Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 39 . mál.


Sþ.

173. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kristínar Einarsdóttur um samninga um nýja álbræðslu í Straumsvík.

1.      Hverjar urðu niðurstöður úr hagkvæmniathugun Atlantal-hópsins um byggingu 185 þús. tonna álvers í Straumsvík, sbr. samkomulag frá 4. júlí 1988?
    Athugun á hagkvæmni sjálfstæðs 185 þúsund tonna álvers í Straumsvík lauk í marsmánuði síðastliðnum. Beinar tölur um áætlaðan kostnað eru háðar viðskiptaleynd og er því ekki unnt að birta þær. Niðurstaða athugunarinnar í vor var að hagkvæmara virtist að reisa og reka 120 þús. tonna viðbót við álverið í Straumsvík en sjálfstætt 185 þús. tonna álver. Í byrjun maí bárust svör frá fyrirtækjunum fjórum sem tóku þátt í könnuninni um afstöðu þeirra til áframhaldandi þátttöku í undirbúningi aukinnar álframleiðslu hér á landi. Í stuttu máli voru svörin á þann veg að öll fyrirtækin lýstu áhuga á þátttöku í athugun á hagkvæmni stækkunar álversins um 120 þús. tonn. Granges og Alumined lýstu því jafnframt yfir að þau vildu halda opnum þeim möguleika að ráðist yrði í sjálfstætt 185 þús. tonna álver.

2.      Hverjir eru nú þátttakendur í athugun á álbræðslu í Straumsvík og eftir hvaða samningi er að þeim unnið?
    Unnið hefur verið að athugun á stækkun álbræðslunnar í Straumsvík á grundvelli samkomulagsins frá 4. júlí 1988. Samkvæmt samkomulaginu var gert ráð fyrir að kanna bæði hagkvæmni þess að reisa og reka nýtt álver og að stækka álverið í Straumsvík. Þótt könnunin hafi að undanförnu beinst sérstaklega að 120 þús. tonna stækkun Ísals er nú verið að endurnýja fyrri athugun á nýju 185 þús. tonna álveri til samanburðar. Þessi athugun miðast við að styttri tími líði frá því að bygging álversins hefjist þar til það verði komið í fullan rekstur og er það gert í ljósi nýrra möguleika á því að ljúka Fljótsdalsvirkjun fyrr en gert var ráð fyrir í hagkvæmniathuguninni síðastliðið vor.
    Eitt fyrirtækjanna fjögurra, Austria Metall AG, tilkynnti með bréfi dags. 12. sept. sl. að það drægi sig út úr Atlantal-hópnum þar sem það hefði skuldbundið sig til að taka þátt í nýju álveri í Kanada. Þá er rétt að geta þess að Hoogovens-samsteypan hefur endurskipulagt rekstur álfyrirtækja sinna í eitt félag sem heitir Hoogovens Aluminium. Hoogovens Aluminium yfirtók rekstur Alumined frá 1. okt. sl. Hagkvæmniathugunin er því unnin í samstarfi eftirtaldra fyrirtækja:

    Swiss Aluminium
    Zurich, Swiss.

    Granges Aluminium
    Stokkhólmi, Svíþjóð.

    Hoogovens Aluminium
    Amstelveen, Hollandi.

3.      Að hve miklu leyti nýtast mannvirki sem fyrir eru í Straumsvík fyrir viðbótarálbræðslu?
    Ýmis mannvirki í eigu Ísals og tengd því fyrirtæki munu nýtast ef ráðist verður í nýtt álver eða stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, sum án fjárfestingar og önnur með tiltölulega lítilli fjárfestingu. Að hversu miklu leyti mannvirkin koma til með að nýtast ræðst m.a. af því hvort nýtt álver verður reist eða álverið verður stækkað. Þau mannvirki, sem gætu nýst, eru:
—     Höfn, uppskipunarkerfi fyrir súrál, súrálsgeymslur og flutningstæki.
—     Álsteypa.
—     Rannsóknastofa, almenn viðhaldsverkstæði, svo sem rafmagnsverkstæði, vélaverkstæði og farartækjaverkstæði.
—     Slökkvilið og slysavakt, skrifstofuhúsnæði, mötuneyti og starfsmannaaðstaða.
—     Ýmiss konar geymsluhúsnæði, svo og holræsi, vatnslagnir og aðrar lagnir.

4.      Hvenær er gert ráð fyrir að athugunum ljúki og málið komi til kasta Alþingis?
    Á næstu vikum fæst væntanlega úr því skorið hvort grundvöllur er fyrir formlegum samningum um stækkun álversins í Straumsvík eða fyrir nýju álveri. Verði niðurstaðan jákvæð er reiknað með því að sameiginleg yfirlýsing um að ganga til samningaviðræðna um stækkunina verði undirrituð í desembermánuði. Miðað við að skrifað verði undir yfirlýsingu þess efnis er gert ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar um nýtingu innlendra orkulinda til atvinnuuppbyggingar verði lögð fram á Alþingi um líkt leyti. Frumvarp til heimildarlaga um nýtt álver yrði þá væntanlega lagt fram á Alþingi að loknu jólahléi þingsins. Einnig yrði að sjálfsögðu lagt fram á Alþingi frumvarp til heimildarlaga vegna nauðsynlegra virkjana.