Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 157 . mál.


Sþ.

166. Tillaga til þingsályktunar



um að leggja niður opinber mötuneyti.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hlutast til um að leggja niður mötuneyti starfsmanna hjá ríkinu eða fyrirtækjum þess og stofnunum þar sem alhliða veitingahús eru á næstu grösum og koma starfsfólki að sömu notum eða sambærilegum. Í stað opinberra mötuneyta fái þeir starfsmenn, sem hér um ræðir, ávísanir á mat á veitingahúsum eftir nánara samkomulagi. Einnig að leggja niður opinbera sali undir veislur og stærri fundi eða samkomur, með og án veitinga.

Greinargerð.


    Skórinn kreppir að íslensku þjóðfélagi í dag og þungt er fyrir fæti hjá veitingamönnum. Rekstur dregst saman og starfsfólki er sagt upp störfum. Hvert fyrirtækið á fætur öðru lendir í greiðsluþrotum og mörg eru tekin til gjaldþrotaskipta. Skattar virðast vera einu tekjulindir sem stjórnmálamenn þekkja í dag og ekki er leitað að nýjum tekjum á skipulegan hátt. Þess vegna hlýtur fólkið að krefjast þess að fá svigrúm til að vinna fyrir þessum sköttum til að geta staðið í skilum og goldið keisaranum sitt.
    Fólkið hlýtur líka að krefjast þess að ríkið keppi ekki á opnum markaði við fyrirtækin sem það leggur á háa skatta. Fyrirtækin keppi hvert við annað en ekki við ríkið sem lýtur öðru lögmáli en þegnarnir. Margar stofnanir og fyrirtæki ríkisins halda úti margvíslegri starfsemi sem getur verið mun betur komin í höndum einstaklinga og fyrirtækja þeirra og félaga. Þar á meðal eru mötuneyti fyrir starfsfólk.
    Sum opinber mötuneyti eru það nálægt alhliða veitingahúsum að hægur vandi er að skipta við þau hús og leggja mötuneytin niður. Þannig mundu losna fjölmargir góðir salir víðs vegar um landið og stundum eru matsalir líka verðmesta plássið í húsinu. Þetta nýja húsnæði drægi úr þenslu margra stofnana næstu árin. Starfsfólki ríkisins fækkaði en aukin viðskipti á veitingahúsum landsins kölluðu á fleira starfsfólk þar að sama skapi. Veitingareksturinn styrktist og gjaldþrotum fækkaði. Fleiri þegnar næðu að standa í skilum.
    Það er auðveld leið að afhenda starfsfólki ríkisins ávísanir á máltíðir sem gilda á öllum veitingahúsum sem vilja vinna með ríkinu á þennan hátt. Úr mörgum réttum væri að velja fyrir fólkið á veitingahúsinu í staðinn fyrir einn í mötuneytinu. Starfsfólkið gæti líka hvort sem er notað ávísanir sínar daglega í hvert mál eða safnað þeim saman, komið með bita að heiman en gert sér og sínum dagamun um helgar fyrir ávísanirnar.
    Sömu sögu er að segja um veislusali ríkisins undir móttökur og fundi. Fjöldi veitingahúsa um allt land býður upp á sams konar þjónustu á opnum markaði og borgar gjöld af rekstri sínum. Þess vegna er sjálfsagt að ríkið leggi niður sína veislusali en versli við veitingahúsin.
    Þá verður að tryggja að þessi framkvæmd valdi eins lítilli röskun á högum þeirra starfsmanna sem vinna í eða við ríkismötuneytin. Þeim verði tryggð störf við hæfi á almennum vinnumarkaði ef þeir óska þess að höfðu samráði við þau veitingahús sem hér um ræðir og samtök þeirra. Jafnframt gangi þeir fyrir með sambærileg störf sem losna hjá ríkinu næstu þrjú árin ef þeir óska þess.
    Tryggt verði einnig að ríkissjóður geti selt og fái markaðsverð fyrir allar eignir, hverju nafni sem nefnast, sem losnar um við þessa framkvæmd.
    Niðurstaðan er einföld: Starfsfólkið fær góðan og fjölbreyttan mat, fundarmenn og aðrir opinberir gestir fá gott húsaskjól, hagur veitingahúsanna batnar og umfang ríkisins minnkar og útgjöld þegnanna minnka.