Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er reynslan í íslenskum sjávarútvegi að þar hafa verið miklar sveiflur í gegnum tíðina og það verður ekki hjá því komist í okkar samfélagi að taka á þessum sveiflum með einum eða öðrum hætti. Oft hefur það verið þannig að almenningur í landinu hefur ekki verið tilbúinn að taka á sig þær byrðar sem koma fram þegar illa gengur í sjávarútvegi og hefur oft reynst illa að stýra afkomumálum sjávarútvegsins eingöngu með breytingu á gengi. Það hefur líka reynst öðrum atvinnugreinum erfitt að vera í samstarfi við sjávarútveginn í landinu með þeim skilyrðum. Þetta eru kunn sannindi sem allir geta verið sammála um þótt menn kunni að hafa á því mismunandi skoðanir hvernig á því skuli tekið.
    Ég vildi aðeins segja út af stjórn sjóðsins að það hefur verið þannig í Verðjöfnunarsjóði að þar hafa verið fjórir aðilar frá svokölluðum hagsmunaaðilum og síðan þrír fulltrúar sem gjarnan ganga undir nafninu ríkisfulltrúar. Það er niðurstaða í þessu starfi að eðlilegt sé út frá almennri efnahagsstjórn að þeir fulltrúar sem skipaðir eru af sjútvrh. séu í meiri hluta en hagsmunaaðilar komi þar að sjálfsögðu að.
    Nú hefur það verið svo að í stjórn þessa sjóðs hafa verið valinkunnir embættismenn frá sjútvrn., Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun og ég tel enga ástæðu til að gera þar neina breytingu á. Ég tel það eðlilega skipan að þar séu menn sem starfa við efnahagsstjórn í landinu á hverjum tíma og ég hef aldrei heyrt að það hafi verið nein vandamál í sambandi við samskipti við þessa aðila af hálfu sjútvrh. á hverjum tíma. Ég er þess fullviss að slíkir aðilar munu að sjálfsögðu framfylgja þeirri efnahagsstefnu sem starfandi ríkisstjórn hefur á hverjum tíma. Þetta vildi ég taka fram að því er varðar stjórnina.
    Að því er varðar það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um þær innstæður sem þarna eru núna þá hefur verið farið mjög grannt yfir það mál en ekki verið fundin
nægilega góð leið til að skipta þeim upp á milli einstakra aðila þótt ég geti mjög vel tekið undir það með honum að það hefði á margan hátt verið æskilegri niðurstaða. En svo varð ekki.
    Ég vildi líka taka fram að þetta mál hefur verið mjög vel unnið því að baki því liggja tvö nál. fyrr og síðan sú staðreynd að það varð síðasta samþykkt síðasta Alþingis að leggja þær skyldur á herðar sjútvrh. að leggja fram frv. um þetta mál fyrir það þing sem nú stendur yfir. Ég fullyrði að þetta frv. er samið algerlega í þeim anda, eins og hv. 4. þm. Vestf. tók réttilega fram, sem þá ríkti um þetta mál, þ.e. þeim anda að hver einstakur aðili skuli hafa sína innstæðu og eingöngu þeir sem hafa greitt í sjóðinn hafi rétt til útgreiðslu, en ég ætla ekki að fara nánar út í það.
    Ég vildi aðeins koma inn á fyrirspurn hv. þm. Halldórs Blöndals að því er varðar yfirtöku ríkissjóðs á þessum skuldum. Það er rétt að í fyrsta lagi er um að ræða skuld varðandi loðnubrest sem varð 1981 sem

var yfirtekin af Ríkisábyrgðasjóði á sínum tíma og mun að sjálfsögðu færast á ríkissjóð en á Ríkisábyrgðasjóði hafa í gegnum tíðina hvílt ýmsar skuldbindingar. Síðan liggur það í augum uppi að Verðjöfnunarsjóður hefur samið við Seðlabankann með samþykki ríkissjóðs um þá skuld sem nú er. Það er í sjálfu sér mjög einfalt að ríkissjóður mun að sjálfsögðu yfirtaka þessa skuldbindingu sem Verðjöfnunarsjóður hefur samið við Seðlabankann um með samþykki ríkissjóðs. Þetta tel ég alveg skýrt í frv. og þyrfti í sjálfu sér ekki frekari útskýringa við.
    Ég vænti þess að þessar upplýsingar og þessi svör varpi einhverju frekara ljósi á málið.