Umferðarlög
Laugardaginn 05. maí 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. sem flutt var af 13 þingmönnum Ed. og er nú komið hér til einnar umr. vegna þess að gerð var breyting á 1. gr. frv. í meðförum Nd. Ég tel að þessi breyting sé í sjálfu sér ekki til skaða. Þarna var um það að ræða hvort skylda ætti farþega í aftursætum leigubifreiða, sem notaðar eru til farþegaflutninga, til að nota bílbelti. Brtt. sem samþykkt var í Nd. er um það að þeir skuli ekki skyldaðir til að nota bílbelti í aftursætum leigubifreiða.
    Ég legg til að frv. verði samþykkt með þeim áorðnu breytingum sem gerðar voru í hv. Nd. því að ég tel allt í lagi að leyfa þessu að fara svona núna. Það er stór áfangi sem hefst með því að samþykkja frv. þó að þessi undanþága sé sett. Það kemur þá reynsla á það og hægt að breyta því síðar ef okkur þykir
nauðsynlegt, en auðvitað er ekkert sem bannar farþegum í aftursæti leigubifreiða að nota bílbelti og á ég frekar von á því að það verði gert, a.m.k. þegar fram í sækir. Mér finnst satt að segja vel við hæfi að þetta ágæta mál endi hér sem síðasta mál þessarar hv. deildar þar sem það var upphaflega flutt af hv. Ed. og önnur þau mál sem varða umferðaröryggi hafa oftast verið að frumkvæði þingmanna hér í hv. Ed.