Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 208 . mál.


Nd.

393. Nefndarálit



um frv. til l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið var rætt á þremur fundum nefndarinnar samkvæmt samkomulagi um að greiða fyrir því að málið fengi hraða afgreiðslu í neðri deild. Til að flýta sérstaklega fyrir nefndarstörfum féllst 1. minni hl. á að taka málið til ítarlegrar umræðu áður en 1. umr. fór fram í deildinni. Þetta viðamikla mál var því afgreitt úr nefndinni daginn eftir að því var vísað til nefndarinnar. Slík fljótaskrift kann sjaldnast góðri lukku að stýra, en vegna þess hve málið kom seint fram var nauðsynlegt að hafa hraðar hendur til þess að málið fengi afgreiðslu fyrir jól.
    Lögin um virðisaukaskatt áttu að taka gildi á miðju þessu ári en gildistökunni var frestað. Þrátt fyrir það að þannig gæfist rúmur tími hefur undirbúningur verið ófullnægjandi. Ákvarðanir stjórnarmeirihlutans um mikilvæg atriði, er varða málið, hafa sífellt verið að breytast og sumar liggja ekki fyrir enn.
    Verði frumvarp þetta að lögum hækkar skatthlutfall virðisaukaskatts úr 22% í 24,5%. Sjálfstæðismenn í fjárhags- og viðskiptanefnd efri deildar hafa fært rök fyrir því að tekjuaukning ríkissjóðs vegna kerfisbreytingar úr 25% söluskatti í 24,5% virðisaukaskatt nemi u.þ.b. 1.600 millj. kr. Öll áform um að bæta ríkissjóði upp „tekjumissi“ með hækkun tekjuskatts sé því út í bláinn. Ríkisstjórnin er vitandi vits að hækka skatta á almenningi á sama tíma og kjör skerðast verulega. Jafnframt vaxa ríkisútgjöld jafnt og þétt. Gera má ráð fyrir 5 milljarða króna halla á ríkissjóði á yfirstandandi ári og a.m.k. ámóta halla á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur nú þegar slegið Íslandsmet í ríkisútgjöldum séu þau mæld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. apríl er því lofað að jöfnunargjald verði fellt niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda. Ríkisstjórnin virðist ekki ætla að standa við það loforð jafnvel þótt óheimilt sé að leggja á jöfnunargjaldið eftir að virðisaukaskatturinn tekur gildi samkvæmt samningi við viðskiptaþjóðirnar. Ofan á allt bætist að fjármálaráðherra neitar að gefa löggjafarþinginu upplýsingar um það hve hátt gjaldið verður og hve lengi árs það verður innheimt.
    Upplýst var í nefndinni að samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1989 sé ætlunin að greiða útflutningsgreinunum 390 millj. kr. upp í uppsafnaðan söluskatt vegna framleiðslu yfirstandandi árs. Hvorki fengust upplýsingar um það hvernig upphæðin á að skiptast á einstakar greinar né heldur hvort hún dygði samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum útflutningsgreinanna.
    Þegar lögin um virðisaukaskatt voru sett var gengið út frá því að heimild um greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning í 34. gr. yrði notuð. Núverandi ríkisstjórn ætlar að hafa orð Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrv. fjármálaráðherra, að engu en veita í staðinn greiðslufrest á hráefni og rekstrarvörum iðnaðarins eftir geðþótta fjármálaráðherra. Samtök verslunarinnar telja að fjárbinding af þessum sökum muni hækka verðlag á bilinu 1–2% og jafnvel meira. Verði það endanleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar að nýta ekki heimild 34. gr. er það alvarleg atlaga að versluninni, ekki síst á landsbyggðinni þar sem veltuhraði er minni.
    Að óbreyttum lögum mun útgjaldaaukning sveitarfélaganna nema um 900 millj. kr. vegna skattkerfisbreytingarinnar. Fjármálaráðherra hefur viðurkennt að slíkt sé óverjandi, en fæst þó ekki til að gera nú þegar breytingar á frumvarpinu. Nefndin hefur aflað sér upplýsinga um þetta efni frá Danmörku þar sem virðisaukaskatturinn er undanþágulaus. Frá árinu 1985 hafa sveitarfélögin þar í landi fengið virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu og aðföngum frá einkaaðilum endurgreiddan.
    Ljóst er samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi að niðurgreiddar búvörur munu á næsta ári hækka verulega umfram almennar verðlagsbreytingar. Áhrif endurgreiðslu á hluta virðisaukaskattsins til lækkunar á verði dilkakjöts og mjólkur muni því verða hverfandi þegar líða tekur á næsta ár.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar stendur að sameiginlegum tillöguflutningi nefndarinnar á þskj. 288. Jafnframt flytur 1. minni hl. breytingartillögur á sérstöku þingskjali og verður gerð grein fyrir þeim í framsöguræðu.

Alþingi, 19. des. 1989.



Friðrik Sophusson,


frsm.


Matthías Bjarnason.