Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 2 . mál.


Nd.

2. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



1. gr.

    Á eftir 3. tölul. 2. gr. laganna komi nýr liður sem orðast þannig:
    Að safna þjóðhagslegum upplýsingum eftir kjördæmum og birta þær opinberlega einu sinni á ári í aðgengilegu formi, m.a. um tekjur og útgjöld ríkissjóðs, hlutdeild kjördæma í landsframleiðslu og gjaldeyrisöflun og um innlán og útlán innlánsstofnana.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 110. löggjafarþingi af sama flutningsmanni og Steingrími J. Sigfússyni en varð ekki útrætt. Fjárhags- og viðskiptanefnd leitaði umsagna um frumvarpið og eru þær umsagnir sem nefndinni bárust birtar sem fylgiskjal III með frumvarpinu. Frumvarpið er nú endurflutt óbreytt.
    Á 109. löggjafarþingi bar flutningsmaður frumvarpsins fram fyrirspurnir til forsætisráðherra og viðskiptaráðherra um nokkrar þjóðhagsstærðir, flokkaðar eftir kjördæmum. Fyrirspurnirnar og svör við þeim eru fylgiskjöl I og II með þessu frumvarpi.
    Eins og fram kemur í svörunum vantar mikið á að sundurliðaðar upplýsingar liggi á lausu um mörg þau atriði sem spurt var um. Hér er þó um að ræða undirstöðuatriði til að unnt sé að átta sig á mikilvægum þáttum byggðamála og framlagi einstakra kjördæma til þjóðarbúsins.
    Til að ráða bót á þessu er Þjóðhagsstofnun samkvæmt frumvarpinu falið að safna upplýsingum um þessi efni og birta þær árlega.
    Í 1. gr. frumvarpsins er ekki um tæmandi upptalningu að ræða á þeim upplýsingum sem Þjóðhagsstofnun er ætlað að safna og birta. Gert er ráð fyrir að starfsmenn stofnunarinnar hafi svigrúm til að auka við þá gagnasöfnun eftir eigin mati og óskum sem fram kunna að koma.
    Eðlilegt er að gera ráð fyrir að fyrirmæli frumvarpsins gildi frá og með árinu 1990.



Fylgiskjal I.


Fyrirspurn frá Hjörleifi Guttormssyni til forsætisráðherra


á 109. löggjafarþingi um skiptingu aflaverðmætis, útflutningsverðmæti


sjávarafurða, gjaldeyrisöflun og landsframleiðslu eftir kjördæmum.



1.      Hver hefur verið skipting aflaverðmætis eftir kjördæmum á hverju ári á tímabilinu 1981–1986?
2.     Hver er skipting útflutningsverðmætis sjávarafurða áætluð á grundvelli aflaverðmætis í einstökum kjördæmum og sundurliðað eftir framleiðslustöðum og helstu fisktegundum?
3.     Hvert hefur verið framlag hvers kjördæmis í gjaldeyrisöflun landsmanna á sama tímabili? Beðið er um heildargjaldeyristekjur af útflutningi og hreinar gjaldeyristekjur eftir því sem upplýsingar leyfa.
4.     Hvert má áætla að hafi verið framlag hvers kjördæmis til landsframleiðslunnar í heild og á vinnandi mann á sama tímabili (1981–1986)?
    Verðmætistölur óskast færðar til verðlags ársins 1986 og að fram komi hlutfallsleg skipting þar sem við á.

Greinargerð.
    Fram hefur komið, m.a. á þskj. 616 á 108. löggjafarþingi, að vissir erfiðleikar séu á að flokka útflutningsframleiðsluna eftir framleiðslustöðum þar sem útflutningshöfn getur verið önnur. Í 2. tölul. í fyrirspurninni er bent á leið til að áætla framleiðsluverðmæti sjávarafurða út frá sundurliðuðu aflaverðmæti.


Svar forsætisráðherra.



    1. Ekki er mögulegt að fá umbeðnar upplýsingar eftir skiptingu kjördæma þar sem einu tiltæku heimildirnar eru frá Fiskifélagi Íslands sem skiptir landinu talsvert öðruvísi en kjördæmaskiptingin er, sbr. eftirfarandi yfirlit:
    Suðurland: Vestmannaeyjar — Þorlákshöfn.
    Reykjanes: Grindavík — Reykjavík.
    Vesturland: Akranes — Búðardalur.
    Vestfirðir: Barðaströnd — Veiðileysa.
    Norðurland vestra: Strandir — Siglufjörður.
    Norðurland eystra: Ólafsfjörður — Vopnafjörður.
    Austurland: Bakkafjörður — Hornafjörður.

