Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 17 . mál.


Sþ.

188. Svar



ráðherra Hagstofunnar við fyrirspurn Hreggviðs Jónssonar um eignarskatt á Norðurlöndum.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
1.    Er eignarskattur af íbúðarhúsnæði í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð mismunandi eftir eignaformi, þ.e. einkaeign, félagaeign eða opinberri eign?
2.    Hversu hár er eignarskattur í hverju þessara landa fyrir sig og með hvaða hætti er hann reiknaður?
3.    Hvernig er eignarskattsstofn íbúðarhúsnæðis ákvarðaður af hinu opinbera í þessum löndum? Eru til opinberar skrár um allt íbúðarhúsnæði í þessum löndum?

    Hagstofa Íslands hefur ekki þau gögn sem nauðsynleg eru til að svara fyrirspurninni. Fyrirspurnin var því send fjármálaráðuneytinu og er eftirfarandi svar fengið frá því:

1.     Eignarskattur í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð er mismunandi eftir því hvort um er að ræða eignir einstaklinga annars vegar eða lögaðila hins vegar. Eignir ríkis, sveitarfélaga, opinberra stofnana og annarra opinberra aðila eru almennt undanþegnar eignarskatti með nokkrum undantekningum, einkum þegar opinberir aðilar hafa með höndum atvinnurekstur svipaðs eðlis og einstaklingar og lögaðilar. Eignarskattur af íbúðarhúsnæði reiknast eftir sömu reglum og eignarskattur af öðrum eignum nema annað sé sérstaklega tekið fram.
2.     Í öllum fyrrgreindum löndum miðast eignarskattsstofn almennt við skattskylda nettóeign gjaldanda í lok almanaksárs. Eignarskattur hjóna reiknast í öllum löndunum almennt af samanlögðum eignarskattsstofni hjónanna. Skatthlutföll og útreikningur eignarskatts er að öðru leyti með eftirfarandi hætti:

a.     Danmörk:
         Eignarskattur af eignum einstaklinga reiknast á þann hátt að af fyrstu 1.329.900 d.kr. greiðist enginn eignarskattur en af eignarskattstofni umfram það greiðist 2,2% eignarskattur. Enginn eignarskattur er lagður á eignir lögaðila.

b.     Finnland:
         Eignarskattur af eignum einstaklinga reiknast á þann hátt að af fyrstu 1.000.000 f.mk. greiðist 500 f.mk., en af eignarskattsstofni umfram 1.000.000 f.mk. greiðist 0,9% eignarskattur. Frá eignarskattsstofni af íbúðarhúsnæði til eigin nota er veittur frádráttur og nemur hann 40% af fyrstu 125.000 f.mk. af verðmæti þess. Frá eignarskattsstofni hjóna er veittur frádráttur að fjárhæð 50.000 f.mk. auk 10.000 f.mk. fyrir hvert barn undir 16 ára aldri á framfæri þeirra. Eignir barna eru skattlagðar með eignum foreldra eða þess foreldris sem hefur forsjá þeirra. Eignarskattur af eignum lögaðila er 1,0% af eignarskattsstofni. Heimilt er að lækka eignarskatt lögaðila ef eignarskattsstofn nemur eigi hærri fjárhæð en 50.000 f.mk. Lögaðilar eru undanþegnir eignarskatti ef eigendur þeirra greiða eignarskatt af hlutdeild sinni í þeim.

c.     Noregur:
          Eignarskattur er lagður á eignir einstaklinga í fjórum þrepum. Gerður er munur á því hvort einstaklingur er með aðra á framfæri sínu eða ekki og reiknast eignarskattur á eftirfarandi hátt í norskum krónum:

                 Einstaklingur með     Einstaklingur með
                    aðra á framfæri     engan á framfæri
    af fyrstu         110.000    115.000    greiðist 0,2%
    af næstu         240.000    235.000    greiðist 0,6%
    af næstu         355.000    355.000    greiðist 0,9%
    af því sem umfram er              greiðist 1,3%

         Persónufrádráttur frá eignarskattsstofni einstaklings með aðra á framfæri er 150.000 n.kr. en einstaklings með engan á framfæri 120.000 n.kr. Frádráttur vegna sparnaðar í formi hlutabréfakaupa, skuldabréfakaupa og innleggs á sparifjárreikninga er 60.000 n.kr. frá eignarskattsstofni einstaklings með aðra á framfæri en 30.000 n.kr. frá eignarskattsstofni einstaklings með engan á framfæri. Eignarskattur af eignum lögaðila er 0,3% af eignarskattsstofni.

d.      Svíþjóð:
         Eignarskattur er lagður á eignir einstaklinga í fjórum þrepum og reiknast á eftirfarandi hátt í sænskum krónum:

    af eignarskattsstofni         0 til 400.000    greiðist 0,0%
    af eignarskattsstofni         400.000 til 600.000greiðist 1,5%
    af eignarskattsstofni         600.000 til 800.000greiðist 2,0%
    af eignarskattsstofni         800.000 til 1.800.000greiðist 2,5%
    af eignarskattsstofni         1.800.000 og hærragreiðist 3,0%

         Eignir barna eru skattlagðar með eignum foreldra nema skattskyldar tekjur barns nemi 100 s.kr. eða meira. Enginn eignarskattur er lagður á eignir lögaðila. Tímabundinn eignarskattur er þó lagður á eignir líftryggingafélaga og lífeyrissjóða og nemur hann 7,0% af eignarskattsstofni umfram 10.000.000 s.kr. miðað við árslok 1986.
3.         Eignarskattur af íbúðarhúsnæði í áðurgreindum löndum miðast almennt við opinbert fasteignamat. Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins munu vera til opinberar skrár um allt íbúðarhúsnæði í löndunum fjórum en í misjafnlega aðgengilegu formi.

    Þessar upplýsingar eiga einungis við um einstaklinga og lögaðila með heimilisfesti í því landi sem eignarskattur er álagður og miðast við 1. júní 1989.