Skipan prestakalla
Laugardaginn 05. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að skipan einstakra prestakalla hefur staðið lengi og ríkar hefðir liggja þar að baki. Það er oft á tíðum hluti af sjálfstæðisviðleitni vissra svæða að verja það sem þau hafa í þessum efnum. Í þeirri erfiðu stöðu landsbyggðarinnar þar sem fólksfækkun hefur víða orðið verður það enn viðkvæmara mál að búa við það að utanaðkomandi vald þykist vita betur hvernig skipa eigi málum. Ég tel fullkomlega eðlilegt að gera þær kröfur til biskups að hann hafi það meginverkefni að fara með friði að söfnuðum landsins og fæ ég ekki séð að hann hafi yfir höfuð mikið þarfara annað verkefni en að vinna eftir þeim nótum. Auðvitað er hægt að laða sóknir til samstarfs eins og svo marga aðra í þessu samfélagi ef menn leggja í það vinnu og geta þannig oft á tíðum orðið til að sætta sjónarmið.
    Nú er það svo í flestum tilfellum að það er eðlilegt að einfaldur meiri hluti ráði. Það er hin lýðræðislega regla. En þegar svo stendur á að ákvörðunin er endanleg og sá minni hluti sem verður undir fær aldrei að láta reyna á það aftur hvort hann hafi meiri hluta þá er ekki rétt að ganga þannig frá málum að aðeins þurfi einfaldan meiri hluta. Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að með því móti er réttarstaða þess sem lendir undir orðin afgerandi. Það er ekki eins og venjulegar alþingiskosningar færu þannig fram að það væri kosið á fjögurra ára fresti um málefnið, það er eins og ákvarðanataka um það að þetta skyldu nú vera seinustu alþingiskosningarnar og eftirleiðis skyldu úrslit þeirra gilda. Það er það sem liggur í því ef einfaldur meiri hluti á að ráða úrslitum í málum sem eru endanleg. Ég er hræddur um að það yrði hik á mörgum að samþykkja þá breytingu að með einföldum meiri hluta yrði gengið frá þeirri skipan í eitt skipti fyrir öll hvernig fylkingar væru á Alþingi Íslendinga.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að jafnviðkvæm mál eins og þessi eigi ekki að leysa, ef þannig stendur af sér að aðeins örlítill meiri hluti í þessum fámennu sóknum eða prestaköllum, gætu verið einn eða tveir menn, e.t.v. brottfluttir að hálfu, sem réðu úrslitum um það hvernig málum væri skipað ef þannig væri frá þessu gengið eins og er í frv.
    Ég hygg að flestir sem hafa fylgst með deilum viti það að af öllum deilum munu sennilega engar illvígari en þær sem tengjast á einhvern hátt trúmálum. Þar verður hinni einföldu rökhyggju ógjarnan komið við. Skáld þessarar þjóðar hafa oft á tíðum reynt að draga upp ýmsar myndir af slíku ástandi sem skapast getur. Fræg er lýsingin hjá Halldóri Laxness á því sem gerðist í átökunum í Mosfellssveitinni um kirkjuklukku sem sagt var að þar hefði verið komið undan þegar valdið að ofan taldi rétt að rífa ákveðna kirkju.
    Ég vil því, herra forseti, flytja svohljóðandi brtt. á þskj. 1138. Með leyfi forseta óska ég eftir að mega lesa hana:
,,1. Við 4. gr. Greinin orðist svo:
    Ráðherra er heimilt að stofna nýtt prestakall eða breyta mörkum prestakalla eftir tillögu biskups og að

fengnu samþykki þriggja fjórðu hluta atkvæðisbærra manna á héraðsfundi og aðalsafnaðarfundi viðkomandi sókna eða safnaðarráðs, sbr. 2. gr.
    2. Við 6. gr. Greinin falli brott.
    3. Við 8. gr. 2. mgr. falli brott.
    4. 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða orðist svo:
    Til þess að sameining prestakalla geti orðið skv. 1. gr. skal fyrst fá samþykki þriggja fjórðu hluta atkvæðisbærra manna á fundi í hvoru eða hverju prestakalli fyrir sig. Til þess fundar skal boðað á sannanlegan hátt og getið sé um fundarefni í fundarboði.``
    Ég vil undirstrika það að ef hugsunin á bak við þetta er fyrst og fremst hvernig launamál komi út hjá prestum, þ.e. að sumir sjái ofsjónir yfir því þó að prestur úti á landi hafi ein og hálf laun vegna þess hve umfang hans er mikið landfræðilega séð, þá sýnist mér að það sé allt annað mál sem þar er á ferðinni. Það hlýtur að vera mál sem hægt er að taka sjálfstætt á, hvernig menn vilja leysa þau mál. Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar að of mikill launamunur sé innan prestastéttarinnar. Þar kemur þó sérstaklega inn í að á einstaka stöðum er um mjög mikil hlunnindi að ræða, laxveiðihlunnindi, sem ákveðið prestakall hefur og fellur til viðkomandi sóknarprests. Mér sýnist að sú framkvæmd sem á því hefur verið sé mjög í andstöðu við það samkomulag sem gert var á sínum tíma þegar þeim málum var skipað á þann veg að prestar skyldu hafa laun frá ríkinu.
    En ég vara við því að blanda þessum tveimur málum saman. Þau eru alls óskyld að mínu viti og á ekki að tengja þau saman. Hitt gæti kostað sár, meiri en svo að auðgrædd yrðu, fyrir íslensku þjóðkirkjuna ef menn ætla nú að sópa þessu til eftir teikniborði hér fyrir sunnan, jafnvel þó að hægt sé að merja einfaldan meiri hluta fyrir aðgerðinni heima í héraði.