    Að öðru leyti er spurningunni svarað í töflu 1.

Tafla 1.

Aflaverðmæti, landað til vinnslu innan lands.


(Upphæðir í millj. kr. á verðlagi hvers árs.)



             1981    1982    1983    1984    1985
Suðurland ..................    297    418    731    1.0251.258
Reykjanes ..................    645    870    1.353    1.7912.213
Vesturland .................    244    348    620    8591.110
Vestfirðir .................    327    424    794    1.140    1.280
Norðurland vestra ..........176    163    376    664    1.006
Norðurland eystra ..........371    431    801    1.117    1.689
Austfirðir .................     404    418    843    1.314    1.906
             ——–     ——–     ——–     ——–     ——–
    Samtals    2.464    3.072    5.518    7.910    10.462


Aflaverðmæti, hlutfallsleg skipting.



             1981    1982    1983    1984    1985
Suðurland ..................     12,1    13,6    13,2    13,012,0
Reykjanes ..................     26,2    28,3    24,5    22,621,2
Vesturland .................     9,9    11,3    11,2    10,910,6
Vestfirðir .................     13,3    13,8    14,4    14,4    12,2
Norðurland vestra .........7,1    5,3    6,8    8,4    9,6
Norðurland eystra .........15,1    14,0    14,5    14,1    16,1
Austfirðir .................     16,4    13,6    15,3    16,6    18,2
             ——–     ——–     ——–     ——–     ——–
    Samtals    100,0    100,0    100,0    100,0    100,0

Heimild: Fiskifélag Íslands, Útvegur 1981–1985.

    2. Eftir sömu landshlutaskiptingu og áður er greint frá er möguleiki að greina frá útflutningsverðmæti sjávarafurða á verðlagi ársins 1986, skipt á grundvelli aflaverðmætis einstakra landshluta.
    Sjá töflu 2.

Tafla 2.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða 1981–1985.1)


(Upphæðir í millj. kr. á verðlagi ársins 1986.)2)



         1981    1982    1983    1984    1985
Suðurland ..................         3.629    3.2113.1963.4923.810
Reykjanes ..................         7.856    6.6815.9326.0716.731
Vesturland .................         2.969    2.6682.7122.9283.366
Vestfirðir .................         3.988    3.258    3.4873.8693.874
Norðurland vestra ..........         2.129    1.2511.6472.2563.048
Norðurland eystra ..........         4.528    3.3053.5113.7875.112
Austfirðir .................         4.916    3.211    3.7054.4595.779
         ——–     ——–     ——–     ——–     ——–
    Samtals    30.015    23.585    24.190    26.86231.720

1)     Skipting niður á landshluta er gerð á grundvelli aflaverðmætis innan lands, sbr. töflu 1.
2)     Fjárhæðir eru færðar til verðlags ársins 1986 miðað við verðvísitölu sjávarafurðaframleiðslunnar.

    Að mati Þjóðhagsstofnunar er afar torvelt að flokka útflutningsframleiðsluna eftir framleiðslustöðum með þeim gögnum sem eru tiltæk. Því verði sundurliðun eftir landshlutum að nægja á grundvelli verðmætis þess afla sem landað er til vinnslu í hverjum landshluta.

    3. Upplýsingar um þetta atriði eru hvergi fyrirliggjandi og miðað við tiltæk gögn er heldur ekki hægt að afla þeirra. Gildir þetta um hvort tveggja heildargjaldeyristekjur og hreinar gjaldeyristekjur.
    Ástæða er hins vegar til að geta þess að þó að slíkar upplýsingar lægju fyrir væri sitthvað við þann mælikvarða að athuga, til að mynda vegna þess að hver sú atvinnustarfsemi á svæðinu, sem starfar í heilbrigðri samkeppni við innflutning og framleiðir fyrir innlendan markað, sparar gjaldeyri og er þar af leiðandi engu þýðingarminni en útflutningsgreinin.

