Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 98 . mál.


Sþ.

234. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Geirs H. Haarde um vexti á ríkisvíxlum.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
1.    Hverjir hafa verið
        a.    nafnvextir,
        b.    raunvextir miðað við framfærsluvísitölu og
        c.    raunvextir miðað við lánskjaravísitölu á 45, 90 og 120 daga ríkisvíxlum á þessu ári?
2.     Hvert mat fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands sé á áhrifum ríkisvíxlavaxta á almennt vaxtastig í landinu.

    Meðfylgjandi er tafla sem svar við 1. lið, a–c. Einnig fylgir línurit til frekari skýringar. Þá fylgja og svör fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um seinni lið fyrirspurnarinnar.


Svar fjármálaráðuneytisins.


(28. nóv. 1989.)



    Fjármálaráðuneytið hefur fylgt þeirri stefnu að breyta vöxtum á ríkisvíxlum samhliða breytingum á vöxtum víxilútlána bankanna. Þó hafa vextir ríkisvíxla ekki alltaf verið hækkaðir samhliða hækkun almennra víxilvaxta. Þannig hækkuðu vextir bankavíxla mun meira sl. vor og fyrri hluta sumars eins og glöggt kemur fram á meðfylgjandi línuriti. Vextir á ríkisvíxlum hafa því aldrei verið leiðandi í vaxtahækkunum eða fyrirstaða fyrir vaxtalækkunum hjá bönkunum.
    Eftir sem áður er réttmætt að spyrja þeirrar spurningar hvort vextir hefðu orðið lægri ef ríkisvíxlar hefðu ekki verið boðnir fram. Ef ekkert framboð á ríkisvíxlum stafar af því að ríkið hefur ekki þörf fyrir lánsfé verður almennt vaxtastig lægra en ella. Þetta eru augljós sannindi sem eiga rætur að rekja til þess sambands sem er á milli almenns vaxtastigs og lánsfjáreftirspurnar ríkissjóðs og kemur ríkisvíxlum sem slíkum og vöxtum þeirra ekkert við. Ef ríkissjóður hefði hins vegar haft óbreytta lánsfjáreftirspurn, en yfirdregið í Seðlabanka í stað þess að selja ríkisvíxla, ráðast áhrifin á vexti af stjórn peningamála. Eðlilegt verður að teljast að Seðlabankinn mæti slíkum yfirdrætti með peningalegum aðgerðum á öðrum sviðum, svo sem með hækkun bindiskyldu bankanna og er þá óljóst hvort almennt vaxtastig verður hærra, lægra eða svipað og orðið hefði ef ríkissjóður hefði selt ríkisvíxla beint til bankanna. Ræðst það m.a. af fyrirkomulagi vaxtagreiðslna af bindiskyldu og möguleikum bankanna til að velta rekstrarkostnaði sínum yfir á lántakendur. Ekki er því hægt að fullyrða að tilraun ríkissjóðs til þess að fjármagna lánsfjárþörf sína á innlendum lánsfjármarkaði, en utan Seðlabankans, hafi marktæk áhrif til hækkunar vaxta. Ríkissjóður gæti að vísu tímabundið lækkað vexti með því að taka erlend lán í stórum stíl. Þetta er hins vegar ekki æskileg leið til að stuðla að vaxtalækkun og stenst ekki til lengdar. Ríkissjóður stuðlar því best að varanlegri lækkun vaxta með því að draga úr lánsfjáreftirspurn sinni.


(Tafla og línurit ekki til tölvutæk.)





Svar Seðlabanka Íslands.


(15. nóv. 1989.)



QR Fyrirspurn um ríkisvíxla.
    Tilefni þessa bréfs er bréf yðar dags. 8. nóv. sl. um fyrirspurn Geirs H. Haarde til fjármálaráðherra um vexti á ríkisvíxlum.
    Meðfylgjandi töluyfirlit, sem unnið var í samvinnu við yður, veitir svör við 1. spurningu.
    Í 2. spurningu er m.a. spurt um mat Seðlabankans á áhrifum vaxta ríkisvíxla á hið almenna vaxtastig í landinu og skal í því sambandi eftirfarandi tekið fram.
    Vextir ríkisvíxla hafa jafnan verið lægri en vextir bankavíxla og hefur þeim verið breytt í kjölfar almennra vaxtabreytinga. Ríkisvíxlavextir voru þó óbreyttir í meira en tvo mánuði frá miðjum apríl er bankavextir fóru hækkandi. Jókst því munurinn þarna á milli en minnkaði aftur er bankavextir lækkuðu á ný. Þetta má sjá á meðfylgjandi línuriti. Þar kemur og glöggt fram að vextir ríkisvíxla hafa fylgt öðrum vöxtum fremur en verið leiðandi.
    Vissulega gætu vextir ríkisvíxla haft áhrif á almennt vaxtastig bæði vegna samanburðar og þess að ætla má að fjármagn leiti þangað sem arðsemi er mest og áhættan lægst. Með ákvörðun um vexti af ríkisvíxlum, t.d. með því að hafa þá mun hærri en aðra vexti, gæti ríkissjóður trúlega haft áhrif á almennt vaxtastig, en svo hefur ekki verið í reynd á þessu ári.
    Við þær aðstæður, sem nú eru að halli myndast á rekstri ríkissjóðs jafnframt því sem kapp er lagt á að halda aftur af erlendum lántökum, má búast við að vaxtastig haldist hærra en ella.

Seðlabanki Íslands,


peningamáladeild.


Eiríkur Guðnason. Sveinn Sigurðsson.