vanvirðu.
    Tillögur frv. felast líka í lækkun á framlögum. Þar eru töluvert stórir liðir svo sem Byggingarsjóður ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóður sem mega sæta því. Um Atvinnuleysistryggingasjóð má segja það að þegar litið er til þess að bæði hefur verið atvinnuleysi og er fyrirsjáanlegt að verði áfram, þá sýnist manni ekki mjög skynsamlegt að rýra tekjur hans. Þetta leiðir
væntanlega til þess að frekari útgjöld til hans komi þá til seinna á árinu. Þær tillögur ríkissjóðs sem felast í þessu frv. munu ekki stuðla að því að þeir sem búa við atvinnuleysi nú geti fengið vinnu. Þær munu yfirleitt frekar auka atvinnuleysi í landinu heldur en hitt.
    Þegar fjvn. hafði þetta frv. til umfjöllunar var leitað eftir ýmsum upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu. Það var leitað sérstaklega eftir því við fulltrúa fjmrn. hvort í frv. væri gert ráð fyrir öllum þeim útgjöldum sem fjmrn. eða ríkisstjórnin hefðu tekið ákvörðun um. Í framhaldi af þeim upplýsingum sem fram komu ákvað meiri hl. fjvn. að bæta við útgjöld ríkissjóðs 172 millj. kr.
    Í þessari upplýsingasöfnun kom einnig fram að framlög til ríkisspítalana voru vanáætluð í fjárlögum. Þá vil ég nefna það að stjórnarandstæðingar í fjvn. bentu ítrekað á það við afgreiðslu fjárlaga að þarna væri ekki fyrir nógu fé séð og það mundi koma í ljós

þegar liði á árið að ríkisspítalana mundi skorta fé. Nú er það þegar komið á daginn. Hefði e.t.v. verið skynsamlegra og jafnvel heiðarlegra að gangast við þessari vanáætlun strax svo að hægt væri að taka á henni í fjárlögum ársins þegar þau voru til afgreiðslu. En nú er gert ráð fyrir að leiðrétta og auka framlag til ríkisspítalanna um 147 millj. kr. En líka er gert ráð fyrir því að það sé ekki undir 200 millj. kr. sem vantar. Einnig hefur verið ákveðið að draga saman nokkra þætti í starfsemi ríkisspítalanna, þar á meðal hjartaskurðlækningar og það hefur verið ákveðið að fresta því að hefja glasafrjóvganir.
    Nú er það svo að fólk fer í miklum mæli til útlanda til þessara aðgerða og mun halda því áfram. Hluti af þessum kostnaði er greiddur af Tryggingastofnun ríkisins og það mun kosta ríkissjóð drjúgum meira á árinu en það sem hann hyggst spara með því að fresta þessum framkvæmdum. Sparnaðartilraunir eins og þarna er verið að hafa uppi sýnast heldur betur bíta í skottið á sér.
    Þá er í frv. lagt til að lækka útgjöld til Flugmálastjórnar um 20 millj. kr. á sama tíma og vitað er að verulega fjármuni vantar til að halda rekstri stofnunarinnar óbreyttum. Ég veit eiginlega ekki hvað á að segja um svona ráðstafanir. Þær eru ekki bara hlægilegar, þær eru grátbroslegar. Á sama tíma og liggur fyrir að stofnunina vantar fé, sem óhjákvæmilega verður að bæta henni, þá er lagður til niðurskurður á fjárframlögum til hennar. Þess konar vinnubrögð gera í rauninni ekkert annað en veikja tiltrú manna á fjárlagagerðinni yfirleitt. Fjárlagagerð á þennan máta verður einungis hlægileg í allra augum. Einnig rýrir þetta fjárveitingavald Alþingis vegna þess að með þessu móti hljóta að koma til auknar lántökur sem binda enn frekar það fé sem er til ráðstöfunar á fjárlögum.
    Það mætti auðvitað margt segja fleira um þetta frv. en það er liðið á nótt og ég kýs ekki að stuðla að því að mönnum sé haldið hér yfir einhverju málþófi. Ég ber líka umhyggju fyrir starfsfólki Alþingis sem verður að leggja á sig vökur vegna þess að starfsáætlun þingsins er farin úr skorðum. En að lokum vil ég geta þess að á þskj. 1207 hef ég lagt fram brtt. við frv. Þar er lagt til að fallið verði frá því að lækka framlög til Rannsóknasjóðs um 10
millj. kr. Það er eitt af einkennum þessa frv., sem ber í rauninni ekki með sér stefnu aðra en þá að klippa niður útgjöld af handahófi --- en það er einkenni þess að ráðist er á allar stofnanir ríkisins sem hafa einhverjar rannsóknir með höndum. Þar er klipið og skorið. Því legg ég til að fallið verði frá því að lækka framlög til Rannsóknasjóðs um 10 millj. kr. Og einnig að fallið verði frá því að lækka framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra um 8 millj. kr. Þetta eru alls 18 millj. kr. Til að mæta þessum auknu útgjöldum er lagt til að lækka fjárlagaliðinn Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum um sömu fjárhæð. Í því sambandi er lagt til að fjmrh. nýti ekki heimild 6. gr. um viðbótarblaðakaup ríkisins. Þeirri hækkunartillögu var kastað hér inn við afgreiðslu fjárlaga og var

afgreidd við mikinn fögnuð sumra af þingheimi hér, á sama tíma og allt gekk út á að spara á vegum ríkisins og hvergi mátti auka við. Þetta var brosleg afgreiðsla, svo að ekki sé meira sagt.
    Þær brtt. sem ég legg hér fram eru aðeins lágmarksleiðréttingar á frv. að mínu mati. Verði þær tillögur samþykktar mun ég ekki standa gegn afgreiðslu málsins en greiða atkvæði gegn því annars.