Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 26 . mál.


Sþ.

26. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol.

Flm.: Hreggviður Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna aðstöðu einstaklinga með glúten-óþol. Skal sérstaklega huga að aukakostnaði þeirra við matargerð og fæðiskostnað. Þá verði kannað með hvaða hætti einstaklingar með glúten-óþol njóti aðstoðar hins opinbera annars staðar á Norðurlöndum, svo sem með greiðslum frá almannatryggingum og hvaða skattalega meðferð þeir fá. Einnig verði kannað hvort gera megi glúten-óþol að skráningarskyldum sjúkdómi hér á landi.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var lögð fram á síðasta þingi en var þá ekki útrædd. Er því mál þetta endurflutt þar sem ætla má að nægur tími sé nú til að afgreiða það.
    Á undanförnum árum hefur aukist tíðni sjúklinga sem greindir hafa verið með glúten-óþol. Miðað við nágrannalöndin má telja líklegt að þrisvar sinnum fleiri sjúklingar séu með glúten-óþol hérlendis en þegar hafa verið greindir, en þeir munu vera um fimmtíu. Ljóst er að sjúkdómur þessi hefur veruleg áhrif á líf þess er hann ber, líkamlega, andlega og fjárhagslega. Möguleikar einstaklinga til að standa straum af þeim aukakostnaði, er til fellur vegna sjúkdómsins, eru mjög mismunandi. Annars staðar á Norðurlöndum er talið að fjórum til fimm sinnum dýrara sé að útbúa mat fyrir fólk með glúten-óþol og vitað er að yfirvöld í Skandinavíu hafa tekið tillit til þessa mikla kostnaðar sem sjúklingar með glúten-óþol verða að bera. Nauðsynlegt er að fá gleggri mynd af stöðu þessa hóps í nágrannalöndunum og hér á landi og því ástæða til að kanna hvort ekki sé rétt að gera sjúkdóminn skráningarskyldan hérlendis.