Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. 6. þm. Reykn. að þessar tillögur sem gerðar hafa verið á frv. eru til bóta, skárra væri það. Þær sýna bara það sem við vissum fyrir að málið er illa unnið og óvandað, hroðvirknislega að því staðið og af mikill einþykkni. Það mun koma í ljós eftir að þessi lög koma til framkvæmda að það verður sama klúðrið og húsnæðismálin eru í heild sinni. Þar er engin yfirsýn og ekki gerð nein tilraun til þess að standa vel að verki.
    En ég vil af þessu tilefni samt spyrja hæstv. félmrh. hvað hafi gerst síðan við sáumst síðast í sambandi við úrlausn fyrir það aumingja fólk sem er að missa íbúðir sínar. Þá spurði ég félmrh. að því hvort hann hefði gert ráðstafanir til þess að meira fjár yrði aflað til þess að hægt væri að veita þessi svokölluðu erfiðleikalán. Húsnæðisráðherra veit það jafn vel og ég að eins og nú er komið, eins hörmuleg og launakjörin eru og skattpíningin mikil, þá þrengist að hjá heimilunum. Margir eru á barmi örvæntingar og þess vegna er fróðlegt að vita hvað hún hefur að segja um þetta efni. Ef ég man rétt voru þær tölur sem ég nefndi síðast á bilinu 200--300 millj. sem þarf núna bara til þess að leysa bráðasta vandann til áramóta. Það er svona lausleg ágiskun, verður auðvitað miklu meira og spurningin sem nauðsynlegt er að spyrja hæstv. félmrh. er: Hvernig gengur að afla viðbótarfjár til þess að hjálpa upp á sakirnar hjá því fólki sem verst stendur á hjá?
    Það er annað sem ég vil líka spyrja hæstv. félmrh.: Hvort hann telji að raunvextir muni fara hækkandi á húsbréfum eftir að sú breyting verður 15. maí að þeir mega sækja um húsbréf sem kaupa notaða íbúð og síðan mun lokaskrefið verða stigið í haust, ef ég man rétt. Spurning mín til hæstv. ráðherra er hvort hann reikni með því að raunvextir fari hækkandi á húsbréfum til áramóta, líka í ljósi þess að hæstv. fjmrh. ver auknum fjármunum til þess að bæta samkeppnisstöðu sína á skuldabréfamarkaðinum. Það er komið upp úr dúrnum núna
að greiðsluhallinn á ríkissjóði á þessu ári er á milli 6 og 7 milljarðar kr. án tillits til Verðjöfnunarsjóðsins. Þar bætast 2 milljarðar við. Við erum komnir þá upp í greiðsluhalla sem er 8--9 milljarðar. Ef maður spyr einstaka ráðherra hvað þeir ætli að gera um þetta og hitt, ef fréttamenn spyrja, er alltaf svarið: Það á að fara að ráða nýjan mann. --- Þetta var viðkvæðið hjá hæstv. umhvrh. í einhverjum fjölmiðlanna í gær og þannig gengur þetta. Við forsendur fjárlaga er ekki staðið. Þannig er það. En það má segja að þær byrðar sem falla auðvitað á þjóðina síðar koma jafnar niður. Höfuðmálið er hvað ráðherrann hefur gert fyrir fólkið sem er að missa sínar íbúðir. Hvað hefur verið gert í sambandi við erfiðleikalánin? Er búið að útvega þessar 200--300 millj. sem óhjákvæmilegt er að útvega til þess að standa þar sæmilega vel í stykkinu?