Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 212 . mál.


Sþ.

254. Tillaga til þingsályktunar



um að kanna hvernig önnur smáríki afla sér tekna og haga stjórnkerfi sínu.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd til að kanna hvernig önnur smáríki sambærileg við Ísland afla sér tekna og kynna sér jafnframt stjórnkerfi þeirra. Nefndin skili áliti fyrir lok þessa þings.

Greinargerð.


    Nýjustu tíðindi af loðnuveiðum Íslendinga minna enn einu sinni á hve atvinnulíf landsmanna er einhæft. Þess vegna er aldrei brýnna en nú að finna nýjar tekjuleiðir fyrir þjóðina; hafa ekki öll eggin lengur í sömu körfunni.
    Íslendingar eru stórhuga þjóð og hættir því stundum til að leita samanburðar við stórveldi heimsins í stað þess að kynna sér aðstæður hjá öðrum smærri þjóðum og ríkjum eins og Lúxemborg, Andorra, Liechtenstein, Mónakó, San Marínó, Möltu, Kípur og jafnvel Færeyjum, bresku eyjunum á Ermarsundi og ýmsum eyjum í Vestur-Indíum, eða halda lengra út í hinn stóra heim og skoða staði svo sem Hong Kong, Formósu og Singapúr. Ómaksins vert er að skoða allt þetta. Jafnframt er sjálfsagt að kynna sér stjórnkerfi þessara landa og hvort þau komist vel af með einfaldari stjórnsýslu en Íslendingar.
    Íslendingar hafa áður slegist í hóp smáþjóða í Evrópu og á íþróttamóti þeirra hlutum við 21 gullverðlaun, 20 silfurpeninga og 9 brons.
    Aðrar litlar þjóðir hafa margar lært fyrir löngu að ekki verður allt upp tekið sem stórþjóðirnar hafast að. Því hafa smáþjóðirnar lagað sig að aðstæðum og fært sér smæðina í nyt. Við þurfum því ekki að finna marga nýja tekjustofna fyrir íslensku þjóðina til að geta hafið nýja sókn, ef rétt er á spilum haldið, eða margar nýjar leiðir til að draga úr umfangi stjórnkerfisins með einföldun og sparnaði. Fyrsta skrefið er að litast um og safna gögnum en vinna síðan úr þeim hugmyndum sem við getum hugsanlega notað.
    Fram undan eru örlagaríkir samningar við þjóðir Evrópu um sameiginlegan markað. Því er rétt að athuga strax nýjar tekjulindir og hvernig þær falla að hugmyndum manna um Evrópumarkað á meðan svigrúm er til samninga.
    Þess vegna er nú lagt til að utanríkisráðherra skipi strax nefnd hæfustu manna til að kynna sér tekjuliði og stjórnsýslu hjá smáþjóðum sem eru sambærilegar við Ísland og vinna úr þeim gögnum nýjar hugmyndir sem geta komið að notum hér á landi.
    Vegna þess hve hlutirnir gerast nú hratt á alþjóðlegum vettvangi er nauðsynlegt að nefndin taki til starfa nú þegar og skili áliti næsta vor fyrir lok þessa löggjafarþings.