Raforkuver
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. iðnn. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls í þessu máli en ég get ekki látið hjá líða að gera það eftir ræðu hæstv. iðnrh. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki hlustað nægilega vel á það sem ég sagði. Ég sagði varðandi hergagnaframleiðsluna að það hefði að öllum líkindum áhrif á álverð ef það drægi úr framleiðslu hergagna. Ég hef þá trú og von að það dragi úr hergagnaframleiðslu í heiminum. Hins vegar var ekki hægt að fá það upplýst í iðnn. hversu mikið af áli færi í hergögn og hversu mikið færi í annað. Við báðum um þær upplýsingar og þær lágu ekki fyrir. Þess vegna orðaði ég það þannig að þetta hefði að öllum líkindum áhrif á álverð. Mér finnst því einkennilegt að bera þetta á borð og vilja ekki hlusta á það sem sagt er.
    Ég sagði einnig áðan að nýlegar fréttir hermdu að tengsl gætu verið milli Alzheimer-sjúkdómsins og álnotkunar. Ég hlustaði eingöngu á þetta í fréttum og hef lesið um það í blöðum. Ég hef ekki séð neinar rannsóknir í þessu sambandi. Hins vegar var bryddað upp á þessu líka í iðnn. og þá upplýsti einn nefndarmanna að hann hefði heyrt það í glerverksmiðju í Norður-Noregi að þar væru menn mjög bjartsýnir vegna þess að þeir teldu að notkun á álumbúðum mundi fara hraðminnkandi í heiminum. Það var einmitt þess vegna sem ég kom með þetta. Og að bera það á borð að þetta sé óheiðarlegur málflutningur, ég vísa því á bug. Hæstv. ráðherra á að hlusta betur á það sem hér er borið fram.
    Ég met málið þannig að eftirspurn eftir áli muni fara minnkandi. Það er mat margra fleiri. Það getur vel verið að aðrir hafi annað mat á málinu en það er ekki þar með sagt að það mat sé endilega rétt.