Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 181 . mál.


Sþ.

204. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu löggæslu.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson, Friðjón Þórðarson, Matthías Á. Mathiesen,


Matthías Bjarnason, Pálmi Jónsson, Halldór Blöndal,


Egill Jónsson, Þorsteinn Pálsson, Salome Þorkelsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að grípa nú þegar til ráðstafana er fela í sér eflingu löggæslu í landinu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi, en fékkst ekki afgreidd. Löggæslumál eru því enn sem fyrr í ófullnægjandi ástandi. Þingsályktunartillagan er því enn á ný lögð fram í þeirri von að Alþingi taki afstöðu með því að löggæslan í landinu verði efld. Hér er um brýnt hagsmunamál að ræða sem snertir sérhvern mann og dylst engum að mikilvægi traustrar löggæslu fer stöðugt vaxandi. Í þeim efnum ber að leggja enn meiri áherslu á forvarnastarf á sviði löggæslumála, m.a. með tilliti til breyttra samskipta þjóða. Aukið samskiptafrelsi á alþjóðavísu hefur leitt til þess að milljónir manna eru stöðugt á ferli milli landa. Krefst það mikils og stöðugs eftirlits því lítið þarf út af að bera til þess að af hljótist mikið slys. Í slíku verndarstarfi gegnir löggæslan mikilvægu hlutverki. Á það við um Ísland sem önnur lönd þar sem fullkomið ferðafrelsi ríkir.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi sem gera aðrar og meiri kröfur til ýmiss konar þjónustu í þágu borgaranna. Meðal þess er krafan um aukna löggæslu á ýmsum sviðum, svo sem vegna umferðarmála, forvarnastarfs gagnvart aukinni útbreiðslu fíkniefna og vegna alhliða þjónustu í þágu fólksins.
    Heilbrigð og öflug löggæsla er einn af hornsteinum lýðræðislegra stjórnarhátta. Þess vegna er mikilvægt að ætíð sé svo vel búið að löggæslunni að hún geti mætt þeim kröfum sem til hennar eru gerðar. Þörfin fyrir aukna vernd borgaranna eykst stöðugt. Í þeim efnum gegnir löggæslan veigamiklu hlutverki. Enn sem fyrr er frumskylda löggæslunnar fólgin í því að veita fólki nauðsynlega vernd og öryggi gagnvart misindis- og afbrotamönnum. Framkvæmd laga og réttar byggist á öruggri og vel upp byggðri löggæslu. Án þess væri dómsvaldið óvirkt og allt réttarfar í hættu. Þá hefur hlutdeild löggæslunnar í útfærslu umferðarmála aukist ár frá ári. Sá þáttur hefur vaxið mikið að umfangi og er stöðugt tímafrekari í starfsemi löggæslumanna.
    Á síðustu árum hafa önnur atriði komið til skjalanna sem gera eflingu löggæslu enn brýnni. Illu heilli hafa Íslendingar ekki farið varhluta af þeirri alvarlegu þróun sem fylgir mikilli útbreiðslu og neyslu fíkniefna. Vel skipulagðir glæpahringir teygja anga sína um allan heim, þar á meðal til Íslands. Þessir aðilar hafa mikinn fjölda misindismanna á sínum snærum sem dreifa hættulegum fíkniefnum og selja þau. Ágengni þeirra og ófyrirleitni teflir árlega lífi tuga eða hundraða unglinga á Íslandi í mikla hættu. Þessum aðilum verður nútímalöggæsla að mæta með öllum ráðum.
    Starfssvið löggæslunnar á Íslandi er orðið gífurlega yfirgripsmikið og krefst mikillar árvekni af hálfu þeirra sem þar bera ábyrgð. Þrátt fyrir það hefur ekki verið búið að löggæslunni sem skyldi og alls ekki í samræmi við þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Látið er fljóta að feigðarósi í þessum efnum og er ekki seinna vænna að löggæslumálin verði tekin fastari tökum í fullu samræmi við nútímakröfur og aðsteðjandi hættur. Það verður ekki gert nema til komi öflugur stuðningur af hálfu ríkis og sveitarfélaga, en eðli málsins samkvæmt heyra þessi mál undir samfélagið í heild. Hér er því ekki verið að gera tillögu um eflingu ríkisvalds sem slíks, heldur þann þátt er lýtur að nauðsynlegri vernd borgaranna.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og upplýsinga um ófullnægjandi aðbúnað íslensku löggæslunnar er þessi þingsályktunartillaga flutt. Aðgerðarleysi af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar til eflingar löggæslu stofnar öryggi borgaranna í mikla hættu og getur veikt framkvæmd laga og réttar í landinu. Við ákveðnar aðstæður gæti lýðræðislegu stjórnarfari staðið ógn af því ef löggæslan getur ekki veitt borgurunum nægilega vernd og tryggt öryggi þeirra gagnvart afbrotamönnum eða ofbeldisöflum. Að standa gegn eflingu löggæslu jafngildir því að vilja vísvitandi grafa undan lýðræðislegu réttarfari og þingræðislegum stjórnarháttum.
    Að lokum skal þess getið að á vegum Lögreglufélags Reykjavíkur var árið 1988 gefin út bráðabirgðaskýrsla um stöðu og þróun löggæslumála í Reykjavík. Skýrslan var birt sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þeirri um eflingu löggæslu sem fyrr er getið og flutt var á 111. löggjafarþingi 1988. Vísast til skýrslunnar um nánari upplýsingar um ástand þessara mála.