    4. Þjóðhagsreikningagerð hér á landi er ekki enn komin á það stig að unnt sé að svara spurningum af þessu tagi. Til þessa hefur Þjóðhagsstofnun lagt áherslu á skýrslugerðina fyrir landið í heild og reynt að bæta hana og treysta eftir föngum. Við skiptingu landsframleiðslunnar eftir kjördæmum koma hins vegar upp ýmis ný álitamál, en fullyrða má að skýrslugerð af því tagi gæfi mun betri mynd af þætti hvers landshluta í þjóðarbúskapnum en gjaldeyristekjur eins og vikið er að í svari við þriðju spurningu.



Fylgiskjal II.


Fyrirspurn frá Hjörleifi Guttormssyni til viðskiptaráðherra


á 109. löggjafarþingi um innlán og útlán


innlánsstofnana eftir kjördæmum.



1.     Hver hefur verið staða og þróun innlána í innlánsstofnunum, flokkað eftir helstu tegundum sparnaðarforma og kjördæmum, árlega á tímabilinu 1976–1985?
2.     Hver hefur verið staða og þróun útlána á sama tímabili hjá innlánsstofnunum, flokkað eftir kjördæmum og lántakendum (einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum)?
3.     Hver hafa verið heildarútlán, flokkuð eftir kjördæmum, á sama tímabili frá innlánsstofnunum, lífeyrissjóðum og fjárfestingarlánasjóðum?
    Beðið er um að allar upplýsingar verði jafnframt færðar til verðlags í desember 1986.


Svar viðskiptaráðherra.



    Með svari þessu eru prentaðar töflur sem Seðlabanki Íslands hefur útbúið þar sem fram koma umbeðnar upplýsingar auk skýringa og fyrirvara sem gera verður við töflurnar.
    Í fyrirspurninni er beðið um nánar tilgreinda flokkun inn- og útlána innlánsstofnana árlega á tímabilinu 1976–1985. Vegna umfangs þessa verkefnis og þeirrar vinnu sem í það þurfti að leggja reyndist nauðsynlegt að takmarka þessar upplýsingar nokkuð, þó þannig að ætla má að niðurstöðurnar gefi í heild mynd af þróun þeirra atriða sem óskað er upplýsinga um. Þá skal þess einnig getið að upplýsingar um innlán Póstgíróstofunnar eru ekki taldar með í þessum tölum þar sem skipting þeirra talna á einstaka landshluta liggur ekki fyrir í Seðlabankanum. Heildarinnlán Póstgíróstofunnar voru 1985 í árslok 465 millj. kr.

    1. Tafla 1 sýnir skiptingu samanlagðra innlána banka, sparisjóða og innlánsdeilda samvinnufélaga, skipt á einstök kjördæmi, í lok áranna 1976, 1978, 1980, 1982, 1984 og 1985. Upplýsingar þessar eru fengnar úr ársreikningum banka og sparisjóða og mánaðarskýrslum innlánsdeilda sem sendar eru bankaeftirliti Seðlabankans.
     Tafla 2 sýnir þær tölur, sem koma fram í töflu 1, uppfærðar með lánskjaravísitölu til verðlags í desember 1986.
     Töflur 3–8 sýna skiptingu innlána sömu stofnana fyrir hvert ár sem tilgreint er í töflu 1, skipt í sparnaðarform og kjördæmi.

