Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 130 . mál.


Ed.

134. Frumvarp til laga



um laun forseta Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Launakjör forseta Íslands skulu ákveðin af Kjaradómi.

2. gr.

    Forseti hefur ókeypis bústað, ljós og hita og er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum.
    Undanþága skv. 1. mgr. nær þó ekki til eftirlauna.

3. gr.

    Allan útlagðan kostnað forseta vegna rekstrar embættisins ber að greiða sérstaklega úr ríkissjóði.

4. gr.

    Sá sem kjörinn hefur verið til og gegnt hefur embætti forseta Íslands á rétt til launa skv. 1. gr. í fyrstu sex mánuði eftir að látið er af embætti. Taki fyrrverandi forseti stöðu í þjónustu ríkisins fellur þessi launagreiðsla niður ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka sex mánaða tímans.

5. gr.

    Fyrrverandi forseti Íslands á rétt á eftirlaunum að liðnum þeim sex mánuðum sem hann nýtur launa skv. 4. gr.
    Eftirlaunin skulu nema 60 hundraðshlutum af launum forseta Íslands eins og þau eru ákveðin af Kjaradómi hverju sinni. Ef forseti hefur gegnt embættinu meira en eitt kjörtímabil skulu eftirlaunin vera 70 hundraðshlutar launa forseta Íslands og 80 hundraðshlutar hafi forseti gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil.
    Taki fyrrverandi forseti stöðu í þjónustu ríkisins fellur eftirlaunagreiðsla niður ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunur.

6. gr.

    Nú andast forseti eða fyrrverandi forseti, er laun tekur eða eftirlauna hefur notið, og skal þá greiða eftirlifandi maka laun út sex mánaða tímann skv. 4. gr. og að þeim tíma liðnum 60 hundraðshluta þeirra eftirlauna sem hinn látni hefði átt rétt á.
    Taki maki fyrrverandi forseta stöðu í þjónustu ríkisins fellur niður launa- og eftirlaunagreiðsla skv. 1. mgr. ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunur.

7. gr.

    Handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar skulu samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir. Skulu launin skiptast að jöfnu milli þeirra.
    Handhafar forsetavalds skulu fá greiddan útlagðan kostnað vegna starfans.

8. gr.

    Með lögum þessum falla úr gildi lög nr. 3 frá 6. mars 1964, um laun forseta Íslands, og lög nr. 26 frá 2. maí 1969, um eftirlaun forseta Íslands.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sameina gildandi lög um laun forseta Íslands, nr. 3 frá 6. mars 1964, og lög nr. 26 frá 2. maí 1969, um eftirlaun forseta Íslands.
    Meginbreyting frá gildandi lögum kemur fram í 5. gr. Þar er fellt brott það skilyrði gildandi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1969, um eftirlaun forseta Íslands, að forseti skuli hafa náð 65 ára aldri eða vera öryrki.
    Verður að telja það sanngirnis- og metnaðarmál þjóðarinnar að búa vel að fyrrverandi forsetum sínum. Þykir því rétt að fella niður framangreind skilyrði um aldur eða örorku. Fyrrverandi forseti njóti þó aðeins tiltekins hluta launa forseta Íslands skv. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, 60 hundraðshluta, 70 hundraðshluta eða 80 hundraðshluta. Í öðru lagi skerðast eftirlaun fyrrverandi forseta ef hann tekur launað starf í þjónustu ríkisins. Í þriðja lagi tekur undanþága frá sköttum og gjöldum ekki til eftirlauna.
    Önnur breyting er sú að í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um rétt eftirlifandi maka í stað ekkju forseta í gildandi 4. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1969 annars vegar til launa út sex mánaða tímann skv. 4. gr. eftir andlát forseta og hins vegar til eftirlauna að tilteknum hundraðshluta að sex mánaða tímabilinu liðnu. Í gildandi lögum er ekki tekið fram ótvírætt hver réttur maka starfandi forseta er í þessu efni.
    Aðrar breytingar eru orðalagsbreytingar.

Um 1. gr.


    Greinin er samhljóða 1. gr. laga nr. 3/1964.

Um 2. gr.


    Greinin er samhljóða 2. gr. laga nr. 3/1964 að öðru leyti en því að bætt er við 2. mgr. þess efnis að undanþága skv. 1. mgr. nái ekki til eftirlauna.

Um 3. gr.


    Greinin er samhljóða 3. gr. laga nr. 3/1964.

Um 4. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1969.

Um 5. gr.


    Greinin kemur í stað 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1969. Í 1. mgr. eru felld niður fyrri skilyrði um 65 ára aldur og örorku til að öðlast rétt til eftirlauna. Í 3. mgr. er sá fyrirvari settur að eftirlaunagreiðsla falli niður meðan fyrrverandi forseti gegnir stöðu í þjónustu ríkisins, ef henni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn. Njóta eftirlaunin ekki undanþágu frá skattgreiðslu skv. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Greinin kemur í stað 4. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1969. Fjallað er um eftirlifandi maka í stað „ekkju“ og tekið fram að eftirlifandi maki forseta og fyrrverandi forseta njóti launa út sex mánaða tímabilið skv. 4. gr. að forseta látnum og að þeim tíma liðnum 60 hundraðshluta þeirra eftirlauna sem starfandi eða fyrrverandi forseti hefði átt að njóta skv. 5. gr.
    Taki maki forseta við stöðu í þjónustu ríkisins sem jafnhá eða hærri laun fylgja þykir rétt að launa- og eftirlaunagreiðsla skerðist sem því nemur, ella greiðist launamismunurinn.

Um 7. gr.


    Greinin er samhljóða 4. gr. laga nr. 3/1964.

Um 8. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.