    2. Tafla 9 sýnir heildarútlán (endurlánað erlent lánsfé innifalið) banka og sparisjóða í árslok fyrir sömu ár og tilgreind eru í 1. lið svarsins hér að framan. Upplýsingarnar eru fengnar úr ársreikningum þessara stofnana til bankaeftirlits Seðlabankans.
    Hafa verður í huga varðandi þessar tölur að stofnunum er frjálst að bókfæra lánin hvort heldur er í aðalbanka eða útibúum. Þannig er t.d. endurlánað erlent lánsfé til aðila utan Reykjavíkur í einhverjum tilvikum bókfært í aðalbanka viðkomandi bankastofnunar. Sama gildir um afurðalánin, einkum hvað varðar fyrstu árin í þeim talnaröðum sem hér eru birtar. Skipting útlánanna á þann hátt sem hér er óskað eftir mun því ekki í öllum tilvikum gefa rétta mynd af raunverulegum útlánum í hvern landshluta.
     Tafla 10 sýnir sömu upplýsingar og fram koma í töflu 9, uppfærðar til verðlags í desember 1986 með lánskjaravísitölu.
    „Útlán“ innlánsdeilda samvinnufélaga eru ekki tilgreind í töflunum. Ráðstöfunarfé þessara stofnana liggur í rekstri viðkomandi samvinnufélaga og er ekki bókfært sérstaklega í reikningum þessara félaga enda hafa innlánsdeildirnar ekki sjálfstæðan fjárhag.
    Hagfræðideild Seðlabankans tekur mánaðarlega saman upplýsingar um flokkun útlána innlánsstofnana eftir atvinnugreinum samkvæmt upplýsingum frá þessum stofnunum. Niðurstöður flokkunarinnar eru birtar í riti Seðlabankans, Hagtölur mánaðarins. Þess ber þó að geta að niðurstöðurnar eru að hluta til byggðar á áætlunum þar sem skýrslur um flokkun lána berast ekki frá öllum innlánsstofnunum. Að auki eru útlán innlánsdeilda samvinnufélaga fengin með því að draga bundið fé í Seðlabankanum frá heildarinnlánum og telja mismuninn lán til samvinnufyrirtækja. Þá eru og innifalin í þessum tölum „útlán“ Póstgíróstofunnar og að síðustu hafa verið dregin út svokölluð „millibankalán“ sem eru innbyrðis lánveitingar bankanna.
    Samanlagðar niðurstöður lánaflokkunar koma því ekki nákvæmlega heim við heildarútlán banka og sparisjóða samkvæmt ársreikningum þeirra.
    Lánaflokkun sú, sem hér hefur verið fjallað um, byggist á upplýsingum um samandregin útlán einstakra banka. Engin skipting liggur fyrir í Seðlabankanum um hvernig flokkun lána einstakra útibúa bankanna er háttað og er því ekki mögulegt að skipta þessum tölum frekar á einstök kjördæmi eins og beðið er um í fyrirspurninni.
    Í töflum 11–14 eru sýndar niðurstöður lánaflokkunar innlánsstofnana í árslok fyrir tilgreind ár samkvæmt samantekt hagfræðideildar Seðlabankans með þeim fyrirvara sem getið er hér að framan.

    3. Hagfræðideild Seðlabankans tekur saman upplýsingar um heildarútlán lífeyrissjóða og fjárfestingarlánasjóða. Upplýsingar um flokkun þessara lána á einstök kjördæmi liggja ekki fyrir.
    Í töflum 15 og 16 eru dregnar saman upplýsingar um heildarútlán þessara sjóða í árslok tilgreindra ára.


TÖFLUR 1–15.



(Myndaðar.)







Fylgiskjal III.


Umsagnir


sem bárust fjárhags- og viðskiptanefnd


um frumvarpið á 110. löggjafarþingi.




    Eftirtaldir aðilar sendu jákvæðar umsagnir: Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Fjórðungssamband Norðlendinga, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og framkvæmdaráð Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA).
    Í umsögn Fjórðungssambands Vestfirðinga 1. febr. 1988 er mælt með að frumvarpið verði að lögum að því viðbættu, að skýrslugerðin um innlán og útlán innlánsstofnana nái einnig til verðbréfa- og ávöxtunarstarfsemi, sem komið hefur eða getur komið í staðinn fyrir hin hefðbundnu inn- og útlánsviðskipti innlánsstofnana.
    Umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar frá 20. jan. 1988 er svohljóðandi:
    Hlutverk Fjárlaga- og hagsýslustofnunar í umsögnum um lagafrumvörp er að meta hvaða áhrif það hefði á gjöld og tekjur ríkissjóðs ef frumvarpið væri samþykkt. Að reyna að meta kostnaðarauka við þetta frumvarp er ýmsum vandkvæðum háð. Ekki verður ráðið af frumvarpinu hvort það feli í sér aukið starfsmannahald og þá hvort núverandi húsnæði er nógu stórt. Það er vafamál hvort það hafi tilgang að Fjárlaga- og hagsýslustofnun gefi um það ítarlega kostnaðarumsögn.
    Umsögn Seðlabanka Íslands, hagfræðideildar, frá 22. mars 1988, fer hér á eftir:
    Nefndin hefur óskað umsagnar Seðlabankans um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, en með frumvarpinu er stefnt að því að skylda stofnunina til þjóðhagslegrar skýrslugerðar eftir kjördæmum (þingskjal 67, 64. mál).
    Það skal í upphafi tekið fram, að Seðlabankanum hefur til þessa ekki veist tilefni til að taka fastmótaða afstöðu til slíkrar skýrslugerðar eftir landshlutum. Þá sjaldan, að slík tilefni hefur borið að höndum á verksviði bankans, hefur úrvinnsla af því tagi virst umfangsmikil og krefjast verulegs undirbúnings og skipulagsátaks. Rétt þykir þó að benda á eftirfarandi atriði:
    1. Vafasamt getur verið að gefa tæmandi upptalningu á þeim skýrslugreinum, sem vert sé að vinna úr eftir landshlutum, enda varla tilætlun flutningsmanna. Þar sem fyrir hendi er Byggðastofnun sem hefur hvers konar byggðalega greiningu að hlutverki sínu og gefur út ýmislegt efni þar að lútandi, má telja eðlilegt að árétta starfssvið þeirrar stofnunar í þessu sambandi. Getur Byggðastofnun ýmist unnið verkin sjálf eða hlutast til um að þau séu framkvæmd af þar til bærum aðilum, og þá gegn kostnaðarframlagi, ef verkefnin útheimta kostnað umfram fjárráð verkaðila.
    2. Þjóðhagsstofnun hefur veitt umsögn um málið og látið oss í té afrit af henni. Seðlabankinn er samdóma því sem þar segir, að margt annað í hagskýrslu- og þjóðhagsreikningagerð hljóti að hafa meiri forgang en sérskýrslur kjördæma, og enn fremur að gera skuli tilraunavinnslu á slíkri skiptingu þjóðhagsreikninga, áður en árleg skýrslugerð sé lögbundin.
    3. Hyggilegt hlýtur að vera að gera frumáætlun um vinnumagn og kostnað við skýrslugerð sem þessa, áður en hún yrði lögbundin. Útlit er fyrir að verkefnið verði verulega kostnaðarsamt verði í það lagt án fullnægjandi undirbúnings í grundvallaratriðum. Veitist hins vegar tími til að sveigja frumvinnslu skýrslna að þessu marki með viðeigandi flokkun efnis og samningu úrvinnslukerfa, m.a. í tölvuvinnslu, má vænta minni kostnaðar eða truflana við almenna skýrslugerð.
    4. Innlán og útlán innlánsstofnana eru meðal þeirra skýrslugreina sem frumvarpið fjallar um, og eru dæmi um flokkun þeirra eftir kjördæmum látin fylgja með greinargerð. Þetta er dæmi skýrsluefnis sem ekki hefur verið undirbúið til þeirra nota sem um ræðir. Flokkun þessi getur að svo komnu máli aðeins miðast við staðsetningu bankaútibúa og sparisjóða, en ekki viðskiptaaðila þeirra á báðar hliðar. Til þess þyrfti að bæta staðareinkunn inn í frumflokkun lánanna og síðan bæta landshlutaflokkun í úrvinnslu. Margt annað er óunnið í þessari flokkun, einkum á hlið innlána. Landshlutagreining gæti átt samleið með þeirri skipulagsvinnu, en mundi bæta verulegu álagi á alla vinnsluna.
    Benda má á að verðbréfaútgáfa færist mjög í vöxt og verðbréfaviðskipti koma að vissu marki í stað hefðbundinna útlána og innlána. Það hefur því takmarkaða þýðingu að leggja í mikla vinnu við flokkun inn- og útlána, ef sleppt er að flokka útgáfur verðbréfa og verðbréfaeign.
    5. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Þjóðhagsstofnun verði falin öll umrædd skýrsluverkefni, þar á meðal varðandi gjaldeyrisöflun og út- og innlán innlánsstofnana. Það er að sjálfsögðu ótækt að ætla stofnuninni að ganga þannig inn á verksvið annarra stofnana, svo sem í þessum tilvikum Seðlabankans, til skýrslugerðar sem aðeins er unnt að vinna í samhengi almennrar skýrsluvinnslu á sama sviði.
    Af framangreindum ástæðum getur Seðlabankinn ekki mælt með lögbindingu þeirrar skýrslugerðar og með þeim hætti sem í frumvarpinu felst. Hér er hins vegar hreyft athyglisverðu máli sem vert er að mæla með að verði athugað nánar á faglegum grundvelli.

UMSÖGN ÞJÓÐHAGSSTOFNUNAR.


(20. jan. 1988.)



(Texti er ekki til tölvutækur.)